Ég er fullkomlega ófullkomin – hvað með þig? …

Þegar ég ræði hér um fullkomleikann, þá er ég að tala um hann eins og hann kemur okkur venjulega fyrir sjónir.  „Hin fullkomna fjölskylda“  „Hinn fullkomni maður“ o.s.frv. – Það eru til alls konar öðruvísi skilgreiningar, en ég er hér að nota hugtakið eins og við þekkjum það úr daglegu tali. –  Innblásturinn að pistilinum og hluti hans er frá Lissa Rankin, en hluti hans beint úr minni hugmyndasmiðju (og ykkar).

gríman

Öll erum við að hamast við að vera fullkomin, og láta líta út fyrir að allt sér fullkomið og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. – Hvers vegna er það ekki bara í lagi? –  Jú, það gerir okkur einmana! –  Okkur finnst eins og við séum þau einu sem eigum við vandamál að stríða, séum að „klikka“ –  hvort sem það er bara í sambandi við okkur sjálf, í sambandi við maka eða annað fólk.

Þegar við þykjumst – þá erum við ein.  Þegar við heyrum að það eru aðrir þarna úti sem eru að glíma við svipuð eða stundum nákvæmlega eins mál og við sjálf.  Þá kemur þessi hugsun. „Ég er ekki ein/n“  ..    En eftir því sem fleiri eru að þykjast – og láta eins og ekkert sé, – þá upplifum við, eins og áður sagði, meiri einangrun.

Ég spurði einu sinni börnin mín hvort það væri ekki bara best að við kæmum út úr skápnum sem fyrsta ófullkomna fjölskyldan á Íslandi. –

Við þurfum ekki að halda að allir séu fullkomnir – nema við.  Við erum öll  á einhvers konar meðvirknirófi, – fyriir utan það að eiga öll okkar „issjú.“

Þegar einhver sýnir – eða segir frá ófullkomleika sínum, – eins og t.d. þegar Dorrit forsetafrú sagði frá ofvirkni sinni – eða adhd, þá var fjöldi manns sem tengdi við hana.  Þegar fólk segir frá sínum vandamálum – og viiðurkennir að líf þeirra er ekki fótósjoppað – þá tengjum við við það.

Við erum öll að rembast við að vera fullkomin, en við í raun eigum erfitt með fullkomið fólk.

Hvað ef við sýnum heiminum hversu ófullkomin við erum?  (eða fullkomin í ófullkomleika okkar?)

Hvað ef við hættum að látast eða þykjast,  þannig að aðrir hætti að bera sig saman við falskar ímyndir okkar? –  Hætta að hugsa: „Ég vildi að ég væri eins og hún – hann – þau“  í staðinn fyrir að segja bara  „Mikið er ég þakklát/ur fyrir að vera ég“ –  Nú eða par „Mikið erum við þakklát fyrir okkar samband“ –   Ath!  Þetta virkar í báðar áttir, – s.s. ekki fara að leita að fólki sem er almennt talið ófullkomnara en við sjálf, til að réttlæta okkur sjálf.  (Hér er ég að tala um dæmið um karlinn með stóru bumbuna sem er altaf að benda á aðra kalla með stærri bumbu til að réttlæta sína).  Það þarf ekki samanburð til að réttlæta sig.

Við erum svolítið föst í því að horfa yfir í garðinn hjá hinum og hugsa „mig langar í það sem hann/hún/þau hafa/eiga“ ..  eða „Gvöð – hvað ég er fegin að vera ekki eins og þessi/hinn“ …

Hvernig væri þá að viðurkenna að við erum fullkomlega ófullkomin – og ófullkomleiki okkar, sársauki, átök, örin sem hafa komið í gegnum ævina gera okkur falleg, einstök og er það sem tengir okkur við aðrar manneskjur?

Ég sagði hér á undan að ég væri í ófullkominni fjölskyldu og þar er ég ekki undanskilin. Ég er sjálf með alls konar innri vandamál og átök í sjálfri mér.  En munurinn á mér í dag og áður, er að ég elska mig – líka ófullkomna.  Í hvaða ástandi sem er í raun.  Ég sýni sjálfri mér samhygð.   Eins og annað fólk dett ég í óöryggispyttinn.  „Hver þykist ég vera“  „Ég er ekki nóg“ .. og allt þetta,  en ég er vakandi fyrir því.  Ég er búin að hitta svo mikið fólk sem er svoleiðis svo ég veit ég er ekkert ein.

