Batasagan mín …

Það var árið 2008 að fjarlægður var fæðingarblettur af öxlinni minni, – eftir greiningu kom í ljós sortuæxli (sem er illkynja húðkrabbi) en góðu fréttirnar voru þær að það var mjög grunnt og fékk ég að vita að þegar það var að taka góðan „bita“ í laginu eins og laufblað úr öxlinni, væri ég í svipaðri áhættu og þeir sem aldrei hefðu fengið slíkt, eða kannski 1 -2 prósent líkur á að það myndi taka sig upp aftur. –  En þar sem ég er „einstök“ þá tók það sig því miður upp og kortéri fyrir jól fékk ég greininguna að það væri sortuæxli í eitlum í hálsi. –  Eftirfarandi eru pistlar sem ég hef skrifað beint á fésbókarsíðuna mína, – en ég ákvað að halda þeim hér saman og kalla „Batasagan mín“  🙂

23. desember 2014

Fór til læknis á fimmtudag í síðustu viku, vegna grunsamlegra eitlastækkana. Var send í ómskoðun, og þar var tekin ákvörðun um ástungu. Á mánudag (í gær) fékk ég að vita að það væri krabbamein. – Var send í skanna á restina af kroppnum í morgun, – og komin besta niðurstaða sem hægt var að fá í stöðunni – svo hér er grátið af feginleika, eftir mikla rússíbanaferð. Okkar fjölskylda er eiginlega búin að fá nógan skammt af veikindum og dauðsföllum. – Krabbameinið er algjörlega staðbundið og næsta skref að fjarlægja eitlana, og þá er ég laus og get haldið áfram mínu yndislega lífi og starfi umkringd bestu vinum og fjölskyldu i heimi. Í þann hóp hafa bæst, síðan í nóvember heill yndislegur hópur af starfsfólki og heimilisfólki á Sólheimum. –

WIN_20141206_172425 (2)

 30. desember 2014

Árið 2014 að líða – næst síðasti dagur að kveldi kominn. 2015 hefst á óvissunótum hjá mér hvað heilsuna varðar, en ég er bjartsýn.

Áramót eru viðkvæmur tími, þar sem við rifjum upp það sem liðið er, en hugsum líka „hvað næst?“ – Líklegast er sjaldan eins mikil þörf á æðruleysi en á áramótum. – Ég á víst að vera sérfræðingur í því  .. en það er nú spurningin um rafvirkjann og rússnesku ljósaperuna hmmm… já, nú er ég óþolinmóð! –

Árið 2014 var sérstaklega ánægjulegt að því leyti að ég heimsótti barnabörnin mín í Danmörku Elisabeth Mai og Ísak Mána vel og lengi, og Henrik „svigerson“ og gat átt með þeim gæðastundir. – Líka Evu Rós sonardóttur. Það var líka ánægjulegt því að börnin mín Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst, eru alltaf að verða meiri móðurbetrungar, – sjálfstæð bæði og hugsandi einstaklingar. Systkini mín og mágkonur, eru endalaust traust, en þau hafa verið að eiga við sín lífsverkefni og margt tekið á.
Árið 2014 – í nóvember hóf ég störf á Sólheimum í Grímsnesi og hef eignast stóra samhenta fjölskyldu þar á rúmum mánuði, svo það er einstaklega ánægjulegt.

Áður en áramót verða táramót ætla ég að hætta – og pósta hér með þessum pistli videói sem Ísak Máni gerði sem skólaverkefni, en það var að búa til dansvideó með fjölskyldu sinni. Amma var í heimsókn og var auðvitað „geim“ – pabbi hans setti á sig hárkollu, og litla systir dillaði sér. Í Danmörku tíðkast það að hoppa inn í nýja árið, og ég legg til að við hoppum öll!

Gleðilegt ár – megi gæfan geyma okkur og leiða.<3 Takk fyrir mig! Þakka fyrir vináttu og fjölskyldu.

