Hið eilífa jólabarn … jólahugleiðing 2015

Skálholt  13. desember 2015   –  hugleiðing flutt á aðventukvöldi.

„Viltu leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“  

Væntanlega  hafa flestir sem hér eru staddir í kvöld, og eru komnir yfir fermingaraldur svarað þessari spurningu játandi.

Í kvöld langar mig að við íhugum saman hvernig það er að gera barnið Jesú – jólabarnið að leiðtoga lífs síns,  og það er mikils virði og í raun alveg lífsnauðsynlegt að rifja upp barnið í okkur sjálfum – og reyndar aldrei að gleyma því! ..

Einu sinni á ári,  og einmitt á jólunum, –  er vakin sérstök  athygli á barninu Jesú og eins og það er margt sem mig „klæjar í“  að tala um hér í kvöld,   þá varð það  jólabarnið  og barnið í sjálfri mér  sem kallaði mest á mig.
Ég er afskaplega þakklát fyrir það að hafa heyrt það kalla,  – því það er svo sannarlega ekki alltaf svo.  Stundum kallar þetta barn hátt og snjallt, –  „“ gættu að“ …  eða  „mundu að sinna mér“ … og  þessu barni  þarf svo sannarlega að veita umhyggju, ást  og athygli, –  eins og öllum öðrum börnum þessa heims. –  Það þarf að VIRÐA það.

Börn nærast á athygli,  og börn veslast upp upplifi þau tómlæti.   Þau verða fyrir vonbrigðum, – þau upplifa jafnvel að þau séu ósýnileg.

Við erum öll börn –  öll sem sitjum hér í kvöld, sama á hvaða aldri við erum, börn  sem þurfum athygli.  Við þurfum ekki síst athygli okkar sjálfra.

Þegar við vorum lítil börn þurftum við athygli – og ef við fengum ekki athygli þá höfðum við hátt, – og það er stundum kölluð neikvæð athygli.    Það er nefnilega þannig að jákvæð athygli er best,  næst skást er neikvæð athygli, – en verst er tómlætið.

Þetta lærði ég meðal annars í námskeiði um vellíðan, sem ég sótti á vegum endurmenntunarstofnuar Háskólans í Reykjavík,  en þá vorum við ekki að tala um börn,  heldur fullorðið fólk.   Við vorum að tala um vinnustaði,  hversu mikilvægt væri fyrir þau sem eru að reka fyrirtæki væri að veita starfsfólki sínu athygli.   Það gilda nefnilega sömu lögmál í gegnum allt lífið og á öllum aldri.

Þegar að við erum börn þurfum við athygli og þegar við erum fullorðin „börn“ þurfum við líka athygli.

Áður en ég held áfram í þessum athyglispælingum – ætla ég að segja aðeins frá mér, – og hvað ég hef verið að starfa við og grúska í á undanförnum árum.   Eins og fram kemur í kynningunni heiti ég Jóhanna Magnúsdóttir,  ég kláraði embættispróf í guðfræði  í febrúar 2003,  en var vígð sem til prestþjónustu á Sólheimum í Grímsnesi,  hér í Skálholti 15. nóvember sl.

Ég held ég hafi alla ævina verið að prédika,  bæði í ræðu og riti – fyrsta útgefna efnið eftir mig var birt í skólablaði þegar ég var fjórtán ára,  og það fjallaði um umgengni.   Frá því  ég útskrifaðst úr guðfræði 2003 hef ég starfað við ummönnun aldraðra,  við sölu á legsteinum,  við fatasölu,  sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla í sex ár og svo gerðist ég sjálfstætt starfandi ráðgjafi, fyrirlesari og hélt námskeið,  fyrir fólk af öllum stærðum og gerðum, – þar til ég tók við starfi forstöðumanns félagsþjónustu á Sólheimum fyrir liðlega ári síðan.

Ég byggði þessa leiðsögn á því sem ég hafði lært í skóla, m.a. í guðfræði og kennsluréttindanámi og á námskeiðum, sem eru býsna mörg og eitt þeirra stærstu var fimm daga meðvirkninámskeið sem ég fór á hér í Skálholti,  á vegum Lausnarinnar – sem ég fór síðan sjálf að starfa með.   En síðast og alls ekki síst byggði ég það sem ég var að kenna á minni eigin lífsreynslu, og hvernig ég hafði unnið úr mínum áföllum.

