Nóg af peningum en ekki kærleika? ..

Prédikun í Sólheimakirkju 24. janúar 2016.

Matteusarguðspjall 20:1-16

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

 

Í gærkvöldi horfði ég á fallega sannsögulega bíómynd í sjónvarpinu um fjögurra ára strák sem lenti í þeirri lífsreynslu að það sprakk í honum botnlanginn.  Honum var á tímabili vart hugað líf, –  en sem betur fer var honum bjargað.   Þegar strákur hresstist,   fór hann að segja frá því að hann hefði farið til himnaríkis, – setið í fangi bæði Jesú og afa síns.  Hann sagði margt fleira um þessa upplifun sína,  en hann sagði líka frá því að allir væru ungir í himnaríki, enginn þyrfti gleraugu – og enginn væri veikur.    Himnaríki væri svolítið öðruvísi.

Guðspjall dagsins fjallar líka um himnaríki,  og hvernig það er öðruvísi.  Jesús talar um víngarð og húsbónda og hvernig kerfið virkar í himnaríki,  þannig að hinir síðustu verða fyrstir og hinir fyrstu síðastir. – Okkur finnst örugglega flestum að dæmisaga Jesú sé skrítin – um húsbóndann sem ræður verkamenn,  sem sumir vinna allan daginn, aðrir hálfan og sumir aðeins klukkutíma,  en þeir voru ráðnir á „elleftu stundu“ – sem þýðir að dagsverkinu var nær lokið.  Það skrítna var kannski ekki að þeir voru ráðnir á sitt hvorum tímanum, –  heldur að þeir fengu allir einn denar, fyrir vinnuna sína,  þrátt fyrir að vinna mismunandi mikið.  Denar er gjaldmiðill sem þarna er notaður, en einn denar var skv. gjaldskrá þessara daga daglaun verkamanns.

Það er meira undarlegt við þessa dæmisögu,  og í fyrstu virðist hér fjallað um óréttlæti,  en boðskapur hennar er ekki um óréttlæti heldur um náð. –   Hún fjallar um náð Guðs.

Við erum svo vön að hugsa í ákveðnum kerfum,  að þegar eitthvað er gert öfugt við það sem við erum vön,  þá förum við eiginlega sjálf í kerfi!  🙂    Stundum megum við alveg efast um það sem sagt er, og kannski líta á það frá nýju sjónarhorni.   –  Dæmi um slíkt,  er hvernig margir hugsa um hamingjuna.  Þeir haldi að fyrst þurfi þeir að eignast eitthvað eða ná einhverju markmiði,  – en nú eru vísindamenn búnir að sanna að þetta virkar öfugt,  að það er hamingjan sem skapar árangur.

Í dæmisögunni hans Jesú er kerfinu snúið á hvolf.  –

Hvernig má það vera að það sé réttlátt að öllum sé greidd sama upphæð?

Jú, enginn var svikinn.  Engum var lofað meira en einum denar fyrir daginn.  En á þessum tíma þótti denar bara ágætis daglaun.  Það sem truflar er að þeir sem voru ráðnir síðastir og unnu bara smástund fengu líka denar.   Þeir sem unnu allan daginn hefðu örugglega verið sáttir ef þeir hefðu verið einir,  og ekki vitað af hinum.   En þarna erum við að tala um himnaríki þar sem allir eru jafnir,  – og til gamans má segja frá því að ég var einu sinni í leikfimi  og var bara nokkuð sátt við mig, þar til ég leit í kringum mig og sá að ég var stirðust á gólfinu.  Konurnar gátu teygt sig alveg fram í tær.  Þá fór ég að vera óánægð – eða þangað til að kennarinn sagði upphátt:  „Ekki bera ykkur saman við hinar, samanburður er helvíti“ ..  og þá brosti ég og hef tileinkað mér þetta síðan.  Gert MITT besta og þannig verið í mínu eigin himnaríki.  Bara við að gera MITT besta.

