Við tölum oft um að lífið sé skóli – og þess vegna ætti það að vera eðlilegasti hlutur að áföll og veikindi séu „áfangar“ í skóla lífsins. –
Sumt er þannig í þessum skóla að það er hægt að læra það, án þess að meiða sig, en annað er sársauki, sem sprengir alla sársaukaskala, ég er búin að fara þangað. – En jú, „nú þarft þú að læra meira“ .. hljómar hálf hallærislega eftir slíkt. Lærði ég ekki nóg og hvenær erum við fullnuma og hversu miklu á að troða í eitt líf?
Við myndum aldrei segja við barn sem býr hjá foreldrum sem vanrækja það og elst upp í gaddavír (eins og Guðni Gunnarsson orðaði það) – að það sé nú í skóla og þurfi að læra. – Nei, það er ekki viðeigandi. Þetta barn aftur á móti stendur upp e.t.v. á fulllorðinsárum og segist hafa lært af æsku sinni og því að búa hjá vankunnandi foreldrum. –
Allt hefur sinn tíma.
Sá sári skóli að missa einhvern nákominn, – breytir okkur fyrir lífstíð. Eftir því nánari þess meiri missir og meiri breyting. – Á hverjum morgni vöknum við upp við þennan missi, en við aðlögumst honum – og eigum í öðruvísi sambandi við þann sem við misstum. – En enginn myndi sega við þann sem er að ganga í gegnum missi: „jæja, þetta er eitthvað sem þú vinur minn – eða vinkona – áttir eftir að læra“.
Nú er ég búin að „læra“ býsna margt – og tilbúin að fara að njóta. Ég á pottþétt eftir að „læra“ mikið af því að vera með krabbamein – en þegar fréttirnar eru nýjar, og jafnvægi hvorki komið á sál né líkama, og áfallið enn að síga inn, þá er ekki gott að heyra: „Þú áttir eftir að læra þetta“ …
Allt hefur sinn tíma og stað.
Það breytir lífinu að fá krabbamein, það er missir á heilsu og lífsgæðum. Stundumm missir á líkamshutum,. – nú eða einhverju sem einkennir fólk sem karl-eða kvenveru. Það þarf að aðlagast því – en eins og okkar nánasti sem fór kemur það ekki til baka.
Þegar krabbamein greinist snemma, er stundum hægt að skera það burtu, – og það kemur aldrei aftur. Sumum „batnar“ aldrei af krabbameini, en það er hægt að aðlagast því og lifa með því eins og missinum. Það er gífurlega mikil breyting, – og við verðum að gefa fólki tíma til að ná sátt við þessa miklu breytingu.
Velviljað fólk – vill koma með ráð og pepp, en það er eins í þessu eins og öðru, það er alltaf á gráu svæði að gefa ráð óumbeðið. –
Fólk í sorg og missi er viðkvæmt – oft með flakandi sár. Því er það þannig að velmeinandi fólk getur stundum sært. Að sjálfsögðu óvijandi og vegna þess að það getur ekki (sem betur fer) sett sig í spor þeirra sem eru að missa, syrgja, upplifa heilsubrest, – eða að taka á móti nýju „verkefni“ – sem það vill ekki fá.
Við getum öll lent þarna, báðum megin. Sem sá sem tekur á moti einhverju sem særir eða sagt eitthvað sem særir.
Eflaust verður ekkert okkar „fullnuma“ í þessu lífi. Kannski þurfum við bara helst að læra það að allt hefur sinn tíma undir sólinni. –
Ég upplifi mig treggáfaða – þegar sagt er: „Þú þarft að læra meira“ ….. Kannski er það stóri sársaukinn minn, að ég er „slow learner?“ ..
Þetta tekur á, – og það heggur í viljastyrkinn á sundinu og orkuna þegar öldurnar koma of þétt.
En, ok, um leið og ég skrifa þetta – þá veit ég líka að það er hægt að aðlagast og á endanum ná sátt við það sem er. Annað hvort með lífi – eða dauða. Stóri sigurinn er hvernig við tökum við öldunum, – við stingum okkur þá bara aftur og aftur í mótlætið og reiknum með því að það kaffæri ekki. – Ef það gerir það, er nákvæmlega ekkert sem við getum gert í því, en við höfum þó a.m.k. gert okkar besta. Það verður aldrei betra en það.
ÁST út í alheiminn. Förum varlega að viðkvæmum berskjölduðum sálum. Verum ekki besservisserar um eitthvvað sem við höfum ekki hugmynd um. Eða notum óviðeigandi frasa. Ekki ég heldur! ..
Ég skrifa til að lifa, – það á við um þennan pistil líka.