Þegar ég var í guðfræðináminu mínu, nánar til tekið í sálgæsluáfanga, þá talaði séra Sigfinnur, sem kenndi áfangann um að menn ætluðu sér stundum að drekka Guð úr flösku. – Það er að fylla tómarúmið sem er innra með þeim með áfengi, en það sem gerist er að þetta tómarúm er eins og svarthol, það er sama hversu mikið af áfengi er drukkið, – það tekur endalaust við, þannig að tómarúmið er viðvarandi.
Það sama gildir um þá sem reyna að fylla þetta tómarúm með ís, sælgæti eða bara hvaða mat sem er sem við borðum. – Sumir reyna að fylla tómarúmið með því að kaupa nýja skó.
Þegar við finnum þennan tómleika þá höldum við stundum að okkur vanti bara maka til að fylla upp í tómið – svo finnum við makann .. og kannski í einhvern tíma finnum við lífsfyllingu, en svo förum við að finna sömu tilfinninguna, því þetta virkar bara í stutta stund, svipað og víman af áfenginu. –
Hvað er til bragðs? –
Ég held að tómleikinn geti verið skortur á andlegri lífsfyllingu. Skortur á Guði. Og þá er ég ekki að tala um að gleypa gamlan, hvíthærðan og skeggjaðan karl 🙂 .. Það er andleg nærvera, sem kemur þegar við finnum að ljósið lýsir upp svarholið. Þessi fylling hefur ekki fast form, – hún er létt og leikandi og við öndum henni að okkur, djúpt – alveg niður í maga. – Það er súrefnið, það er lífið og eilífðin sjálf sem við hleypum þarna inn. Við finnum hvernig við öndum og náum tengingu við okkur sjálf. Fólk finnur þetta í jógaæfingum, í hugleiðslu eða bæn, – þegar það andar að sér náttúrunni – í fjörunni þegar það andar að sér ferskum sjávarilminum. –
Þetta eru dýrmætar stundir, – og svo fer það að gerast að þær verða þéttari og þéttari og þá verður um leið minni og minni þörf fyrir „aukaefni“ .. minni þörf fyrir allt sem kemur að utan.
Að vera með sjálfum sér og anda djúpt, – og hugsa með djúpu þakklæti fyrir að geta andað – inn og út – þá vitum við að við erum lifandi, og það sé nóg.
Við þurfum ekki að kaupa neitt, enginn þarf að gefa okkur neitt .. eða gera neitt fyrir okkur, við höfum þetta allt í hendi …. frá því við fæðumst og til … tjah .. kannski til eilífðar …
En kannski mikilvægast er vakna til meðvitundar að við höfum þetta öll núna.
Það er fagnaðarerindi dagsins í dag og alla daga …