Grasið er grænt þar sem þú vökvar það ….

„It´s all about focus“ .. sagði gúrúinn .. og gú-rú þýðir frá myrkri til ljóss, og það sem þú veitir athygli vex, er það ekki? –

Við þekkjum þessa setningu að grasið sé grænna hinum megin við hæðina, – en í raun er hið rétta að grasið er grænt þar sem við vökvum það.

Þess vegna er alltaf verið að árétta að byrja heima hjá sér.  Fyrst hjá hverjum og einum einstaklingi, og ef einstaklingar eru í sambandi, þá í sambandinu. –

Ef að fókusinn, eða athyglin er sífellt utan sambands,  þá fer væntanlega eitthvað að vaxa þar,  en visna að innan.

Þegar ég fæ til mín fólk í skilnaðarhugleiðingum,  sting ég oftast upp á því að það gefi sambandinu tækifæri,  nema ef um er að ræða niðurbrot og ofbeldi af þeirri stærðargráðu að ekki verður úr því bætt. – Það er metið sérstaklega.

En svona bara „lala-samband“  sem fólk er búið að vera í lengri tíma, og bara orðið leitt kannski á tilbreytingaleysi,  þá er spurningin oft um að gera frekar eitthvað í því en að leita út á við.

Það fyrsta er – það sem ég skrifaði í upphafi „að skipta um fókus“ – sem þýðir að fara inn á við. Báðir aðilar þurfa að huga að sínu hjarta, sinni gleði, sjálfsvirðingu og ást á sjálfum sér, fyrst og fremst.  Það er þetta með að taka ábyrgð á eigin hamingju og heilsu. –   Síðan þurfa báðir aðilar að horfa inn í sambandið – í stað út.   Líka má skoða hvað er gott, hvað fer vel,  hæfileika, getu, – möguleika og framtíðarsýn.   Á fólk sameiginlega framtíðarsýn og hvað er það að gera til að þjóna henni? –

Um leið og fólk fer að hugsa um skilnað þá er skilnaðaröxin tekin fram,  og farið er að höggva í sambandið. –   Það virkar t.d. þannig að ef annar aðilinn er að hugsa þetta, þá hreinlega leitar hann að göllum hjá maka sínum og ástæðum til að skilja, til að réttlæta ákvörðun enn fremur.    Hann er með ósýnilegan lista, þar sem hann listar þetta allt skipulega upp,  allt sem miður fer. –  Fókusinn er á makanum, sem á að gera okkur „happy“ –  sinna okkur betur,  vera fullkominn – þó við séum það ekki endilega sjálf.  (Enda er það enginn).      En þegar að við erum í þessum „skilnaðarham“  og horfum bara á það neikvæða – þá vex það að sjálfsögðu.  Um leið horfum við út, yfir hæðina – á þetta græna og sjáum fyrir okkur að allt sé betra.  Þetta er ekki ósvipað og nemandi í framhaldsskóla, sem er ekki að virka vel í skólanum og telur sér trú um að ef hann skipti um skóla – ÞÁ  fari honum að ganga betur.

Skólar eru mismunandi, – svo sannarlega.  En þetta fer alltaf að langmestu leyti eftir nemandanum.  Ég gæti næstum sagt 90% eftir hans viðhorfi og vilja, –  og 10% er ytri aðstæður.   Það er auðvitað þannig, að hvort sem um er að ræða skóla eða hjónaband,  þá gefur fólk nýja skólanum eða makanum oft meiri „séns“ til að byrja með –  meiri en það gaf þessu sem var áður og er ekki í sömu dómhörku gagnvart því! –    Nýja konan er kannski alltaf sein eins og sú sem var á undan,  en það verður meira svona „sætt“  í tilfelli þeirrar nýju.  Sama gildir um karlinn, – hann fær meiri afslátt ef hann er nýr í sambandinu.   En öll sambönd eldast og breytast og verða að meiri vana er það ekki? –

Þegar við erum ekki að vökva heima hjá okkur, þá eins og áður sagði, visnar grasið.  Og kannski er ráð að prófa að vökva.  Hengja skilnaðaröxina upp og gefa sambandinu, sem á í raun oft mjög mikinn og góðan kjarna – séns.  Báðir aðilar geta þá litið í eigin barm og hugsað hvað hafi þeir að gefa. Kannski þurfa þeir að fylla á tankinn, í sjálfsástinni eða hvað það nú er,  en auðvitað er yndislegt ef fólk getur gert það saman að einhverju leyti.

