Samkvæmt Dr. Gabor Maté sem er býsna klár „Doktór“ .. (hægt að gúgla hann og hlusta á aragrúa fyrirlestra á youtube). Þá er það hans niðurstaða að allir – eða næstum allir sjúkdómar – líkamlegir, sem andlegir eigi rætur í upplifunum sem við verðum fyrir í bernsku.
Það stemmir alveg við það sem ég lærði um sjúkdóminn meðvirkni, því rætur hans liggja alltaf í upplifunum í bernsku.
Mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þessu, vegna þess að í dag er fullt af börnum sem við getum forðað frá sjúkdómum, eða skaðaminnkað áhrif okkar eða samfélagsins á þau.
Við getum að sjálfsögðu ekki forðað þeim frá áföllum eins og dauðsfalli í fjölskyldunni og jafnvel ekki skilnaði. Það getur verið meira trauma fyrir barn að búa með foreldrum sem eru ósátt við hvort annað, og eiga í vondum samskitpum, en í sitt hvoru lagi, svo skilnaður er ekki verstur.
Erfiðleikar í lífi barns felast ekki endilega í þessum „hefðbundnu“ áföllum – og ytri áhrifum, heldur í framkomu þeirra sem eru því næstir. Það hefur heldur ekki bara áhrif hvað foreldrar segja – heldur líka hvernig foreldrar eru, og viðmót þeirra.
Stressaðir foreldrar, uppstökkir – og þeir sem eru undir miklu vinnuálagi hafa neikvæð áhirf á bernsku barna sinna. Börnin eru svo viðkvæm og opin að þau skynja og taka inn á sig líðan foreldra. Þess vegna er það svo mikilvægt að hvert og eitt foreldri líti í eigin barm og hreinlega geri allt til að láta sér líða vel – og þá er ekki um að ræða í gegnum áfengisnotkun eða aðra vímuefnanotkun, heldur að finna innri ró og yfirvegun.
Hamingjusamt foreldri í jafnvægi er það besta sem barn getur hugsað sér og – jafnframt sem veitir barninu athygli og viðurkenningu. –
Ég hef starfað sem ráðgjafi í mörg ár, – og rætt við mikið af fólki sem kannast ekki við að hafa orðið fyrir áföllum í bernsku, og átt „bara góða“ bernsku, en áföllin eru lúmsk og koma hægt og sígandi inn. Það eru áföll sem virka eins og dropinn sem holar steininn.
Börn sem taka „skapofsaköst“ eru bara að tjá sig á þá leið sem þau kunna, en þau kunna kannski ekki að segja á annan hátt hvað þeim líður illa. Þau eru að fá útrás, og allir verða að fá útrás. Það er því ekkert endilega betra að barn sé alltaf „stillt og hljótt“ – því það getur verið að bæla eitthvað sem er að gerjast um innra með því.
Sumir fullorðnir kunna ekki við að segja frá uppákomum eða hlutum í bernsku sem þeim fannst vondir eða bælandi, vegna þess að þeir upplifa að þeir séu að ásaka foreldra eða aðra uppeldisaðila, en í því felst ekki ásökun. Foreldrarnir voru líka særð börn særðra barna – og ef enginn rýfur keðjuna og sér sárin, þá er ekki hægt að lækna þau.
„You have to see your pain to change“ ..
Það er því ekki ásökun sem felst í því að skoða fortíð og viðurkenna hana, heldur bara raunveruleikatékk. Það segir ekkert um ást okkar til foreldra – að viðurkenna að þau voru ófullkomin, enda svosem ekki hægt að ætlast til þess að einhver sé fullkominn.
Það sem við getum gert, hvert og eitt, er eins og áður sagði, sett í forgang að leitast við að minnka álag og stress, neyta ekki áfengis eða annarra hegðunarbreytandi efna í óhófi í kringum börn. Fara vel með okkur og elska okkur – svo við séum fær um að elska börnin og þannig kenna þeim sjálfsvirðingu og sjálfsást. (Sem er ekki eigingirni eða sjálfhverfa).
Þegar við kunnum ekki að setja mörk – og eigum ekki sjálfsvirðingu kunnum við ekki að segja nei þegar við þurfum kannski að segja nei, og þá segir líkaminn oft nei fyrir okkur. Segjum „nei“ áður en við hrynjum, andlega eða líkamlega, – og ef við erum orðin veik þá tökum ákvörðun í dag um að elska okkur skilyrðislaust. Það þýðir að við þurfum ekki að vera „dugleg“ eða þóknast eða geðjast umhverfi okkar. Við þurfum að bera ábyrgð á eigin hamingju, og vera okkar eigin foreldrar og gefa okkur annað tækifæri á góðri bernsku!
Smá í lokin: Ef þú ert foreldri að lesa þetta, þá tek ég það sérstaklega fram að þessi grein er ekki til að valda samviskubiti eða skömm, og alls ekki dómur. Í dómum felst ekki skilyrðislaus sjálfsást – eða umhyggja. Skömmin er undirrót flestra fíkna og þegar við vökunum upp við vondan draum, þá á ekki að dvelja í martröðinni heldur fagna því að vera vöknuð og við höfum tækifæri til að hlúa að okkur og verða sáttari og hamingjusamari manneskjur. Tími breytinga og ákvarðana um betra líf er alltaf NÚNA.