„Þegar ég fann að þið treystuð mér, fór ég að treysta sjálfum mér“ ..

Ónefndir námsráðgjafar í ónefndum skóla fengu bréf frá ónefndum nemanda,  það var þakkarbréf, þar sem nemandinn hafði nú lokið prófi. –  Í bréfinu stóð m.a. :  „Þegar ég fann að þið treystuð mér, fór ég að treysta sjálfum mér.“  –

Nemandinn hafði farið út af brautinni, – „lent í rugli“ eins og sagt er. –  Hann  hafði fengið hvatningu frá námsráðgjöfum í skólanum sínum og stuðning. –

Ég er ekki að segja að þetta gangi alltaf upp, að treysta, jafnvel þeim sem lítur ekki út fyrir að vera traustsins verður, – en það getur verið mikilvægur meðbyr, auk þess sem það eykur ábyrgð viðkomandi á sjálfum sér. –  Nemandinn finnur, eins og í þessu tilfelli, að það er þarna fólk sem treystir honum, – og það virðist sá einhverju fræi hjá honum sjálfum,  smá vonarglætu og um leið finnur hann til þess að kannski geti hann bara komist úr farvegi eymdarinnar – inn á farveg gleðinnar, – með svona góða leiðsögumenn bak við sig. Leiðsögumenn sem geta bara gefið ráð og treyst, en ekki borið hann því að hann verður að ganga leiðina sjálfur og taka prófin sín sjálfur.

Engin/n getur gengið lífsgönguna fyrir okkur,  en við getum þegið samfylgd.  Það skiptir miklu máli hver þessi samfylgd er, virkar hún sem hvatning eða virkar hún letjandi?

Við erum öll nemendur í skóla lífsins og við viljum að okkur sé treyst fyrir sjálfum okkur. Þegar við finnum fyrir vantrausti þá virkar það letjandi. –  Það getur verið gott að mæta fólki sem hefur trú á okkur, – að við getum sjálf. –

„You can do it“ .. breytist í „I can do it“  .. eða  „Þú getur það“  í  „Ég get það“ …

Það er gott að líta í eigin barm, – allltaf – og hugsa. Er ég hvetjandi manneskja eða letjandi.

Þegar við treystum, erum við að gera fólk ábyrgt og sjálfráða. –  Ekki taka af fólki völdin – og gera þannig lítið úr því, með að draga úr þeirra sjálfstrausti.  Það er hægt að gera það, sérstaklega við þau sem eru okkur nánust. –   Hvað ef að setningin yrði:  „Þú treystir mér ekki og ég hætti að treysta á sjálfan mig.“  ..

Þegar við erum sterk, þá skiptir ekki öllu máli hvað hinir segja. – En þegar einstaklingar eru enn staddir á þeim viðkvæma stað að raddir hinna (og sérstaklega nánustu) skipta máli, þá skipta þær svo sannarlega máli. –

Ungar manneskjur eru mótanlegar og heilinn er mótanlegur. –  Þess yngra sem fólkið er, þess þynnri er „skelin“  inn að kjarna… Svo hleðst utan um okkur eins og babúskur, það koma fleiri lög.   Það er mikilvægt hvernig „forritunin“ fer fram.  Er hún á jákvæðum nótum, uppbyggileg, hvetjandi o.s.frv. –

Það er kúnst að finna ballansinn hvar á að gefa börnum ábyrgð og hvar ekki,  – ungabarn hefur núll ábyrgð en fullorðin manneskja fulla ábyrgð,  nema að eitthvað komi upp á og þurfi að svipta ábyrgð að einhverju leyti eða öllu. –

En unglingur er kominn með, eða ætti að vera kominn með,  þokkalega mikla ábyrgð, – og það er samfélagsins og hans uppalenda að færa honum hana.   Það er stundum of mikið í lagt, – eins og þegar unglingar eru farnir að bera ábyrgð á foreldrum,  og stundum of lítið þegar unglingur langt kominn á fullorðinsár getur ekki einu sinni vaknað sjálfur.  

Við þurfum öll að taka ábyrgð,  við hæfi.  Ég held það sé lykilatriði hér.  Ef að fólk finnur að því er treyst,  þá verður það ósjálfrátt ábyrgðarfyllra. –

Traust er vandmeðfarið og við gætum hugsað: „En það verða allir að vera traustsins verðir til að við getum treyst þeim“ ..  en stundum þurfum við að gefa annað tækifæri, ekki satt,  og flest höfum við nú misstigið okkur á einn eða annan hátt og fengið að rísa á ný – og við vorum traustsins verð. –

Í von um að þetta falli í frjóan jarðveg hjá einhverjum, – þó það væri ekki nema einn 🙂

images (11)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s