Lífsreglurnar fjórar …

 

Lífsreglurnar fjórar
Margir þekkja bókina „Lífsreglurnar fjórar“  eða „The four Agreements“ – eftir Don Miguel Ruiz.   Sjá hlekk HÉR

 

Hér eru þessar fjórar lífsreglur – sem ræddar eru í bókinni.  Það sem er skáletrað hér eru dæmi  frá eigin brjósti.  Ég mæli með lestri þessarar bókar, sem einni af grunnbókum í sjálfsrækt.
Vertu flekklaus í orði
Talaðu af heilindum. Segðu aðeins það sem þú meinar. Passaðu að nota ekki orðið
gegn þér eða til að slúðra um aðra. Beindu krafti orða þinna í átt að sannleika og kærleika.

Hvað er það að segja það sem þú meinar? –   og hvers vegna eigum við að gera það? –  Jú, dæmi: 

Afi og amma sakna barnabarnanna.  Loksins kemur unglingurinn í heimsókn,  en þá segir afi með vandlætingartón  „Sjaldséðir hvítir hrafnar!“ .. og amma bætir við „Þú kemur bara aldrei í heimsókn“ ..     Unglingurinn fer í vörn, og dauðsér eftir því að hafa þó loksins komið í heimsókn, og að öllum líkindum líður langur tími þar til hann kemur aftur.  

Ef að afi og amma hefðu sagt það sem þau meina, hefðu þau sagt!  „Mikið er yndislegt að þú ert kominn, – okkur þykir svo vænt um það, – okkur langar svo að sjá þig oft, því það er svo gaman að fá þig.“ –    Það er það sem raunverulega er í gangi, en þegar þau eru í skömmunum – eru þau að tjá sig um sársauka sinn og söknuð,  ekki það sem þau meina: Að þau elski barnabarnið sitt. 

Ekki taka neitt persónulega
Ekkert sem annað fólk gerir er þín vegna. Það sem aðrir segja og gera er speglun af  þeirra
eigin veruleika, þeirra eigin hugarástandi. Þegar þú hættir að taka skoðanir og gjörðir
annarra nærri þér, verðurðu ekki lengur fórnarlamb ónauðsynlegrar vanlíðunar.

Einu sinni var það þannig að ég sveiflaðist eins og lauf í vindi eftir hvað fólk sagði við mig, sérstaklega mitt nánasta.  Ef ég fékk hrós var ég glöð en ef einhver setti út á mig var ég leið.   Tilfinningar mínar stjórnuðust alveg af því hvað „hinir“ sögðu um mig,  og ég áttaði mig ekki á því að það sem „hinir“ segja er þeirra upplifun á mér,  en það er ekki ég.   Nýlega klagaði ölvaður farþegi rútubílstjóra fyrir að vera ölvaður.  Rútubílstjórinn var stöðvaður og látinn blása í mæli, og auðvitað var hann edrú.   Það var sá fulli sem upplifði hinn ölvaðan 😦 ..   Þetta er nú eitt mest „extreme“ dæmi um að fólk þurfi að líta í spegil, en þetta er oftar en ekki.   Þannig að ef einhver segir þig neikvæðan t.d. þá mætti sá sami skoða hvernig hann þekkir neikvæðni þína, eru það kannski hans eigin neikvæðu takkar sem eru í gangi.    Alla veganna – taktu stjórn á þér og ekki láta aðra ákvaða hvernig þér líður!!  Oftar en ekki snúast athugasemdir um þá, en ekki þig, svo ekki taka neitt persónulega. 

Ekki draga rangar ályktanir
Hafðu hugrekki til þess að spyrja spurninga og til að biðja um það sem þú
raunverulega vilt. Hafðu samskipti þín við aðra skýr svo þú komist hjá misskilningi
og sárindum. Þessi eina lífsregla getur breytt lífi þínu.

Ég var einu sinni með par í viðtali, – þau áttu tvö börn og voru bæði að vinna úti – svo það þurfti mikið skipulag.  Hann fór reglulega í ræktina tvisvar í viku, en hún kvartaði undan því.   Hann varð hissa, og spurði hvort það væri ekki í lagi að hann héldi sér í formi.  Hún varð fúl og sagðist ekki komast í ræktina eins og hann.  Ég spurði hana þá hvort hún væri búin að segja hvaða daga hún vildi komast í ræktina.  Þá svaraði hann að hann hefði ekki vitað að hún vildi fara.   Ég spurði hana hvort hún hefði ekki rætt það við hann, en þá sagði hún „Hann á bara að fatta það! ..    Hún ályktaði að hann myndi fatta hvað hún væri að hugsa,  en hann gerði það ekki.   Það er ekki hægt að ætlast til að aðrir viti hvað við hugsum,  jafnvel þó það séu makar okkar.   Það hugsa ekki allir eins og því getum við ekki ályktað hvað hinir eru að hugsa!! 

Gerðu alltaf þitt besta
Þitt besta mun breytast á hverju andartaki við ólíkar aðstæður. Burtséð
hverjar kringumstæðurnar eru, gerðu einfaldlega alltaf þitt besta og þú
munt hætta að fordæma, fara illa með þig og fyllast eftirsjá.

Ég held að lykilorðið hér sé „þitt“ –  því að við getum bara gert okkar besta, en ekki annarra besta.  Ef við erum alltaf að miða okkur við aðra, verðum við eflaust aldrei ánægð.  Það var eins og konan sem var að íhuga að ganga á Esjuna.  Vinkona hennar hljóp upp á klukkutíma,  og konunni fannst hún algjör „lúser“ að vera að rölta þetta á tveimur eða þremur klukkutímum. –  Það var samt stórsigur hjá henni.   Það getur verið jafn mikill persónulegur sigur fyrir einn að ganga á Arnarhól eins og fyrir annan að ganga á Hvannadalshnúk.   Við eigum að miða árangur okkar við okkur sjálf.  Gera OKKAR besta! 
Lifsreglurnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s