Fólk lifir það alveg af að skilja,  það er þroskaferðalag – dýrt, bæði andlega og veraldlega.  Hvað ef hjónin hefðu getað varið þeim peningum frekar í að farið í annars konar ferðalag, kannski gengið Jakobsveginn, þar sem fólk upplifir „heimkomu“ til sjálfs sín.  Nú eða bara farið að iðka eitthvað fallegt huglægt saman?  Nú eða að láta drauma rætast?  Það er að sjálfsögðu hægt að gera það í sitt hvoru lagi, – en það dugar sjaldnast til að bara annar aðilinn rækti sig. –  Þó má segja það að það smiti yfir í hinn – þannig að hann langi líka.  Ef svo verður ekki – annar aðilinn ætlar bara ekkert með í þessa heimkomu sambandsins,  ÞÁ er hægt að endurskoða hvort að slíta eigi sambandinu.  Það er betra að fullreyna – en að vera með eftirsjá.  „Ef við hefðum“ ..

Svo er auðvitað það fólk sem hefur setið of lengi, óánægt í sambandi, og skilur svo, en hugsar:  „Ef við hefðum bara skilið fyrr“ ..

Aðalatriðið í þessu er þá að sitja ekki óánægð og í einhvers konar skilnaðarlimbói, og hugsunum um græna grasið. Heldur gera eitthvað í því og taka upp vatnskönnuna og byrja að vökva.  –  Það þarf s.s. að gera eitthvað  – ekki bara sitja í óánægjupyttinum.

Heiðarleiki er undirstaða góðs sambands. Ef okkur líður illa – þá þarf að skoða hvað það er.  Ræða það við maka sinn – og e.t.v. fá aðstoð til að finna út hvað er hægt að gera,  hverju er hægt að breyta og hverju ekki. –   Er eitthvað sem má sætta sig við og er bara gott og er eitthvað sem vantar kannski bara smá kjark til að breyta.

Ekki sprengja samband upp með framhjáhaldi, sem stundum er gert – og auka þannig á sársaukann.  Það er líka bara fáránlega erfitt ef að um skilnað verður síðan að ræða og sá/sú sem haldið var framhjá með verður nýi makinn.   Svo er ætlast til að allir verði vinir í skóginum.  Það er bara ekki raunsætt.  Fyrri maki þarf alla veganna að fá góðan tíma til að jafna sig.

Pælum aðeins aftur í hvert athyglin fer.  Hvernig er hægt að ætlast til að hjónaband eða samband blómstri ef að fræjunum er sáð utan þess og vökvuð þar?  Hvernig er hægt að ætlast til að upplifa nánd, ef sífellt er verið að byggja varnargarða?  Hvernig er hægt að biðja um gott samband ef alltaf er verið að taka úr sambandi?

Áður en þú dæmir samband þitt eða hjónaband dauðvona, –  nærðu það, vökvaðu það og veittu því athygli.  Gefðu því a.m.k. jafn mikla athygli og flóttaplönum þínum.

Ásetningur þinn drífur áfram athygli þína.  Ef þú hefur einsett þér að fara úr sambandi, er fókusinn á útgönguleiðinni.  – Svo áður en hætt er – eða gefist upp, er gott að gefa sér tíma þar sem ásetningurinn er að vera í stað þess að fara.  Það má alveg setja upp tímamörk, t.d. einn til tvo mánuði.  Þar er skilnaðaröxinni lagt, fókusinn fer í jákvæða hluti sambandsins, – jákvæða eiginleika makans og þín sjálfs.  Þið gerið það sem er skemmtilegt og gjarnan saman.

Hjónaband sem virkar dauðvona, á kannski lífsvon,  þó það sé ekki endilega alltaf.  Auðvitað getur verið að búið sé að svelta það í of langan tíma, þannig að erfitt sé að blása i það lífi, eða hreinlega að gallarnir séu of yfirþyrmandi.  En a.m.k. er hægt að gefa því tækifæri áður en gengið er frá því sem dauðu.

Aldrei vera áfram á forsendum makans,  það er ávísun á gremju og óvirðingu – heldur vegna þess að þú vilt vera fyrir þig.  Það er sama hvað við gerum,  það verður alltaf að vera á réttum forsendum annars er það ekki heiðarlegt – og heiðarleikinn er undirstaðan.  Samband á röngum forsendum er eins og húsið sem er byggt á sandi.  Samband sem er byggt á lygi er líka þannig hús og það fellur, að sjálfsögðu.  Byggið á bjargi – byggið á heiðarleika.

Þessi grein er að hluta til byggð á þessari grein – og hægt að smella hér á hana sem HEIMILD,  en hún er að hluta til byggð á því sem ég hef lært í gegnum árin að skiptir máli. –

Munum svo að við erum í raun bara fullorðin börn, – það er mikilvægt að huga að þessu barni, hamingju þess og heilsu,  gera sem best fyrir það – elska og virða! ..

1656291_1407117102875916_1581473224_n

Ein hugrenning um “Grasið er grænt þar sem þú vökvar það ….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s