Ég minnist þess að þegar ég tók sálgæsluáfanga  í guðfræðideildinni, – þá hefðum við rætt að það væri ekki á neina eina manneskju leggjandi að upplifa öll áföll mannlegrar tilveru,  til þess eins að geta sett sig í spor annarra.   En í sorg – og við áföll,  leitar syrgjandinn eftir skilningi.  Hann leitar að einhverjum sem getur skilið hvernig honum eða henni líður.   En í raun er það bara einn sem skilur allt og veit allt og hefur verið alls staðar sem við erum, –  og það er Guð.   Fyrir mér er það hluti af almætti Guðs að þekkja hverja einustu taug og tilfinningu í mér,  og Guð skilur mig hundrað prósent,  og eftir því sem ég hef upplifað meiri áföll og missi,  hef ég líka skilið Guð betur.

Hvernig má það vera? 

Í sálgæslunni lærðum við m.a.  um hann Job, – Job sem var grandvar og góður maður.  Gerði allt „rétt“ – en þrátt fyrir það fór ýmislegt vont að gerast hjá honum.   Ég ætla ekki að rekja söguna af Job hér, en hvet alla sem hafa áhuga til að lesa hana – eða lesa aftur,  því hún er mjög áhugaverð.    Job missti í raun allt,   eða svona næstum allt.  Hann missti fjölskyldu sína,  eigur sínar,   heilsuna og útlitið meira að segja líka – og hann stóð eftir  með sjálfan sig.   En þegar búið var að taka þetta burtu,  hvað sá hann þá?    Jú hann sá Guð.   Áður hafði hann bara heyrt um Guð, – vissi um Guð af afspurn –  en núna hafði hann hreinlega séð Guð, og upplifað Guð.  Guð var svo nálægur,  þegar allt annað var farið.

Ég hef átt svona „Job“ stundir í mínu lífi og mitt stærsta áfall var við missi dóttur minnar – en hún lést í janúar 2013,  aðeins 31 árs gömul, eftir stuttan og grimman aðdraganda þar sem hún var mjög veik og var eiginlega flutt í örvæntingu  á milli spítala í Danmörku,  þar sem hún hafði búið og  þar sem læknar voru ráðþrota yfir óvenjulegum blóðsjúkdómi sem þeir réðu ekki við.

Ég hugsaði til Guðs –  „Þetta þekkir þú“ –  „að upplifa þjáningu og dauða barnsins þíns.“   Og vegna þess hve dóttir mín var yndisleg manneskja, falleg og gefandi þá leyfði ég mér líka að hugsa:   „Hún er eins og Jesús“   Jesús dó fyrir okkur,  og eins og ég sakna dóttur minnar og það að hafa félagsskap hennar – þá hef ég líka  upplifað hvílíka stóra gjöf hún hefur gefið öllum með því hvernig hún var og hversu mikið við lærðum af henni.

Hún hefur m.a. kennt mér að meta lífið, hvað það er sem skiptir máli í lífinu – að hlutirnir sem skipta máli eru ekki hlutir.   Hún hefur fært okkur hin saman, – mig og yngri systkini hennar – og síðast í gær fékk ég skilaboð yngri dóttur minni  sem bauð mér að koma og gista hjá sér á þessum „Sakna Evutíma“ ..  eins og hún kallaði það,  því svo sannarlega er aðventan ekki bara tilhlökkunartími – heldur líka tími söknuðar fyrir okkur sem höfum misst.  Og það höfum við flest.

Sem móðir þurfti ég að bera hið óbærilega.  Sem barn Guðs kynntist ég því  að Guð bar þetta óbærilega með mér.  Ég hefði ekki getað gert það ein.  Hann gerði það með því að skilja mig og hafa verið þarna.  Hann hefur nefnilega verið og er alls staðar.  Í sorg og gleði og í öllu á milli.

„Þó ég fari um dimman dal – geng ég aldrei ein“ ..

En nú eru jólin að koma – við erum á aðventuhátíð og það er svo mikilvægt að gleðjast og fagna.  

Við fögnum því meðal annars að ekkert sem er raunverulegt deyr.  Jesús er lifandi,  hann er raunverulegur og hann er meira að segja jólabarn ..

Við skulum alltaf  muna eftir þessu barni – veita því athygli   Jesúbarninu og okkar innra barni sem aldrei deyr.

