Aðventuhugvekjan 2014 – „Friður á jörðu og fengin sátt“ ..

„Friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri.“   –  Jólahugvekja.

„Elskaðu þá sem eru þér næstir – og ef þeir elska þig ekki til baka – finndu aðra sem gera það. Allir eiga skilið að elska og vera elskaðir tilbaka. Ekki sætta þig við neitt minna. Finndu vinnu sem þú elskar, en ekki verða þræll hennar. Grafskriftin þín verður ekki: “Ég vildi óska að ég hefði unnið meira”..

Dansaðu, hlæðu og borðaðu með vinum þínum. Sönn, heiðarleg og sterk vinatengsl eru blessun og valmöguleiki – miklu frekar en blóðtengsl. Veldu þau sem þú hefur í kringum þig vandlega – og baðaðu þau í allri þeirri ást sem þér er fært. Umkringdu þig með fallegum hlutum. Lífið er með fullt af gráma og sorg – finndu regnbogann og rammaðu hann inn. Það er fegurð í öllu, stundum þarf að horfa vandlega til að sjá hana.“

Textann hér á undan las ég á íslenskri vefsíðu, – en upprunalegur höfundur hans var kona að nafni Charlotte, – en hún hafði skrifað þetta til vina sinna og fjölskyldu skömmu fyrir dauða sinn. – Hún var aðeins þrjátíu og fimm ára.

Það er þegar að eitthvað bankar á, – þegar okkur er stillt upp við vegg að við virðumst loksins sjá hvað er dýrmætt og hvað skiptir raunverulega máli.

Því fékk ég að kynnast jólin, eða “ekki jólin”  2012,  þegar ég þann 20. desember flaug í skyndi til Danmerkur, þar sem dóttir mín,  þrjátíu og eins árs tveggja barna móðir,  hafði verið flutt á spítala og fréttirnar voru að sýkingartalan í blóði hennar væri að hækka.   Þann 8. Janúar 2013,  var hún úrskurðuð látin. –   Jólin fóru algjörlega framhjá mér,  þetta árið eða þau voru í raun “ekki jólin” – eða einn erfiðasti tími lífs míns og fjölskyldu minnar.

Það eru margir sem kvíða jólunum,  þó jólin eigi að vera hátíð gleði og friðar, – verða þau í hugum margra sem hafa misst stór minnisvarði um það sem var. –

En þess vegna er gott að huga aftur að textanum hennar Charlotte sem ég setti hér inn í upphafi.  Enginn sem fer, vill að við sem erum eftir missum af jólagleðinni! .. Og þó að einir fari þá eru aðrir sem eru eftir, eins og t.d. börn dóttur minnar og jólin verða ekki af þeim tekin,  þó mamman hafi verið það, og jólin verða ekki tekin frá mér þó dóttir mín hafi verið það.

Einhvern veginn hélt ég, að ég myndi aldrei geta haldið jól á ný, jólaskrautið yrði ógeðfellt, jólasöngvarnir o.s.frv. – en svo var það bara ekki svoleiðis.

Á Þorláksmessu 2013,  tæpu ári eftir missinn skrifaði ég:

„Jæja, komið Þorláksmessukvöld 2013, eina sem heyrist er suðið í ísskápnum, borðstofuborðið hlaðið óinnpökkuðum gjöfum, svo verkefnin eru næg. Það þarf engin/n að þykjast eða látast, það er fjand…. erfitt þessa dagana, brest í grát aftur og aftur, tárin streyma út úr augunum og niður kinnar og maskarinn með.
Það er þó ekki þannig út í eitt sem betur fer, – þetta er meira eins og veðrið, gengur á með hryðjum en svo skín á milli. En þessi tími ýtir á alla tilfinningatakka, þó ég hafi þulið möntruna í bílnum í dag; „Lífið er núna“ og það róar mig alltaf tímabundið.

Það sem við Eva Lind Jónsdóttir ræddum fyrir nákvæmlega ári síðan var að við svona aðstæður sem ógna lífi manns, förum við að hugsa öðruvísi. það verður ekki þetta „much to do about nothing“ eða mikið að gera úr engu …við gerðum okkur grein fyrir hvað skipti máli, og munum að gjafirnar, það að ná að skúra eða ekki skiptir ekki öllu máli og bara minnstu máli. Gerum það sem er gaman og okkur langar, meðan við höfum líf. Ekki þræla okkur út fyrir óþarfa. Verum meira saman, meira í náttúrunni, leikum, fíflumst og hlæjum. Ekki taka okkur of hátíðlega. Lifum meðan við höfum líf.“

Þennan pól hef ég tekið í hæðina, – að lifa lífinu lifandi meðan við höfum líf, og að halda jólin með gleði á meðan við höfum jólin. –  Jólin 2013 voru góð jól, og ég fékk að vera með barnabörnunum öllum þremur yfir áramótin, og það var mín stærsta jólagjöf.   Þau minntu mig á lífið og að lífið heldur áfram.

Hvað er þá það sem skiptir raunverulega máli? –  Jú, fólkið skiptir máli.  Þú skiptir máli og ég skipti máli.  Að við njótum hvers annars hvort sem um er að ræða jól eða bara hversdagurinn. –  Við gerum það ekki síður fyrir þau sem lifa í hjartanu okkar.

Viðhorfið skiptir svo miklu máli, – viðhorfið að sjá það sem við höfum og það sem við getum, í stað þess að rýna í það sem við getum ekki eða höfum ekki. –

Á jólunum fögnum við fæðingu frelsarans, – jafnvel þó hann hafi dáið fyrir tæpum 2000 árum síðan!     Allt hefur sinn tíma, það er tími til að gleðjast og tími til að syrgja.  Á jólunum er tími til að gleðjast og fagna og njóta lífsins.  Veita lífinu athygli.  Við heiðrum minningu þeirra sem frá okkur eru farin og við heiðrum minningu Jesú Krists. –  Við gerum það með því að lifa okkar lífi til fulls,  með því að þakka fyrir það hversdagslega,  það sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut, en skiptir í raun gríðarlega miklu máli.

Þökkum því fyrir jólin, hátíð friðar og gleði.  Þökkum fyrir að fá að elska, því eins og skáld nokkurt sagði og ég hef tileinkað mér: “það er betra að fá að  elska og missa, en að missa af því að elska.”

Verum til og finnum til. Það er hluti af því að vera manneskja í þessu jarðlífi. – Fyllum hjörtun af gleði, fyllum þau af friði og fyllum þau af ást.

Mig langar að stinga inn í  þessa hugvekju fyrsta og síðasta erindi sálmsins Nóttin er sú ágæt ein, eftir Einar Sigurðsson,  en það söng ég iðulega fyrir börnin mín á aðventunni þegar ég var að svæfa þau.

Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja’ hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

„Friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri.“   

Gerum okkar ítrasta til að lifa í sátt og friði, – því það þrífst engin/n lengi í ósátt og ófriði. –   Leyfum okkur að eiga stund með okkur sjálfum á aðventu og á jólum, – því við skiptum máli.  Slökkvum á sterku rafmagnsljósunum og öllum „græjunum“ sem eru iðulega í gangi, kveikjum á kerti setjumst niður og horfum í logann, opnum hjartað og leyfum ljósinu að eiga þangað greiða leið.  Öndum djúpt frá okkur sem íþyngir og öndum að okkur jólagleði og jólafrið.

Þannig eigum við samveru með okkur sjálfum og þeim sem búa í hjörtum okkar og þannig tökum við fagnandi á móti frelsaranum.

Ein hugrenning um “Aðventuhugvekjan 2014 – „Friður á jörðu og fengin sátt“ ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s