Kona nokkur lenti í því að verða bensínlaus. Hún var nýkomin af jákvæðninámskeiði og hafði í framsætinu hjá sér nokkra límmiða, – m.a. broskalla. Hún ákvað að taka þetta á jákvæðninni og prófaði að líma broskall yfir bensínmælinn. –
Undarlegt, eða ekki? – Bíllinn fór ekki í gang!
Þá fór hún að pæla í því af hverju hún hefði orðið bensínlaus, – og fór í huganum að leita að sökudólgum, – „helvítis kallinn var á bílnum síðast“ – hún hugsaði nú vel og lengi til mannsins síns og hvernig hann hefði klikkað. –
Undarlegt, eða ekki? – Bíllinn fór ekki í gang!
Jæja, – kannski var þetta nú ekki bara „kallinn“ hún hefði nú átt að fylgjast betur með mælinum, hún var nú meiri sauðurinn – barði hún sjálfa sig niður. –
Undarlegt eða ekki? – Billinn fór ekki í gang.
Þá tók konan ákvörðun, – hún fór út úr bílnum, og gekk á næstu bensínstöð, þar keypti hún brúsa – reyndar hitti hún þar vinkonu sína, sem ók henni til baka. Hún hellti síðan bensíni á bílinn.
Undarlegt eða ekki? – Bíllinn fór í gang. –
Sama hvað við setjum marga broskalla yfir bensínmæla og látum eins og bíllinn sé ekki bensínlaus, það dugar ekki til, þó það geti hjálpað við úrlausn mála að muna eftir brosinu og kannski líma hann á mælaborðið. Sama hvað við veltum okkur upp úr hver gerði hvað, hversu marga sökudólga við finnum – eða við ásökum okkur sjálf, þá dugar það ekki til að bíllinn keyri. – Um leið og við sættumst við aðstæður, s.s. sjáum hverjar þær raunverulega eru, og hættum að velta okkur upp úr þeim, – þá fyrst – í sáttinni – getum við farið að finna lausnir og vinna í þeim. –
Þetta er mikilvæg dæmisaga t.d. fyrir samskipti hjóna, fólks á vinnustað o.fl. – Ekki vera stöðugt að röfla, væla, ásaka o.s.frv. ef við ætlum ekkert að gera í því. Það dregur okkur bara niður. Og að sjálfsögðu líka alla sem eru í kringum okkur. –
Ath! – Ég setti vinkonuna á bensínstöðinni viljandi þarna inní – því það er mín reynsla að um leið og við tökum frumkvæðið á að hjálpa okkur sjálf, – löðum við að meiri hjálp. Eða eins og Louise Hay segir „Þegar þú segir já við lífið segir lífið já við þig.“ – Fyrsta skrefið er okkar skref. –