Ég man eftir því að hafa séð bíómyndir sem barn, þar sem verið var að fanga villta hesta og temja þá. Ég „hélt með“ hestunum, þ.e.a.s. ég vildi ekkert að þeim yrði náð, og óskaði þess að þeir fengju bara að hlaupa um hagann áfram – eins og eðli þeirra var.
Ég hef nákvæmlega ekkert vit á tamningu hesta, – þetta var bara það sem hjartað sagði mér þá, og börn eru yfirleitt með frekar „basic“ hjartalag.
Talandi um börn, þá er ég í dag, – lífsreynd kona á sextugsaldri, að hugsa um börnin og hversu langt við eigum að fara í það að „temja“ þau og hemja? – Hvenær erum við komin yfir strikið og farin að bæla hið náttúrulega eðli? –
Eins og margt sem ég skrifa, er þetta hugsað upphátt. Það kemur auðvitað skynsemisröddin, að við erum í samfélagi og það geta ekki bara allir hlaupið um villtir og hegðað sér eins og þeir vilja. Eitthvað regluverk verður að vera fyrir hendi, en þá auðvitað til að hlutirnir hafi flæði og gangi upp, ekki til að auka árekstrana. Við getum séð um það sjálf.
Það er alveg öruggt að oft hefur verið farið yfir strikið í uppeldi barna, sem hefur leitt til þess að þau verða bæld, og óeðlileg. Það er því vandaverk að kunna mörkin, – mörkin milli þess að ala upp og bæla.
Sjálf fékk ég oft að heyra það að ég væri „óhemja“ þegar ég var barn. Já, það hefur líklega verið erfitt að koma á mig böndum. – Enda vildi ég ekki byrja í skipulögðu skólastarfi, – og braust um á hæl og hnakka fyrsta árið, – þar til að ég fór að sitja kyrr og hætti að kasta appelsínuberki í kennarann. – Það þarf varla að taka það fram að ég var í flokkuð í „tossabekk“ fyrsta árið.
Í dag veit ég ýmislegt um skólakerfið, – vissulega er mennt máttur, en ég er enn sammála hinni sex ára Jóhönnu að menntakerfið sem hún var sett inn í var henni ekki eðlilegt. Að sitja í hnakkasamfélagi (í bekkjarkerfinu sitja allir í röð) – og hlusta á kennarann. – Það skal tekið fram að við fengum að fara í Tarzan leik í íþróttasalnum og þar klifruðu hin flinkustu upp kaðlana, alveg upp í topp, – en það var svosem ekki heldur ég – hef aldrei getað klifrað upp kaðal. – Það skemmtilegasta sem ég gerði á mínum bernskuárum var „ímyndunarleikur“ hvort sem það var verið að búa til verslun eða hús heima á stétt, eða þar sem ég var í kúrekaleik við beljurnar uppí sumó, – baka drullukökur skreyttar með sóleyjum og fjólum. – Það sem vantaði meira af í minn skóla var ímyndun – sköpun – leikur, sem var í raun útí náttúrunni sjálfri. Þar leið mér best og líður enn.
Kannski þráum við bara að vera „villtir hestar“ – ekki með taum – beisli – múl .. nú eða hnakk, og alls ekki að láta stjórna okkur.
Þetta er svona „food for thought“ – eða fæði til íhugunar.
Verum ekta og verum villt – börn náttúrunnar, náttúrlega ❤