(Ég póstaði s.s. videói á facebook, en kann ekki að setja það hér inn)  Prófum hvort hægt er að smella á tengilinn HÉR

—–

1. janúar 2015

Langar að kasta hér á ykkur nýárskveðju, elsku vinir og fjölskylda. – Það er eitthvað einstaklega heilagt hér í andrúmsloftinu á Sólheimum, – ég byrjaði að sannfærast um að ég væri meiri sveitastelpa en borgarbarn, þegar ég flutti á Hvanneyri og bjó í litla kósý samfélaginu þar. – Það eru ákveðin forréttindi að mínu mati að fá að búa í svona mikilli kyrrð og ró, og nú er ég alveg sannfærð um að dreifbýlið er mitt umhverfi. Ég kom heim í dag upp úr tvö og fór fljótlega út að ganga í nýföllnum snjó, og hugsaði með mér: „er ég komin í himnaríki?“ – ég get ekki ímyndað mér mikið fallegra en nýfallinn snjó á trjám og syngjandi fugla í trjátoppunum. – Þá andar maður djúpt og þakkar fyrir stundina. – Ég fékk fínan kvöldverð í Vigdísarhúsi þar sem góður hluti Sólheimabúa snæddi saman, og svo var það göngutúrinn heim í Upphæðir (tekur 3 mínútur). Tók svo eina „nýársselfie“ í tilefni dagsins.

feeling blessed.

WIN_20150101_222033

4. janúar 2015

Máttur þess að segja upphátt hvernig okkur líður: – Þegar við erum búin að segja það líður okkur yfirleitt betur.- Stundum þorum við ekki að segja öðrum hvernig okkur líður, því að þá berskjöldum við okkur, sérstaklega á það við þegar líðanin er ekki góð, við erum hrædd, kvíðin o.s.frv. – Höldum að aðrir geti ekki treyst okkur ef við viðurkennum að við erum hrædd. Ég held að flestum líði á einhverju tímaskeiði lífsins eins og okkur. – Þegar við látum alltaf eins og allt sé í lagi hjá okkur, og við „meðetta“ – þá erum við að plata náungann og hann heldur að hann standi einn uppi með að líða ómögulega, vera kvíðinn o.s.frv. Þess vegna verða svo margir fegnir þegar einhver stígur fram á sjónarsviðið, sérstaklega einhver sem hefur verið í sviðsljósinu – og staðið sig vel í einhverju og viðurkennir að hann er bara mannlegur, kvíðinn, feiminn, eða hvað sem það nú er. –

Þegar reynir á, nennir maður (kona) ekki lengur að vera í þessum þykjustunnileik. Að láta eins og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. Það er svo yndislegt þegar við föttum að við erum ekki ein og ekki það sem aðgreinir okkur, heldur að við erum öll eitt – það sem er í kjarna okkar. Ég er þú og þú ert ég. Sumir eru lokaðir inni í hylki, eins og hylki babúskunnar, og þurfa að fjarlægja hylkin eitt eftir annað til að komast inn að kjarnanum og vera sönn. Læt þessa kvöldgusu gossa inn á internetið.

WIN_20141227_102452

7. janúar 2015

Jæja fólk, – er að taka því rólega í dag. Var lasin í nótt – og svo þarf maður (kona) aðeins að fara að hlusta á líkamann þegar viðvörunarljósin kvikna. Það er bara leiðinlegt að vera að byrja í nýju og ábyrgðarmiklu starfi og ekki getað tekið það á fullu „blasti“ – ég er þannig víruð (hef ekki náð að aftengja þá víra) að það veldur mér samviskubiti að veikjast. :Þetta er því svona afsökunarpósur í leiðinni.
En engin/n er ómissandi, – það er víst. – Svo nú kúrum við Simbi (sem heldur mér félagsskap) í sófanum og hlustum á rokið.
Ég var full fljót á mér að fagna um daginn, – hélt að rannsókn væri lokið á mínum kroppi og næst væri bara út með eitlana, punktur. Það þarf að skoða eitthvað aðeins meira fyrst.

