Veljum og höfnum fyrir heilsuna og lífið! ..

Eftirfarandi pistil skrifaði ég sem facebook-status nýlega, eftir ákveðið tilefni.  Í raun þurfti ekkert tilefni,  það er ágætt að hafa það sem hér stendur í huga, – ekki bara fyrir þau sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferðir,  bara fyrir alla sem eru að glíma við veikindi.   Pistillinn er örlítið breyttur frá því sem var upphaflega og almennari.

Það eru til mörghundruð tegundundir af krabbameini, og fólki er boðin meðhöndlun miðað við þá möguleika sem eru í stöðunni. Það að greinast með krabbamein, þýðir oftast að við þurfum einhvers konar meðferð.

Meðferðirnar eru bæði miðaðar við á hvaða stigi krabbameinið er og svo eru þær einstaklingsmiðaðar. Flestum meðferðum fylgja aukaverkanir, stundum vægar – og stundum miklar. Algeng aukaverkun við lyfjameðferð er flökurleiki og hármissir, þreyta er algeng við bæði lyfja-og geislameðferð, – ég myndi kalla þreytuna sem ég upplifði á tímabili „örmögnun“ því það er svo erfitt að lýsa henni, en vegna þess að við erum eins misjöfn og við erum mörg þá er þetta mjög einstaklingsbundið. Líka skiptir það máli hvers konar formi við erum í áður en við greinumst, bæði andlega og líkamlega.

Þó að sumir ákveði, eins og ekkert eða lítið hafi í skorist, að mæta til vinnu í veikindum eða á meðan meðferð stendur yfir  – þýðir það ekki að það sé endilega leið allra hinna. Ef viðkomandi treysta sér, þá er um að gera að virða þá ákvörðun, en það segir ekkert um líðan eða ákvarðanir annarra sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferðir.

Ég vil þó setja varnagla þarna við, því að það getur verið hættulegt að leggja pressu á fólk að halda sínu striki í vinnu þrátt fyrir veikindi, – vegna þess að álagið getur gert okkur veikari.   Pressan getur komið ef við hælum fólki of mikið fyrir að koma til vinnu – þrátt fyrir veikindi.

Þegar kemur að veikindum er samanburður ekki raunhæfur, m.a. vegna þess sem ég útskýrði í upphafi. Fólk er misjafnlega viðkvæmt fyrir,  það eru mismunandi forsendur, mismunandi stig, og aðgerðir fara misjafnlega í fólk.  Svo má bæta því við hér að vinna er mismunandi,  það er t.d. munur á líkamlegri vinnu og andlegri, – hvaða „krafta“ við þurfum að hafa o.s.frv.  Sumir vinnustaðir eru meira umvefjandi en aðrir o.s.frv.

Dæmi:

Siggi  tekur ákvörðun,  í samráði við sinn lækni að taka veikindaleyfi, en fær svo „þúsund“ sögur af Gunnum og Jónum sem mættu í vinnuna á meðan meðferð stóð,   þannig að Siggi fer að halda að hann sé einhver aumingi og fær samviskubit yfir að sleppa vinnu.   (Smá skilaboð til okkar allra:  ef vinur eða vinkona greinist, þá langar hann sjaldnast að heyra hetjusögur af öðrum „í sömu sporum“ .. málið er að við stöndum aldrei nákvæmlega í sömu sporum).

Góður læknir benti mér á þessa setningu, þegar ég maldaði einu sinni í móinn og fannst ég svo ómissandi í vinnunni: „Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ ..

Það er samofið í þjóðarsálina að fá samviskubit þegar við tökum okkur leyfi frá vinnu vegna veikinda. Helst þurfum við að liggja milli heims og helju með 40 stiga hita í rúminu. – (Í gamla daga var það mælikvarðinn á að vera veikur, hvort við værum með hita, og hjá sumum ennþá).

Það má alveg túlka það sem hetjuskap, að láta ekki deigan síga og mæta í vinnuna, þrátt fyrir alvarleg veikindi, – en það þarf ekki síður hugrekki til að víkja sér undan álagi, – og taka á þann hátt  ábyrgð á eigin lífi og heilsu.

Ég endurtek að þetta er hverjum í sjálfsvald sett, og samanburður er ekki raunhæfur.  Sumir hafa þörf fyrir að mæta í vinnu og finnst það betra, – og geta jafnvel fengið að vinna hluta úr degi.  Það getur líka verið gott til að dreifa athyglinni.

Heilsan okkar er grunnurinn, ef við höfum hana ekki þá vantar eiginlega allt annað. –

Það er staðreynd að álag getur gert okkur lasnari,  svo við þurfum að velja og hafna fyrir heilsuna og lífið.

Lifum heil!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s