Barnið þitt er ekki „vandamál“ …

Enginn er betri fyrir barnið en foreldri þess og enginn er verri fyrir barnið en foreldri þess. –

Allir sem líffræðilega geta orðið foreldrar geta orðið foreldrar.  Til þess þarf enga gráðu, menntun eða annað.   Það þykir bara sjálfsagt að þegar við höfum eignast barn að við kunnum að sinna því, að við elskum það og ölum fallega upp.

Það er bara ekki alltaf svoleiðis.

Þegar barn fær ekki þá umhyggju, uppeldi eða aðbúnað sem er því eðlilegur,  fer það eðlilega að breyta sér.   Það fer að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður.  Óeðlilegar aðstæður eru í raun allar aðstæður sem gera það að verkum að barn breytir sér.  Algengast dæmið er alkóhólískt heimili.   Það getur líka verið heimili þar sem foreldri á við geðræna kvilla að stríða.   Þegar foreldrar kunna ekki eða geta ekki einhverra hluta vegna veitt barninu það sem það þarfnast,  fer barnið að taka upp á alls konar uppátækjum til að reyna að stjórna foreldrum sínum – og reyna að laða fram umhyggju, ást o.s.frv. –    Það fer í hlutverk,  – t.d. hlutverk barnsins sem reynir að gleðja.  „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma“ ..   Barnið finnur þörf til að gera eitthvað svo mamma verði glöð og er þannig stundum farið að bera ábyrgð á gleði mömmu.
Stundum fara þessi börn að taka sig verulega á í námi,  því þau vita að það gleður mömmu eða pabba ef þau koma með háar einkunnir.   Svo vilja sum ekki vera fyrir eða taka pláss,  því það eru víst nógu mikil vandamál fyrir.  Það eru t.d. systkini langveikra barna sem fara í þann gírinn.

Svo getur það verið að þetta barn, – hegði sér ekki eins og foreldrarnir ætlast til.  Fari í uppreisn þegar það er búið að fá nóg, – það er búið að fá nóg af því að þóknast og geðjast og vera gleðigjafi heimilisins,  og fer í hinar öfgarnar.   Verður fúlt á móti og skapar vanda,  eða bara það skapar ekki viljandi vanda,  það bara getur ekki meira.   Þá fær barnið stundum að heyra að það sé vandamál.

Ég man eftir 14 ára strák, sem sagði þetta við mig: „Ég er vandamál“ – en vegna þess að ég þekkti fjölskyldusöguna vissi ég að hann var ekki vandamál og reyndar er ekkert barn vandamál.  Það geta vel verið vandamál í kringum barnið og í hegðun þess – það sem það gerir getur ollið vandamálum,   en barn er ALDREI  vandamál.
Hvernig í ósköpunum er hægt að ætla ráðgjafa,  eða sálfræðingi að hjálpa einstaklingi við að styrkja sjálfsmynd sína  sem fær að heyra það beint eða óbeint heima hjá sér að það sé vandamál-IÐ.

Ég skrifaði hér í upphafi að enginn væri betri fyrir barnið en foreldri og enginn verri.   Enginn er verri vegna þess að enginn hefur sterkari  mótandi áhrif en foreldri,  oft er það mamman og oft er það pabbinn og stundum bæði,  eða hvernig samskipti foreldranna eru.   Það er því bráðnauðsynlegt fyrir ALLA foreldra sem eiga börn sem eru í vandamálum (muna – ERU ekki vandamál),  að leita SÉR hjálpar hjá meðvirknisamtökum,  – eða einhvers staðar þar sem þau geta skoðað hvort að eitthvað í þeirra eigin hegðun, orðræðu eða annað hafi haft þau áhrif að barnið þeirra sé  að glíma við t.d. fíkn.   Muna:  ekki fara í sjálfsásökun,  – hér er verið að tala um sjálfsskoðun og að finna rót.  Kannski er hún í uppeldi foreldranna sjálfra,  eða umhverfi sem þeir geta ekki gert að,  og hvað þá til baka.  Enginn breytir fortíð,  en það er mjög mikilvægt að þekkja sína sögu og hvernig hún hefur breytt okkur þegar við sjálf vorum börn! –  Hvað var sagt við okkur?

Þegar á að hjálpa barni eða unglingi í vanda,  þarf alltaf að skoða samhengi hlutanna.   Það er alveg sama þó þetta barn eða unglingur komi frá „góðri“ fjölskyldu,   það eru margar „góðar“ fjölskyldur með alls konar ógróin sár og ómeðhöndluð sem smita áfram í ættlegginn.   Eitthvað sem hefur safnast undir mottuna og er órætt.

Þegar ég fór á mitt fyrsta meðvirkninámskeið fannst mér barnið mitt,  dóttir mín vera vandamál.  Svo var ég látin taka fókusinn af henni og huga bara að sjálfri mér.   Það var þetta með súrefnisgrímuna sko! –   Það sem ég þurfti sjálf að gera var að hreinsa út gömul sár og sorgir, – allt til bernsku.   Ég þurfti að læra að elska sjálfa mig og virða – og játast sjálfri mér eins og ég var, –  þá breyttist eitthvað.   Ég varð fyrir „opinberun“   þegar ég var seinna að hjálpa ungri stúlku – sem bjó ein með mömmu sinni og ég speglaði mig algjörlega sem móðir stúlkunnar og ég vissi þá að vandinn var að stórum hluta hjá mér.   Ég fór úr vinnunni og beint heim til dóttur minnar – tók utan um hana, grét og sagði „fyrirgefðu“ ..

Það getur verið stórt skref fyrir móður að átta sig á að hún var ekki að gera allt rétt,  en hún þarf ekki bara að fyrirgefa barninu sínu – hún þarf líka að fyrirgefa sjálfri sér.  –  Því hún kom úr ákveðnu umhverfi og uppeldi sem hún fékk engu um ráðið.

Hver er þá staðan?     Við breytum ekki fortíð,   en það er alltaf hægt að byrja upp á nýtt og gera betri framtíð.   Framtíð í meðvitund um hvernig við bregðumst við,  hvort við hegðum okkur sjálf eins og sært barn og viðbrögðin okkar verða slík,  eða hvort við erum orðin fullorðin – við séum búin að taka sjálf okkur í fangið og segja:  „fyrirgefðu elskan mín,  – þú gast ekki og vissir ekki betur – en NÚNA veistu og getur og það er aldrei of seint að skipta um fókus,  og fara að vinna upp,   og það er eina leiðin!

Hugsa upp en ekki niður,  hugsa ljós en ekki myrkur!  … áfram .. og þá erum við búin að kenna barninu okkar þess bestu lexíu – sem góðar fyrirmyndir! –

485819_203030436495113_521866948_n

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s