Ég veit ekki betur en þú hvað er best fyrir þig…..

„Það vilja allir hafa vit fyrir manni“ ….  sagði mér ein yndis manneskjan sem ég var að rabba við hér á Sólheimum. –

Við vitum væntanlega að þetta er mjög algengt,  t.d. gagnvart fötluðum einstaklingum,  að við teljum okkur hafa meira vit á því hvað þeim er fyrir bestu en þau sjálf.

En er það rétt?  – Höfum við verið stödd í þeirra veröld eða á þeirra stað? …

Mig langar að útskýra þetta betur og hvernig við getum mætt náunga okkar,  ekki bara þeim sem eru greind með fötlun,  heldur öllum sem okkur finnst við knúin til að hjálpa og þar má t.d. telja upp börnin okkar.

Öll viljum við hafa vald á eigin lífi og fá að ráða sem mestu.  Þegar okkur líður þannig að við höfum valdið upplifum við okkur líka sjálfbjarga.

Það er talað um að hjálpa til sjálfsbjargar,  en ekki gera fyrir, þannig að einstaklingur upplifi sig bjargarlausan og því ekki með vald yfir eigin lífi.

Þegar þú hjálpar einhverjum – má aldrei felast í því neinn dómur á stöðu viðkomandi eins og hún er þá stundina. Þá ert þú um leið að setja þig á hærri stall en sá sem þú vilt hjálpa, – og hjálpin verður „gölluð“ – og kannski virkar hún bara öfugt.

Þegar ég er í mínum hlutverkum,  sem ráðgjafi, prestur, móðir eða bara sem manneskja,  þá get ég í engum tilfellum sett mig 100 %  í spor annarra, og hef heldur ekki leyfi til að dæma.
Jafnvel þó ég sé móðir sem hefur misst barn,  – þá er það aldrei alveg á sama hátt og á sama tíma og móðir eða faðir sem ég mæti sem hefur líka misst barn.   Ég skil tilfinninguna og sorgina,  en er aldrei stödd nákvæmlega á sama stað.  Hef ekki sama bakland, sömu forsendur o.s.frv. –  ég get því ekki þekkt stöðuna né „dæmt“ hana. Allir hafa rétt á sinni líðan og sínum tilfinningum.

Ég hef lifað margt og reynt margt, -ef örin mín væru sýnileg væru þau mörg, svona fyrir utan þessi líkamlegu, sem eru vissulega þarna líka.

Það gefur mér aukinn skilning á mannlegu eðli og aukinn þroska að hafa reynt margt erfitt.  En samt sem áður hef ég ekki rétt til að hafa vit fyrir öðrum.

Hvernig virkar þá það að ég gefi ráð?  Að ég sé ráðgjafi? –  Nú eða þú – sem móðir, faðir, vinur eða vinkona,  nú eða sálfræðingur eða læknir?

Þegar þú ert að hjálpa, ekki vera „beturvitringur“ – þannig að sá/sú sem þú talar við upplifi að þú sért að reyna að hafa vit fyrir honum/henni. –

Kannski er rétt að segja eitthvað á þessa leið:

„Ég veit ekki hvar þú ert, – vegna þess að ég hef ekki lifað þínu lífi. Mitt starf er ekki að leiða þig þangað sem ÉG held að þú eigir að vera. Það er fáránlegt að ég haldi að ég viti betur hvað er betra fyrir nokkurn . Mitt starf með þér er að biðja þig um að hjálpa mér að finna út úr því hvar þú vilt vera, og ég legg mig fram við að hjálpa þér að vera þar. –

Í stuttu máli: „Hvar vilt þú vera?“ –  „Ég skal hjálpa þér að komast þangað, ef það er nokkur möguleiki, og  ef þú vilt“ ..

Í þessu öllu er mikilvægast að muna að við erum ekki dómarar.  Að viðkomandi upplifi það að við virðum hann/hana,  eins og hún/hann er og í þeirri stöðu sem hann/hún er akkúrat þessa stundina.    Það er hluti af sáttinni,  og úr gróðurbeði sáttarinnar sprettur nýr vöxtur.

Réttu fram höndina, og spyrðu: „Hvert vilt ÞÚ fara?“ .. „Ég skal fylgja þér ….. ef þú vilt“ ..

images

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s