Stórt er spurt enda lífið stórt. Önnur spurning þessu nátengd: „Hver er ég?“ –
Þegar við ákveðum að keyra hringveginn i kringum landið er upphafsreitur „heima“ og áfangastaður „heima“ – er þá ekki tilgangslaust að fara af stað? –
Hver er tilgangurinn með þessari ferð ef við endum á sama stað? –
Því getur eflaust hver svarað fyrir sig, – en ég myndi keyra hringinn til að upplifa, til að skemmta mér, til að njóta, – og vissulega tæki ég áhættu eins og með því að keyra á þjóðveginum, þar eru alls konar slysagildrur. – En ég gerði það samt vegna þess að mig langaði í ferðalag, mæta öðru fólki o.fl. – kannski með einhverjum sem væri gaman að upplifa með, en það væri ekki aðalatriðið. –
Í þessu ferðalagi lærum við örlítið meira um landið, við bætum því í reynslubankann að hafa farið hringinn. – Það gæti verið öðru vísi reynsla í annað sinn, – aðrar upplifanir og annað fólk sem við mætum. Svo má fara stærri hring, þess vegna hringinn i´kringum jörðina!
Í ferðalaginu og við reynsluna útvíkkum við sjóndeildarhringinn, við vöxum og þroskumst. Þegar fólk ferðast á sjó þá „sjóast“ það!
Nú komum við aftur að spurningunni „Hver er ég?“ Ég er sú eða sá sem geng til. Ég er „tilgangarinn“ – og í raun erum við alltaf að ganga heim til okkar. Upphafsreiturinn er heima og áfangastaðurinn er heima. Við breytumst í raun ekki neitt, en við þroskumst og menntumst í gegnum lífsgönguna. Mismikið þó, eftir „ævintýrunum“ sem við mætum.
Tilgangurinn og „tilgangarinn“ erum við sjálf. Tilgangur lífsins er upplifun. Við þurfum ekki alltaf að vera á ferðalagi – til að upplifa, – það er hægt að upplifa við lestur bóka, við hugleiðslu, við samskipti o.s.frv. Við kyrrsetu líkamans en ferðalag hugans. Það er hægt að upplifa í kyrrðinni. Við leggjum af stað en við komum alltaf heim – í lokin.
Við (mannfólkið) erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig. –