„Hvernig getur þú leyft þér að vera glöð – þegar aðrir þjást?“ ….
Um daginn skrifaði ég „HAPPY“ á status minn á facebook.
Ég var stödd í Sambýlinu Steinahlíð, og var „selskapskona“ tveggja einstaklinga sem treystu sér ekki með Sólheimum á árlegt jólahlaðborð. Ég hefði getað verið súr, því ég komst ekki með því ég ákvað að bjóða mig fram til að sitja með þessum tveimur. Það var ekki fórn, það var vegna þess að mig langaði til þess.
Mér finnst gott að þessi forsaga fyrir mínu „HAPPY“ komi fram.
Ég sat s.s. í sófa – með hnellur – eða Sólheimasmákökur fyrir framan mig, heimiliskona lá kósý undir teppi og brosti reglulega til mín, en hún var lasin svo hún komst ekki. Inní herberginu fyrir aftan mig heyrði ég skemmtilegan söng, manns sem er ekki lagviss, en söng af einlægni sem ekki er hægt að lýsa.
Mér leið nákvæmlega svona: „HAPPY“ . vegna þess að ég átti svo gott „NÚ“ .. eða Mátturinn í Núinu var svo magnaður.
„HAPPY“ .. var óútskýrður status. –
Þá var mér bent á að það væri ekki svo gott að vera hamingjusöm eða glöð núna því að nýbúið væri að senda albanska fjölksyldu úr landi með veik börn. –
Ég svaraði því til að ég gæti því miður ekki borið allar sorgir heimsins á mínum herðum. –
Það hefur nefnilega allt sinn tíma undir sólinni. – Einn má alveg vera glaður þó annar sé í sorg. Þá er ég ekki að tala um í sama herbergi, að geta ekki sýnt samhygð. Það er annað auðvitað.
Við höfum alveg leyfi til að vera hamingjusöm.
Ég man eftir konunni sem kom á námskeið og settist niður með skeifu og það var eiginlega hægt að sjá þrumuskýið yfir höfðinu hennar. Ég spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir hjá henni. „Jú, hún hafði verið að hlusta á fréttir og það voru flóð í Indónesíu og hungursneið í Afríku og þessi heimur væri bara á heljarþröm“ .. – eða eitthvað í þessa átt var svarið. Þá datt út úr mér – „Flóðbylgjan hefur þá enn eitt fórnarlamb“ .. og meinti þessa konu sem sat á móti mér, – og hélt síðan áfram „Og hvað hjálpar það þessum fórnarlömbum í Indónesíu og Afríku að kona uppi á Íslandi sé eyðilögð og óhamingusöm þeirra vegna?“ –
Auðvitað var þessi kona löngu búin að fatta þetta, – en við höfum örugglega verið flest í þessari stöðu, að bera sorg heimsins á okkar herðum. En það er bara ekki á neinn mann leggjandi. –
Það má því alveg vera glöð, þó að eitthvað erfitt og sorglegt sé að gerast hjá öðrum Við eigum að geta metið það eftir fjarlægð. Þegar við erum ekki í sorg, þurfum að vera þessi sem standa í fæturnar og leggja lóð á vogarskálar gleðinnar í heiminum, – en ef við ætlum öll að syrgja með öllum þá værum við organdi allan sólarhringinn og enginn mætti skrifa:
„HAPPY“ ..
❤