En komum aftur að dæmisögunni – þar  er verið  að tala um himnaríki.  Varla þurfum við peninga í himnaríki? –  Kannski er gjaldmiðillinn alls ekki peningar?

Þegar við á Sólheimum vorum að skrifa upp lista yfir starfsfólk Sólheima, og hversu margar jólagjafir þyrfti að kaupa, –  þá hikuðum við snöggvast við þegar að kom að fólkinu sem hóf störf í nóvember, eða desember.  Á elleftu stundu, eins og sagt er.   Átti það að fá jólagjöf frá Sólheimum,  eins og hinir eða ekki?    Við hikuðum ekkert lengi, –  því að okkur þótti eiginlega bara hallærislegt að gera það ekki.  Og þau fengu heldur ekki minni jólagjöf en hin.   Þau voru orðinn hluti af okkar teymi.   Af okkar hópi,  af Sólheimum,  eða kannski bara Sól-himnaríki!

Hvernig væri heimurinn ef það væru ENGIR peningar, – væri hann ekki bara eins og himnaríki? –   Ef að allir fengju nú jafnt? –   Er ekki ójafnvægi heimsins það sem gerir hann svona óréttlátan?

Á einum stað í heiminum er fólk að svelta af því að það á ekki fyrir mat,  á öðrum stað í heiminum er fólk að hamast að losna við aukakílóin því það er búið að borða allt of mikið.

Á einum stað í heiminum,  situr ein manneskja í allt of stóru húsi,  á öðrum stað í er lítið hús troðfullt af fólki sem deilir litlu húsi.   –

milljóneri     margir

 

Er þetta ekki hið raunverulega óréttlæti?  –

Hvað segir Jesús um þetta?   –   Hann segir okkur að ef að við eigum tvennt af einhverju þá ættum við að gefa annað til þeirra sem þess þarfnast.   Hann segir líka að það sem við gerum fyrir okkar minnsta bróður það gerum við fyrir hann.  –

Svona lifum við ekki á jörðinni,  –  kerfið sem við höfum búið til,  er kerfi þar sem hver og einn hugsar um sitt.  Þetta er MITT,  hugsum við,  og við viljum fá borgað fyrir OKKAR vinnu. –   Það er ekki hægt að skamma okkur fyrir að hugsa svona,  því þetta er orðið einhvers konar prógram í okkur.

Margir vilja kenna Guði um að börn svelti í heiminum,  en hvernig getur það verið þegar við mannfólkið erum sjálf að stjórna peningunum og ráðum hvert þeim er varið?   Kerfin okkar eru ekki búin til af Guði,  þau eru mannanna verk.     Það er ofsalega „ódýr“ lausn að kenna Guði um kerfin okkar eins og kapítalismann.   Guð er að kenna okkur að deila með okkur, jafna út – og viska Guðs er kærleikur.

Það er ágætt að hugsa þetta aðeins,  þó við getum ekki gefið helming af öllu sem við eigum, – en ef við eigum auka af einhverju, þá má gjarnan gauka því að einhverjum sem á ekkert.    Það er byrjunin á himnaríkinu.  Það geta allir gefið eitthvað, og ef það eru ekki hlutir,  er hægt að gefa af kærleika sínum.

Sumir spyrja hvort það sé  til nóg af peningum í heiminum til að fæða allt fólk,  svo engin börn þurfi að svelta? –   En svarið er ekki að það sé ekki til nóg af peningum.   Það er til feiki nóg af peningum,  EN þeim er bara svo misjafnlega dreift.    Sumir fá milljónir – jafnvel milljarða og aðrir – fá ekki neitt.    Hvað er þá það sem vantar í heiminum?    Það er jöfnuðurinn og kærleikurinn. 

Það getur Guð,  – það er það sem hann hefur fram yfir menninna,  eins og svo margt.    Guð getur elskað alla jafnt.  Guð getur fyrirgefið allt.  Guð getur skilið allt.   Guð skilur þegar við erum sorgmædd og finnum til, en Guð getur líka skilið þegar við erum glöð og hamingusöm og gleðst með okkur.