Mig dreymdi aðfararnótt 3. janúar að ég væri að missa af flugi til Danmerkur, en svo áttaði ég mig á að það væri gott að ég náði því ekki vegna þess að ég mætti ekki missa af viðtalinu við læknana mánudaginn 5. janúar (sl). Það var sko allt í draumnum. Viðtalið átti sér svo stað (var ekki draumur) og þar var ákveðið að skoða konuna betur, og kannski vegna jákvæðni minnar á að senda mig í „já-eindaskanna“ – sem ekki er til á Íslandi, en hvar annars staðar er í Danmörku? – Ég er farin að endurtaka setninguna „ekkert í lífinu kemur mér lengur á óvart“ – eftir samtöl við fjölda manns í sálgæslu á undanförnum árum og sérstaklega eftir að hafa lifað svo súrelíska tíma með fjölskyldu og vinum í aðdragandanum að missi Evu fyrir nákvæmlega tveimur árum síðan, en það var í kringum miðnætti 7. og 8. janúar og sitt hvor dagsetningin í Danmörku og Íslandi. –

Ég held að fólk sem þekkir til (og kannski fleiri) sjái súrealismann í þessu öllu, eða óraunveruleikann sem er samt raunveruleiki. – Valkvíðinn kemur, á ég að gefa mig læknunum „á vald“ eða fara í kannabissið? – Já, kona spyr sig? – Mér skilst að læknirinn minn sé „á heimsmælikvarða“ á sínu sviði sem er kunnátta varðandi lengra gengið melanoma (sortuæxli). – Svo ég ákvað að „trúa“ á hann. Svo bætti það sálarlífið að ég fékk mér fallega kjóla á útsölu í Debenhams. (Set það í bókhaldið undir „lækniskostnað“ – sem er reyndar orðinn þokkalega mikill á hálfum mánuði). Já, svona er kona einföld og þarf lítið til að gleðjast og gleyma sorg og sút. – Í gær var Þrettándagleði á Sólheimum og ég fékk hlutverk kynnis – og flottasta innkoma mín var þegar að ég sagði: „Og áður en flugeldasýningin hefst vil ég segja“ piff, búmm, pang“ .. það heyrðist ekki meira! –  það voru skýr skilaboð! – Eftirminnilegt og skemmtilegt.

Sjálfsmyndin sem fylgir er mín í nýjum kjól, pinku þreytt en ánægð eftir daginn. En núna er hvíldartími ::-)

En lifum lífinu lifandi – í fallegum kjólum – nú eða brók og peysu.

WIN_20150106_214507

11. janúar 2015

Smá „updeit“ á lífið.Já, já, ég er konan sem nota facebook eins og dagbók og ykkur er velkomið að lesa, nú eða lesa ekki 🙂 Vaknaði úfinkollur í morgun, – hér í „Hamingjubæ“ lesist Sólheimum. – Simbi er enn hjá mér og heldur mér kompaní. Fékk þá flugu í höfuðið að baka pönnukökur – sem ég hef reyndar gert frá því ég var unglingur og fór stundum með uppí skólamötuneyti í FB. Mesti skammtur sem ég hef bakað í einu var 150 stk. en það var fyrir veislu sem Hulda systir sá um. – Fékk heimilismann í heimsókn sem hefur gaman af því að leika við Simba. Síðar komu þrír starfsmenn og gæddu sér á pönnsunum og fengu kaffisopa. Það er notó að fá heimsókn. – En vissulega líka notó bara að slaka á og vera með sjálfri sér.
Á morgun stefni ég á höfuðborgina, og mun vera þar alla vikuna. Get unnið fjarri vinnustaðnum við skýrslur, plön o.fl. – lært betur á systemið og lesið. Verð hjá Tobba á Frammó og Huldu á Holtó – fæ líka kaffi hjá Lottu á Vestó (djók).
Er að fara að sinna heilsunni, eða það er í forgang núna. Fer í bæði hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar og hitti vini og ættingja, fer í „lunch“ – saumaklúbb og opnunarteiti – en það er partur á heilunarferlinu. Það er ekki kominn timi á PET skannann i Kaupmannahöfn, en það á að koma bráðum. Fékk göróttan drykk hjá Hólmfríði nágrannakonu minni í gær, – en hún er ein af nýjustu englunum í lífi mínu. Þeim fer fjölgandi, heppin ég! Ég segi alveg „já takk“ við hjálp, – ein vinkona sagði að ég væri að læra að biðja um hjálp, en mér finnst svo margir alltaf vera að hjálpa mér að ég hef ekki einu sinni þurft að biðja um það! – Ég þarf að fá að tjá mig svona opinberlega, það er bara ég. Það verður ekki sagt um mig „Hún bar harm sinn í hljóði“ – Við erum misjöfn. –
Hlakka til að knúsa krakkana mína í vikunni 🙂 

