Dr. Phil er búinn að pæla í öllu, eða flestu sem kemur að mannlegum samskiptum og þá hjónaböndum. Þetta á við um þau sem eru í óvigðri sambúð líka að sjálfsögðu, en í Ameríkunni held ég að það sé algengara að fólk giftist en hér uppi á Íslandi þar sem er aðeins meira frjálslyndi. En það er nú ekki aðalmálið, heldur þessi sex atriði sem á eftir koma, til að sjá hvort að eitthvað er að gliðna eða rakna upp í sambandinu.
1. Þú stjórnar maka þínum og/eða beitir hann ofbeldi.
Þegar við stjórnum fólki, þá erum við að segja því „vertu sammála mér .. eða….“ Stundum er það heilbrigðara eða gefur meira af sér að vera ósammála. Eða reynir maki þinn kannski að stjórna þér með peningum? Talar niður til þín? Af hverju ættir þú að sætta þig við það, og af hverju ætti einhver sem elskar þig í raun og veru að koma þannig fram við þig? Ef það er valdaójafnvægi í sambandinu, sem veldur því að þú týnir sjálfum/sjálfri þér, gætir þú verið í óhollu sambandi.
2. Þú eða maki þinn skilgreinið hjónabandið út frá afbrýðisemi og óöryggi.
Njósnar þú oft um maka þinn? Reynir þú að lesa sms skilaboðin hans, vegna þess að þú ert alls ekki viss hvað er að gerast? Afbrýðisemi er illa falin þörf fyrir þörfina á að stjórna og hafa máttinn – og það er rautt viðvörunarmerki. Það liggur meiri máttur í ást þinni, virðingu, persónueika og aðdráttarafli, en þú hefur þegar þú reynir að stjórna.
(Smá viðbót frá mér: stundum er tilefni til að njósna, spurning hvar það byrjar. En ef þörfin er komin fyrir að njósna. Traustið ekki meira en það, þá er auðvitað kominn brestur)
3. Þú lýgur að maka þínum og blekkir í peningamálum.
Hefur þú og maki þinn verið fullkomlega heiðarleg í peningamálum, fyrir hjónabandið og síðan eftir að þið giftuð ykkkur? (eða bara í sambandinu). Fólk sem hefur ekkert að fela, felur ekkert. Hvað ertu að fela og hvers vegna? Og hverju öðru ertu tilbúin/n að halda leyndu? Að ljúga um fjármál – grefur undan þeim strausta grunni, sem hjónabandið þarf að standa á. („Á bjargi byggði hygginn maður hús“ ).
4. Þú eða maki þinn blandið tengdaforeldrum óhóflega mikið inn í ykkar mál.
Ef þú ert að hlaupa til foreldra þinna eða tengdaforeldra með hjónabandsvandamálin, ertu ekki að virða heilagleika og mörk ykkar sambands. Þú ert fullorðin/n núna, eigðu þetta við manneskjuna sem þú ert í sambandi við, ekki við fólkið sem ól ykkur upp. –
5. Þið náið ekki að vera samstíga í uppeldinu
Ef að þið eigð börn – og börnunum ykkar tekst að sundra ykkur og sigra , þá eru þau að breikka bilið á milli ykkar. Sérstaklega ef þið rífist síðan um það fyrir framan börnin, það hreinlega breytir þeim. Þið eruð að hræða þau fyrir lífstíð og þau eiga það ekki skilið. Verið nógu þroskuð til að hætta að öskra, og setjið þeirra þarfir í forgang.
6. Þú hunsar þarfir maka þíns fyrir nánd og kynlíf
Samband pars í svefniherberginu er endurspeglun á restina af sambandi þeirra. Nánd er nauðsynleg til berskjöldunar. Það er þegar þú felllir varnir og hleypir einhverjum nálægt þér og þú deilir síðan einhverju líkamlegu. Ef þið verjið deginum í að rífast, munuð þið eiga erfitt með að setja nándina í forgang,
Þessi sex atriði eru s.s. tekin upp eftir Dr. Phil og þýdd af mér. Ég tel að það sé mikið til í þessu, þó það mætti útfæra þetta og fara dýpra. – Nánd, heiðarleiki, virðing, – falleg samskipti. – Samt vera ósammála þegar þið eruð ósammála, – en komast þá að málamiðlun t.d. þegar um uppeldi barna er að ræða. Það er vont fyrir börn að hafa tvöföld skilaboð og að foreldrar séu að rífast yfir því. –
Heiðarleiki er grunnurinn, veggirnir eru byggðir af trausti og skuldbingindu, og þakið er málamiðlun. – Það er einhver fræðingur sem bjó þetta til, sem ég veit ekki hvað heitir, en mér finnst þetta býsna gott. –
Annað sem verður að koma hér fram: Málamiðlun er nauðsynleg í öllum samskiptum, – við getum ekki endilega alltaf verið 100 prósent sammála. – En það er nauðsynlegt að hafa það í huga, að ef að málamiðlunin er farin að brjóta á þínum lífsgildum, þá er hún ekki góð. Það þurfa báðir aðilar að koma út – eins og hreinlega í viðskiptasambandi, þannig að þeir séu sáttir með niðurstöðuna. Talað er um „win-win.“ Það er eitthvað gefið eftir, en aldrei eitthað sem brýtur á sjálfsvirðingu eða heilindum.
Það er gott að geta áttað sig á einkennum – áður en það er of seint. – Því auðvitað er hægt að laga svo margt innan sambands, það þarf ekki alltaf að stíga út til að laga. Sérstaklega ef ástin er fyrir hendi, hún getur læknað býsna margt. En báðir aðilar þurfa að hafa viljann.
Það þarf tvo aðila til að viðhalda hjónabandii.