Job þurfti að læra það „the hard way“   eða gegnum áföll og missi að þekkja og sjá Guð.   En hvað ef við þurfum þess ekki?      Hvað ef vð hlustum eftir röddinni – guðsneistanum í sjálfum okkur,  – jólabarninu í sjálfum okkur.   Hvað ef við lokum augunum og sjáum með hjartanu? –   Hvað heyrum við þá?   Kannski eithvað eða einhvern sem vill okkur ekkert nema gott,  sem hvíslar að okkur:  „Ég elska þig“ …

Og þá erum við komin að því markmiði sem ég hafði í allri ráðgjöfinni, fyrirlestrunum og námskeiðunum.   Það er að fólk næði tengingu við uppsprettuna,  sem í kirkjunnu má að sjálfsögðu kalla Guð, –   næði tengingu við sitt innra barn – og heyrði þessi orð  „Ég elska þig“ –    og á móti hvíslum við sem fullorðin,  í umboði Guðs í leiðsögn Jesú Krists og með krafti heilags anda;  „ég elska þig“ …     Leyfum okkur að anda djúpt,  hvert og eitt okkar – loka augunum,  sjá með hjartanu, faðma okkur jafnvel – og hvísla að okkur í hljóði  „Ég elska þig“ …

Ef við höfum einhvern tímann hætt að elska þetta barn, – þá er það vegna utanaðkomandi áhrifa,  skilaboða frá samfélaginu sem eru ekki frá Guði,  því Guð veit að við erum verðmæt – alltaf – og elskar hvert og eitt okkar án skilyrða og án þess sem bætist við þegar við förum að fullorðnast, án þess að við setjum á okkur varalit, – án þess að við fáum bestu einkunnirnar í skólanum,   án þess að við séum í kjörþyngd, – guð elskar án skilyrða.  Getum við elskað barnið án skilyrða,  eins og það gerir fyrstu árin sín – þegar það dæmir sig ekki eða ber sig saman við aðra?
Við höfum flest séð lítil börn virða fyrir sér fingurna sína,  og barnið  hugsar væntanlega ekki,  –  „jeminn hvað ég er með feita putta! –  „Oh hvað ég vildi vera eins og þessi eða hinn“ .. barnið hefur þann eiginlega að vera,  horfa án þess að dæma og kannski er það bara í einhvers konar undrun.

Þegar þetta litla barn fer að geta staðið í sína tvær fætur og heyrir tónlist,  þá byrjar það að hreyfa sig í takt við tónlistina,  því það nýtur hennar, –  þá hugsar það væntanlega ekki, –  „ætli einhver sé að horfa á það hvað ég er með útstæðan maga?“ ..  „Hvernig ætli öðrum finnist ég?“ ..   Það er ekki komið með þá hugsun – heldu getur notið tónlistarinnar – það samsamar sig tónlistinni og nær að vera það sjálft – án allra dóma og samanburðar og áhyggju yfir því hvað öðrum finnst. Það þarf ekki að þóknast – það þarf ekki að geðjast,  bara vera.
Þetta er barnið sem við viljum rifja upp, og vernda og segja við það:

„Ég elska þig … bara af því þú ert til og þú ert raunverulegt“ .. „já, já, það er þarna ennþá“  :- )  ..

Um leið og við segjum þetta,   þá búum við til góða elskandi orku,  sem er ekki bara fyrir okkur og barnið,  hún er fyrir alla þá sem eru í kringum okkur og hún nærir heiminn.

Munum hver við erum,  við erum guðs börn,  og okkur eru gefnir líkamar til að guðs barn fái að starfa hér á jörðu.   Það að elska sig,  þýðir að við förum vel með okkur,  og hugsum um bæði líkamann og sálina – eins og okkur væri falið að hugsa um jesúbarnið.  –   Við berum ábyrgð á heilsu þess og hamingju,   það er leiðtogi lífs okkar – og þess vegna skulum við muna eftir því,  því allt sem það segir okkur er sprottið af kærleika og væntumþykju, –   og eina sem við þurfum að gera er að veita því athygli – og við segjum „já“   ég vil gera þig að leiðtoga lífs míns.

Vertu velkomið jólabarn – ég hlakka svo til að taka á móti þér,  – þú skiptir mig máli og  ég upplifi að ég skipti máli vegna þín.

Svo þegar við komum heim í kvöld,  – þá legg ég til að við setjum lag á fóninn,  eins og sagt var í gamla daga, – og hleypum fram okkar innra barni,   með því að hrista okkur í takt við tónlistina, – það er ekkert til sem heitir að kunna ekki að dansa, – og leyfum okkur að finna fyrir jólabarninu í sjálfum,  hleypum forvitna barninu út – leyfum því að vera með í gleðinni  og dæmum það ekki.

Ég er – Þú ert og  Guð er með í öllu þessum pakka – bara ef við leyfum það!

Þakka fyrir áheyrnina – þakka þér og þínu innra barna og þökkum Jesú Kristi fyrir að vera með okkur alla daga.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s