Við segjum gjarnan í gamni:  „Í stuði með Guði“ –  og þá bæta sumir við „Í botni með Drottni“ ..  Þetta þykir okkur fyndið,  en flestu gríni fylgir alvara – og þetta er ekki undantekning!  ..

Að gleðjast með Guði þýðir að hann tekur þátt í gleðinni með okkur,  – og bæði hann og við erum „Í stuði“ ..

Að vera á botninum með Guði,  eða í botni með Drottni,  – þýðir að þegar okkur líður illa,  alveg eins og við séum á botni í einhverri svartri ógeðslegri holu,  þá erum við ekki ein þar.  Hann er ALLTAF með okkur.

Guð er með sveltandi barni,  Guð er líka með þeim sem berst við offitu.  Guð er alltaf.
Hann hefur gefið okkur leiðsögn, meðal annars í gegnum son sinn,  Jesú Krist, – sem hvetur okkur til að gefa með okkur.  Ekki leita eigins.  Þegar við biðjum Faðir vorið segjum við ekki „ Verði MINN vilji“ – við segjum „Verði ÞINN vilji“ ..  en þá verðum við líka að hleypa Guði að til að heyra hvað hann er að segja J ..

Við getum ekki gert þá kröfu á okkur sjálf að vera eins og Guð, en þegar við fermumst – þá förum við með yfirlýsingu um það að leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.   –  Við getum leitast við að vera sem best og rausnarlegust við náunga okkar.  Við getum leitast við að deila því sem við höfum.   Við förum að hugsa öðruvísi,  kannski um það sem raunverulega skiptir máli.

Hvað er það sem raunverulega skiptir máli?   Eru það peningarnir?  Er það þakið yfir höfuðið?    Jú,  við þurfum peninga til að kaupa mat og nauðsynjar,  – og þurfum þak yfir höfuðið til að fá skjól.    En það sem raunverulega skiptir máli,  og er grunnurinn af því að eiga gott líf,  er vináttan og heilsan.    Þó við ættum risastórt hús – og heilan peningatank,  en hvorki vini né heilsu,  þá gagnaðist okkur lítið húsið og peningarnir.   Við gætum kannski synt í peningatankinum eins og Jóakim aðalönd,  en við værum samt sem áður án þess sem raunverulega skiptir máli.
Verkamennirnir sem unnu allan daginn,  fengu launin sín.  Þennan eina denar, sem voru sanngjörn laun og dugðu vel.   Hinir sem höfðu staðið á torginu og beðið milli vonar og ótta – fengu líka denar. Kannski höfðu þeir verið atvinnulausir lengi, – og gátu nú keypt mat.   Svo ég beri nú aðeins í bætur fyrir „kerfið“ þá höfum við það þannig í siðmenntuðum löndum,  að atvinnulausir fá líka greitt og þeir sem af einhverjum ástæðum geta ekki unnið út á akrinum fá bætur.

Þessi denar, – er tákn fyrir náð Guðs.  Það er enginn sem fær brot af náð Guðs,   ¼ af náð,   það er annað hvort allt eða ekkert.  Og það er sama hvort að vð þiggjum hana sex að morgni eða á elleftu stundu,  hún er alltaf hin sama.  Þannig er himnaríki,  það fá allir jafnt,  enginn sveltur, enginn er plagaður af offitu, allir eru jafnir og Guð fer ekki í manngreinarálit. Stóra niðurstaðan er, að þar ríkir jafnvægi.   Þegar upp er staðið,  fjallar þessi óvenjulega dæmisaga – um réttlæti en ekki óréttlæti.

Guð elskar alla jafnt, og hann tekur fagnandi á móti öllum sem segja „já“ við hann eða að koma í víngarð hans – og það er aldrei of seint að elska Guð.

249106_10150991795971001_1629834884_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s