Það er pinku sorglegt ef að fólk er inní skápnum með sín vandamál – og þorir ekki að koma út sem það sjálft, vegna þess að þá gæti „fattast“ að líf þess er ekki eins „æðislegt“ og það vill láta líta út fyrir að vera. –  Ég hef alveg verið þarna í skápnum, og stundum skrepp ég inní hann,  en það er alveg hundleiðinlegt að vera þar.

Við erum hrædd við að vera hafnað, ef við sýnum okkar rétta andlit. –

Hvernig komumst við svo yfir þessa áráttu við að vera fullkomin?

Kannski með því að fara að þykja vænt um okkur eins og við erum, ekki eins og við viljum láta líta út fyrir að vera.  Kannski þarf okkur að þykja vænt um sambandið okkar eins og það er en ekki vilja breyta því til að það sé eins og hjá „Sigga og Gunnu“  sem er á fullu að þykjast (í raun).  Við erum svo oft að eltast við það sem ekki er til! ..

Hvað getum við sagt við okkur þegar við höfum t.d. klúðrað einhverju? – „Elsku ég, ég sé að þú hefur klúðrað málunum.  Ég veit að þú ert að reyna að gera betur og ég elska þig eins og þú ert, nákvæmlega núna, og ég hef enga þörf fyrir að þú sért nokkur annar/önnur en þú ert.“

Ímyndum okkur ef að allir tækju af sér grímurnar og segðu: „Til fjandans með yfirborðsmennskuna,  við ætlum bara að vera við sjálf og vera raunveruleg.“

Við erum ekki eins og aðrir – en við erum það. 

Það er fleira sem er likt með okkur en ólíkt. Við erum öll mennsk, með hendur, fætur, höfuð, hjarta heila o.s.frv. –  Við getum hugsað, fundið til og verið til.  Það sem gerir okkur stundum átakanlega einmana er þegar við höldum að við séum ekki eins og aðrir.  Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir „normal“ fólk – eða eðlilegt, en sumt fólk er flinkara í að sýnast og þykjast. Þegar við uppgötvum að aðskilnaður manna er sjónhverfing – hverfur einmanaleikinn.

Eftirfarandi texti er eftir Timothy Leary (hér í minni þýðingu).

“Viðurkenndu það bara. Þú ert ekki eins og annað fólk. Ekki einu sinni nálægt því. Það getur verið að þú klæðir þig stundum eins og þú tilheyrir, horfir á sömu heilalausu sjónvarpsþættina og það gerir, borðir jafnvel sama skyndibitann.  En það virðist vera að eftir því meira sem þú reynir að passa við hina, þess meira líður þér sem geimveru að horfa á  „normal fólkið“  sem er  í sjálfvirkri tilveru.   Því að í hvert skipti sem þú notar lykilorð klúbbsins eins og „Góðan daginn“ – og „Hryllingur þetta veðurfar, finnst þér ekki?!“  Dauðlangar þig til að segja eitthvað sem er  bannað  eins og  „Segðu mér frá einhverju sem gerir þig leiða/n?  eða „Hvað segir þú um deja vu?“  „Viðurkenndu það, þig langar jafnvel að tala við konuna í lyftunni.  En hvað ef að konan í lyftunni  (og sköllótti manninn sem gengur fram hjá skrifstofunni þinni í vinnunni) -eru að hugsa það sama?  Hver veit að hverju þú gætir komist að með því að taka sénsinn á því að hefja samræður við einhvern bláókunnugan? –  Allir eru með hluta af púslinu. Enginn kemur inn í líf þitt fyrir tilviljun.  Treystu eðlisávísun þinni.  Gerðu hið óvænta.  Finndu hina.

Timothy Leary

Hverngi finnum við „the others“ eða hina?  Erum við nógu hugrökk til að fella a.m.k. nokkrar hlutverkagrímur og sýna heiminum okkar raunverulega andlit?  Getum við sagt a.m.k. frá einum hlut sem aðrir vita ekki um okkur?  Getum við skoðað ófullkomleika okkar án þess að skammast okkar?   Kannski þurfum við að sýna okkur samhygð og elska okkur ekki þrátt fyrir ófullkomleikann, heldur einmitt vegna ófullkomleikans?  Kannski eru aðrir þarna úti sem elska okkur ekki síður vegna hans, vegna þess að við erum að hjálpa þeim að fella sínar grímur og rjúfa þeirra einmanaleika?

Við erum öll í þessu saman. 

Við erum aldrei ein. 

silhouette

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s