Þetta er hin saklausasta spurning, – sérstaklega þegar þú ert kannski búin/n að koma því að að þú sért móðir eða faðir. – Væri kannski hálf kjánalegt að spyrja, ef þú vissir ekki hvort viðkomandi ætti yfirhöfuð nokkur börn. –
En þessi spurning er ein af þeim sem sló mig stundum út af laginu, eftir að Eva mín dó. –
Ég var spurð að þessu í morgun, enda var ég að tala um börnin mín og sambandið við þau.
„Hvað áttu mörg börn?“ – Ég svaraði: „Ég á þrjú og þrjú barnabörn“ – og fór svo ekkert lengra í þá sálma.
Það er rétt að ég á þrjú börn, þó það elsta sé farið. En stundum veit ég ekki alveg hvernig ég á að svara, sérstaklega þegar umræðan heldur áfram um börnin. – Eða þegar ég er spurð nánar út í ferðirnar til Danmerkur, – þegar ég svara að ég sé að fara að heimsækja barnabörnin þar, þá kemur svo oft í framhaldi – auðvitað – hvort það sé dóttir mín eða sonur sem búi þar, eða eitthvað svoleiðis. Það „venst“ aldrei að segja „dóttir mín er látin“ – og svo er maður ekkert alltaf tilbúin að fara að útskýra allt sem gerðist.
Þó við séum búin að „sætta“ okkur við orðinn hlut, þá er grunnt í sárið, og að fara að segja frá þessu – er oft eins og að rífa ofan af. –
Já, stundum er auðveldast að svara bara „Ég á þrjú börn“ – og reyna svo að beina talinu að öðru. –
Það er engin biturð í þessu, aðeins kannski að minna á þessa viðkvæmu hluti, – að það er til tími og staður fyrir allt og það líður ekki sá dagur sem barnið manns er í hjartanu – huganum – hugsuninni. En til að halda áfram þarf það að fá bara að hvíla, – við viljum ekkert endilega vera að útskýra hvað gerðist o.s.frv. – og það er stundum bara gott að leyfa – hvort sem það er mér, eða öðru fólki sem hefur misst að ákveða hvort að því langar að segja meira frá. Ekki spyrja of djúpt og ganga nærri. –
Nýlega heyrði ég að einhver hefði spurt konu sem hafði misst bróður við sjálfsvíg, – „Hvernig fór hann að því?“ – Það var eflaust bara spurt í góðum hug, en stundum er erfitt að segja „ég vil ekki svara því“ – og um leið og spurningin er komin í loftið, rifjast atburðurinn, og atburðarás í kringum dauðsfall upp í huga aðstandanda.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Og ég veit það núna að ég má alveg svara bara. Ég á þrjú börn, ég lýg engu um það – og það er nóg svar. –
❤
Takk fyrir thetta Jóhanna. Ég thekki thetta, en á annan hátt. Ad svara spurningunni : „Hvad erud thid systkinin mørg? Eda „Hvad áttu mørg systkini“? Ég hef misst systkini.