Þessi pistill fellur í flokk „feel-good“ pistla – þar sem ég deili tilfinningum þeim að vera amma, og hafa barnabörnin í gistingu. Barnabörnin mín eru þrjú, – Ísak Máni er elstur en hann er tíu ára, síðan kemur systir hans Elisabeth Mai fimm ára, og yngst er Eva Rós en hún er fjögurra ára. Þau eldri eru börn Evu Lindar dóttur minnar og sú yngsta er dóttir Þórarins Ágústs, sonar míns.
Stelpurnar eiga það sameiginlegt, fyrir utan að vera bæði yndislegar blondínur, að þegar þær sofa uppí, eru þær eins og þyrluspaðar. – Þess vegna á amma í fullu fangi við að breiða yfir þær sængina.
Eva Rós gisti í nótt, – ég rumska um miðja nótt og ég hef mjakast nær kanti – en hún liggur þvert, og fæturnir uppi á maganum á mér. – Ég rétti hana af og breiði yfir. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum, þar til í morgun – að ég er komin algjörlega útá brún í Drottningarrúminu mínu, – og lítill handleggur liggur yfir hálsinn.
Haldiði að ég hreyfi hana, eða mig? – Nei! – Það er fátt dásamlegra en að hafa lítinn handlegg sem liggur um háls ömmu. Svo ég frysti stundina og ligg frosin – þar til hún hreyfir sig næst 🙂 .. það er bara notó. –
Um leið og ég er að skrifa þetta man ég eftir einu „barnabarni“ í viðbót, – úff, hvernig er hægt að gleyma því, en það er hann Simbi (hundur) – „sonur“ Jóhönnu Völu, dóttur minnar – og eins og önnur „barnabörn“ fær hann að sofa uppí (hann er bara lítill og fer ekki svo úr hárum) – en hann á það til þegar hann er þannig stemmdur að leggja framfótinn á öxlina á ömmu líka. Annars er hans uppáhalds að sofa undir sæng til fóta. –
Sumir myndu segja, oj, ég læt aldrei hund sofa uppí, – en við höfum öll okkar, og mér finnst það æði – og eiginlega er best þegar það eru mörg börn og margir hundar og toppurinn er að hafa einn hrjótandi karlmann líka. –
En þetta var s.s. sunnudagspistillinn, bara á svona fjölskyldunótum og óska ég ykkur góðs dags, og góðrar viku. 🙂
Mynd tekin 2011 ❤