Það er afskaplega falleg hugsun – sem ég persónulega nota oft – að hugsa „allt er í lagi“ .. eða eins og Louise L. Hay segir „all is well“ …
Þessa hugsun þarf þó að nota rétt, – hún er til þess að róa hugann og komast í æðruleysi, en hún er ekki til þess að draga yfir ástand sem er í kringum okkur. –
Segjum að skip stefni hratt í átt að ísjaka, og stýrumaðurinn komi hlaupandi að skipstjóranum og bendi honum á þá staðreynd, – en skipstjórinn er svo ákveðinn að allt sé í lagi að hann bara stýri á ísjakann, þyljandi fyrir sér „all is well“ …
Það er nefnilega hægt að misnota frasana svo illilega.
Lífið er líf mótsagna og þversagna.
Hér eru t.d. tvær setningar sem ég hef tileinkað mér og notað:
„Þú verður að viðurkenna vandann til að eitthvað breytist“ (You have to see your pain to change).
og
„Það sem þú veitir athygli vex“ …
Þessar setningar eru í mótsögn hvor við aðra, en þær eru samt báðar sannar.
Stundum neyðumst við til að veita vanda sem að höndum ber athygli, en það er ekki til að dvelja í honum heldur til að breyta því ástandi sem veldur vanda eða ástandi. Ef við neitum vandanum – lifum í afneitun eða blekkingu þá leysist ekki vandinn heldur hann fær að grassera í friði.
Hvað ef skipstjóri Titanic hefði veitt vandamálinu athygli? – Vandamálið var þá ísjakinn sem skipið stefndi á. Þá hefði hann getað stýrt skipinu frá ísjakanum.
Þegar við sjáum fæðingarblett á húð sem er grunsamlegur, – og látum ekki tékka á honum og segjum bara að allt sé í lagi, – þá getur hann vaxið í það að verða að sortuæxli.
Í öllu verðum við að vera skynsöm, og það er mjög mikilvægt að horfast í augu við staðreyndir og flýja þær ekki með frösum um að veita ekki athygli því sem er að.
Við getum verið óendanlega jákvæð – en broskall yfir bensínmæli sem sýnir tóman tank dugar ekki til að koma bílnum af stað.
Ég hef séð margar skilgreiningar á meðvirkni, – en það var í íslenskri bíómynd þar sem ein sögupersóna bar upp spurninguna: „Hvað er meðvirkni?“ – og sá sem svaraði sagði: „Að láta eins og allt sé í lagi þegar það er það ekki“ ..
Það er klassískt fyrir börn sem hafa alist upp við alkóhólískar aðstæður að hugsa svona, – því það var þeirra leið til að komast af. Þau höfðu ekki tækin eða máttinn til að breyta aðstæðum og urðu því að sætta sig við þær. Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. „Allt er gott“ .. Þessi hegðun getur fylgt uppkomnum börnum alkóhólista ef þau vinna ekki í sínum málum.
Við þurfum að vera skynsöm og greina á milli þess sem við getum breytt og því sem við getum ekki breytt.
Þegar við erum börn – getum við setið uppi með aðstæður sem við ráðum engan veginn við. Við getum ekki breytt og ekki farið. Við erum föst í aðstæðum.
Þegar við verðum fullorðnar manneskjur, höfum við svo miklu, miklu meiri möguleika á að breyta. Við getum jú valið að sætta okkur við eitthvað ástand sem við þó vitum að ekki er í lagi, – en ef við getum breytt eða höfum hugrekki til þess, þá kemur okkur til með að líða betur því við förum eftir eigin gildum og því sem hjartað segir okkur. Og svo er annað sem við höfum fram yfir stöðu okkar sem barns, við getum stigið út úr aðstæðum.
Þegar við erum börn, – þá er oft engin/n sem leiðir okkur út úr aðstæðum, en sá eða sú sem leiðir þetta barn út úr fullorðinsaðstæðum okkar – erum við sjálf.
Við getum meira að segja haft það táknrænt, – séð okkur sjálf fyrir okkur sem börn í óæskilegum aðstæðum eða stundum hörmulegum ef við höfum upplifað þær, og við segjum við okkur sjálf: „Elskan mín, nú ætla ég að leiða þig út í frelsið – þú þarft ekki að vera þarna lengur“ … Það getum við „vonandi“ í dag, ef einhver á að bjarga okkur úr aðstæðum eða ástandi sem er okkur óhollt og óeðlileg þá erum það við sjálf.
Við höfum fjóra valkosti:
- Að tauta og röfla yfir aðstæðum okkar (það skorar aldrei feitt og eykur vanlíðan) – nema þá að kvarta við einhvern sem getur og vill aðstoða okkur við að breyta aðstæðum.
- Að sætta okkur við aðstæður (það er það sem barnið þarf að gera, það er ekkert annað í boði, og stundum þurfum við að gera það – í aðstæðum þar sem við höfum ekki val).
- Að breyta aðstæðum, að leggja okkar af mörkum til að breyta viðvarandi ástandi – bæði vera breytingin og fá aðstoð annarra.
- Að yfirgefa aðstæður, – ef það er nokkur kostur að stíga út fyrir ástand sem er að meiða okkur og við höfum lýsti yfir vanmætti að breyta.
Hér er í raun um æðruleysisbænina að ræða.
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Kjark til að breyta því sem ég fæ breytt
og vit til að greina þar á milli
AMEN
Munum að það eru tvær „yfirtilfinningar“ – þær heita KÆRLEIKUR OG ÓTTI
Ef við látum óttann stjórna för, óttann við óvissu – vegna þess að við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum, þá er mjög líklegt að við séum föst. Enda er orðið „kjarkur“ notað í æðruleysisbæninni því það þarf kjark til að breyta og kjark til að sigrast á ótta. Við getum alveg verið hrædd, en megum ekki láta óttann sigra.
Ef kærleikurinn er með í för, þá munum að við gerum það sem við gerum í anda kærleikans, – við elskum okkur og náungann það mikið að við erum tilbúin að mæta óttanum (óvininum) – með kærleika – til að breyta því sem við getum mögulega breytt.
Hvað fáum við svo út úr því að fylgja hjartanu? Jú við erum sönn okkur sjálfum og við höfum frelsað barnið – sem var fast í aðstæðum úr þeim aðstæðum sem því leið ekki vel í.
Það er alltaf einhver sem elskar þig … og það er best ef það ert líka þú ….