Orðið „umhverfissóði“ fær nýja merkingu …

Ég hef alltaf verið ofurviðkvæm fyrir reykingarlykt, – eða réttara sagt reyknum sem kemur þegar verið er að reykja.   – Sem ung kona, og þótti hinn argasti dóni þegar ég bað fólk vinsamlegast ekki að reykja þegar ég var að borða,  eða þegar ég fór að biðja fólk um að reykja ekki inni hjá mér og í kringum börnin mín.

Sjálf ólst ég upp við að það var reykt í bílnum,  reykt inni o.s.frv.  – og við sem munum eftir því þegar boðið var upp á sígarettur og vindla t.d. í fermingarveislum og saumaklúbbum  – enda framleiddir öskubakkar og sígaretturstatíf í stíl við stellið –  hlæjum stundum að því í dag!  –

Við erum alltaf að læra!

Ég stundaði s.s. óbeinar reykingar sem barn, og var oft ekki undankomu auðið.

Þannig var tíðarandinn, og ekki er ég að dæma eina einustu manneskju fyrir að reykja ofan í barn, á meðan fólk vissi ekki betur. –  

Auðvitað er margur reykurinn í dag, og mengunin sem við erum að bjóða börnum – og fullorðnum upp á.   En þessi pistill á að fjalla um öðruvísi reyk og öðruvísi mengun,  og það er mengun orðræðunnar – mengun umtals.  Mjög klár kona sagði við mig í gær  „Það er munur á að vera gagnrýnandi eða umhverfissóði“ – og það kviknaði á ýmsu hjá mér!

Hvernig haga umhverfissóðar orðum sínum? –   Jú,  þeir t.d. tylla sér hjá þér og hella yfir þig úr öskubökkunum sínum.   Þeir reykja alveg ofan í þer og blása reyknum framan í þig þar til þú verður grænn.   Þeir mæta þér í lokuðu rými þar sem þeir púa og púa – hverja sígarettuna á fætur annarri og kannski margir saman,  þar til að þú ert orðin vel mettaður,  og fötin þín lykta þegar þú kemur heim.

Þegar þú situr í herbergi með fólki sem gerir lítið annað en að baktala náungann,  eða ræða neikvæða hluti –  þá eru áhrifin ekki ósvipuð.  –  Það er að segja þér einhverja svæsna hluti – nú eða bara hella úr skálum eða öskubökkum reiði sinnar.  (Munum að hér er ekki verið að tala um venjulega og uppbyggilega gagnrýni,  heldur umhverfisspjöll). –    Hvað í ósköpunum eigum við að gera til að forðast þetta?   Erum við ekki bara dónar að biðja fólk að hætta,  eða eigum við bara að brosa og taka við?  – Svo er auðvitað hægt að fara að reykja líka, – þá finnur maður varla lengur lyktina eða hvað?   …  

Ég hef  gerst „sek“ um umhverfismengun með orðum – en ég vil vera meðvituð.   Ég veit núna hvað þetta er óhollt,  alveg eins og við vitum núna hvað það er óhollt að anda að sér reyk,  og því er engin ástæða til að láta bjóða sér upp á eitthvað sem er eins og eitur.   Við megum segja: „Nei takk, þetta er ekki fyrir mig.“ –

Við erum alltaf að læra, eða ættum að vera að því. 

Við gætum farið að venja okkur á að anda grunnt,  til að taka sem minnst af eitrinu inn, en það er heldur ekki hollt fyrir líkamann.

Það er mjög gott að vera meðvituð um þetta,  er það sem við erum að segja,  eru orðin okkar umhverfisspjöll –  eru þau úrgangur sem við erum að dreifa um umhverfi okkar.  Hver er tilgangurinn með því sem við erum að segja?   Er það að fríska loftið eða metta það?  –

Það er hollt að hugsa og endurhugsa.  Það er líka hollt að standa með okkur sjálfum,  og næst þegar við mætum einhverjum sem vill fara að púa yfir okkur,  þá segjum við.  Afsakið,  en er þér sama þó þú gerir þetta ekki í kringum mig? –

Pælum aðeins í þessu saman.  ❤

Sköpum gott andrúmsloft, – hver vill það ekki?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s