WIN_20150111_125255

 

14. janúar 2015 

Smá „updeit“ – hér á fésbókardagbókina. – Er búin að vera í borginni frá því á mánudag, – fór í höfuðbeina-og spjaldhryggjarmeðferð til Sólveig Höskuldsdóttir í gær, og ég segi það satt að hún er mögnuð í sinni vinnu. – Losar þetta andlega álag þannig að „sultuslök“ – kom ég úr tímanum. – Á eftir fór ég í spjall til Hulda Björg Rósarsdóttir og fékk „búst“ sem var hollt og gott. „Selfie“ dagsins er tekið af mér hér nývaknaðri á sófanum hjáHulda Kristín Magnúsdóttir, stóru systur og „Erkiengli“ í mínu lífi, hún gaf mér síðan heilsusamlegan kvöldverð. Í gærkvöldi fór ég svo á sýningu á „100 foot Journey“ í Deus Ex Cinema kvikmyndaklúbbnum – með yndislegu fólki, en sýningin var haldin á Laufásveginum hjá Siggu og Leifi Breiðfjörð. – Mæli með þeirri mynd, sem „feel-good“ mynd, okkur veitir ekkert af svoleiðis, eplakakan hennar Siggu er reyndar líka „feel-good“
Á sýningunni hafði einn meðlimur það á orði að ég væri svo róleg, miðað við aðstæður, – en ég skal sko segja ykkur það að það er vegna þess að ég á svo æðislega vini og fjölskyldu og líka samstarfsfólk og atvinnuveitendur. Það er allt sem styður! Stóru tíðindi gærdagsins voru að búið er að bóka „sjúklinginn Jóhönnu Magnúsdóttur“ í flug til Kaupmannahafnar, „í boði“ Tryggingastofnunar – (Þakka ykkur fyrir, það er s.s.í boði ykkar). Og á að mæta í jáeindaskanna þriðjudag 20. janúar nk. – á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn. Fyrst þarf ég að vísu að mæta á Landspítalann Hringbraut, eða það er í kvöld í mynd af höfði. Ætla að hittaBirna Birgisdóttir frænku í hádeginu og svo góðar „penna-vinkonur“ seinni partinn. Við köllum okkur pennavinkonur vegna þess að ég kenndi þeim að setja penna upp í sig þvert, ef þær ættu í vandræðum með að brosa … Sumir hafa séð kennsluvideóið sem ég póstaði hér á fésbók.

Ég var smá andvaka í nótt, en þá hlustaði á ég svo góðan fyrirlestur um mikilvægi þess að velja það að láta sér líða vel. – Það er svona „law of attraction“ dæmi. – Ég er að vinna í því og vonandi þið öll þarna úti. – Í svefninum endurræsum við „tölvurnar“ okkar, og þegar við opnum aftur þá á ekki að setja allt það sem var á skjánum upp aftur, heldur að byrja fersk. Það þýðir að við þurfum ekki að rifja upp: „Æ, já mér leið illa í gær, – ég þarf að halda því áfram í dag“ – heldur „Yess.. nýr dagur, nýtt tækifæri til að láta mér líða vel.“ – Það er hægt að vera veik og lifa í ótta eða það er hægt að vera veik og lifa í elskunni. Það er enginn ótti í elskunni.

Óttumst minna og elskum meira.

p.s. ég er búin að vera að hugsa að það besta væri að verða ástfangin, það sé örugglega besta lækningin, – en þá kom upp „úps, það þorir örugglega enginn að vera skotinn í konu með svona óvissa framtíð.“ – En hvaða endemis bull er nú það? Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér svo allir lifa í óvissu, og í framhaldi spurði ég sjálfa mig: „Er ekki mikilvægast að þú þorir að elska þig? .. og það er líklegast mikilvægasta spurningin í lifi okkar allra.

