Hér er hugtakið „Guð“ notað sem sköpunarkrafturinn, orkan sem skapar líf. Líf hverrar lifandi veru.
Mannfólkið er svolítið mikið sér á parti, því það skapar svo mikið „auka“ … og hvað á ég við með því?
Fólkið notar orð yfir allt og byrjar að skilgreina – áður en barn er fætt. Kynið er frá náttúrunnar hendi, en við höfum búið til nöfnin og fljótlega verðum við forvitin og viljum vita kynið: er það stelpa eða strákur? – Það eru í rauninni fyrstu skilgreiningarnar. Síðan kemur nafnið. Nafnið er algjörlega „man-made“ – kynið og kynhneigðin síðar er eitthvað sem er skapað af tjah .. Guði, eins og ég lýsi Guði hér í upphafi pistils. En nafnið er skapað af foreldrum yfirleitt. – Svo byrja auðvitað fleiri skilgreiningar. „krútt, sæt, falleg, fötluð, ófötluð, stór, glaðleg .. og lýsingar-og skilgreiningaorðin hrannast upp. –
Það sem sameinar okkur er að við erum skapað líf af tegundinni „Homo Sapiens“ en tegundarheitið þarna er líka búið til af mönnum.
Þegar við eldumst, förum í skóla o.s.frv. – halda skilgreiningar áfram. Við verðum alls konar fræðingar með mismunandi forskeytum, við fáum starf og sumir verða eiginlega starfið sitt og við kynnum okkur oftar en ekki með starfsheiti, eins og við kynnum okkur stundum með hlutverkinu okkar.
Hver man ekki eftir þessu: „Ég er BARA húsmóðir“ .. Þannig að hvað við gerum ruglast við þau sem við erum. Sjálfsmyndarkreppan felst í því að við trúum að við séum skilgreiningarnar okkar.
Við erum nafnið okkar, hlutverkið okkar í fjölskyldu, menntun okkar, starfið okkar. Við erum það sem við gerum. Sem er auðvitað eitthvað sem manneskjan hefur komið á.
Þetta gerir það að verkum að við förum að metast um hver er meiri manneskja og verðmeiri jafnvel.
Þar að auki bætist við – að við verðmetum okkur eftir því hvort að við höfum háar tekjur eða lágar. Hvernig barnið okkar stendur sig eða ber sig að í lífinu.
Hvað ef að viið værum bara þetta líf, öll? – Mannverur en ekki „manngerur“ – Human Beings en ekki Human Doings? Við bara ERUM.
Hundur sem færi í hundaskóla teldi sig ekki merkilegri hund en hundur sem hefði aldrei verið þjálfaður. Það eru öðruvísi lögmál í dýraríkinu, þar er aldursröðin mun meira ríkjandi og ýmislegt sem ég ætla ekki og kann kannski alveg að fara út í hér, en gaman að bera þetta saman. – Dýrin fara meira eftir eðli, en því sem kemur að utan. Þau eru þau sem þau eru, – en vissulega reynir maðurinn oft að breyta þeim eða eðli þeirra, kannski svipað og við gerum við börn? –
Kannski er frjálsasti maðurinn á þessari jörðu – sá sem er nafnlaus, ómenntaður og án starfs? – Algjörlega „ómengaður“ af skilgreiningu, flokkun, innrætingu o.s.frv.-
Hvernig vitum við hver við erum, þegar það er búið að segja okkur svona mikið um okkur? Sumir kvarta undan því að börn séu borin til skírnar og hafi ekkert um það að segja. Þá er verið að tala um það hvað trúna varðar. En hvað með nafnið? – Af hverju ekki bara að fá að velja sér nafn sjálf? –
Það sem er skrifað hér að ofan er hluti af íhugun minni um „Hver er ég?“ eða hver við erum hvert og eitt okkar. Hvað er ekta og hvað er óekta? –
Besta svarið sem ég hef fengið var frá Anita Moorjani:
„Mundu hver þú ert – þú ert það sem er varanlegt – það sem var í upphafi og í endinum – þú ert stórfengleg sköpun.“ –
Hvað er ekta við þig? – Hvað og hver ert þú?
Hvað og hver er Guð? ….