WIN_20150114_083304

 

15. janúar 2015

Ég las eftirfarandi á síðunni hjá Krabbameinsfélaginu:

„Til dæmis hefur það verið skjalfest að framleiðsla hvítra blóðkorna jókst hjá fólki með sortuæxli ( illkynja tegund húðkrabbameins) við það að hittast reglulega í stuðningshópi“

Í gær fór ég í heilunartíma til ungrar konu sem er að læra Reiki-heilun og var það mjög notalegt.  Fer aftur í dag og á morgun,  og svo út á laugardagsmorgun!
Ætla líka að hitta góða vinkonu í dag, – og svo er saumaklúbbur í kvöld, og það má kalla það stuðningshóp og þá eykst væntanlega framleiðsa hvítu blóðkornanna.  Vonandi kemst ég í klippingu í dag, en hárið er svolítið úr sér vaxið og væri gaman að vera með nýdekrað hár á leiðinni út.

Ég átti dásamlegt samtal við son minn í gær, – okkur finnst alllaf svo gaman að ræða um lífið og tilveruna. Heimspeki o.fl. –  Hann benti mömmu sinni á að ef hún færi nú einhvern tímann í samband aftur, þá ætti hún að velja „Hippa“ – og ég held það sé bara algjörlega rétt hjá honum.  Ég er svo mikill hippi í mér, að jafnvel þó ég klæðist „Karen Millen“ kjólum og Kronkron skóm (hef átt bæði) þá brýst út í mér hippinn.   Fötin eru sko sannarlega ekki allt!  🙂

Eins og fyrir alla foreldra, þá er það mér mikilvægt að börnunum mínum liði vel og séu sátt við lífið.  Það er á okkar eigin ábyrgð að leita uppi alvöru vellíðan.  Ég skrifa viljandi „alvöru“ því að vellíðan er hægt að framkalla með vímuefnum og ég er ekki hrifin af svoleiðis (svo ekki sé meira sagt).   Sönn gleði kviknar t.d. í góðum samskiptum.

Ég fór í heilasneiðmyndatækið í gærkvöldi, – en mér var augljóslega bætt inn, til að ná þessu áður en ég færi út. Það tók tæpan klukkutíma og niðurstaða á að koma á föstudag, alla veganna til læknisins. –  En látum þetta vera gott í dag.  En það er gott að skoða það sem ég skrifaði hér í upphafi. Stuðningur vina og fjölskyldu getur hreinlega styrkt ónæmiskerfið okkar! – Pælum í því!

13. nóvember 2017

Var í minni sex mánaða skoðun og viðtali hjá lækninum. Ég er að sjálfsögðu ekki sex mánaða – heldur fer ég á sex mánaða fresti  .. engar húðbreytingar né eitlastækkanir, og svo er bara að fá þannig fréttir úr skannanum sem ég fer í í lok nóvember, og svo heldur lífið áfram. – Ég er samt pínku slegin, – þó ég viti á hvaða stigi mitt krabbamein er, og að það sé ekkert endilega búið, – þá fannst mér samt erfitt að heyra „Það er nú ekki bitið úr nálinni með þetta ennþá Jóhanna mín – ég er alltaf hreinskilinn við sjúklingana mína“ .. Það þýðir samt ekki að þetta komi aftur, – en það minnir mann á og að ég þarf að stíga inn í æðruleysið enn og aftur. –
Ég er reyndar á leiðinni að fara að „flippa“ svolítið í janúar – ekki síst vegna þess að ég vil lifa lífinu lifandi, ætla í smá ferðalag og gerast sígauni, en segi betur frá því síðar.   ..

Allt er gott – eins og er – og það er mikilvægt að njóta núsins!!

Uppfærsla til „NÚSINS“

11. nóvember 2019

Ég er enn „laus“ .. en ég er enn í „kontróli“ eins og það er kallað hér í Danmörku, en ég flutti einmitt þangað/hingað fyrir sex vikum síðan. –

4 hugrenningar um “Batasagan mín …

  1. Elsku Jóhanna.

    Ég sendi þér ljós og styrk.

    Batakveðjur,

    Anna María (-Perlukerti-)

  2. Það var einhverntíma fyrir langa löngu á gelgjuskeiði „paa Tune Landbrugsskole“ að táningsstelpa skrifaði í „bláu bókina“ þetta ljóð eftir mér ókunnan höfund :

    „Lykken er som en lille fugl
    som flyver og kommer tilbage
    gid den hos dig maa finde et skjul
    og blive der alle dage“

    Vona að það teljist ekki óviðunandi að byðja „den lille fugl“ að fylgja í humátt á eftir þér til verndar og gæfu.

    Sigurgeir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s