Það er auðvelt að elska þau sem eru elsku verð. Það er auðvelt að elska ungabarnið og það sem er viðkvæmt.
Einu sinni vorum við öll ungabörn. Líka fólkið sem nauðgar og fremur hryðjuverk. Einhvern tímann voru þessir einstaklingar börn – sem voru elsku verð.
Hvenær hætta þau að vera þess virði að elska – og hvenær voru þau á einhvers konar núlpunkti þar sem hvorki var hægt að elska þau né hata? Ætli foreldrar hryðjuverkamanna elski börnin sín?
Hvað með þau sem óttast þau sem fremja hryðjuverk? Fólkð sem er kallað „hatarar“ vegna þess að þau alhæfa um fólk sem aðhyllist ákveðin trúarbrögð eða af ákveðnum kynstofni? Er hægt að elska Donald Trump eða forsvarsmenn Útvarps Sögu? –
Eru þau „idjótar“ – eða eru þau bara hrædd? – Þurfa þau þá ekki meiri kærleika frá okkur sem erum ekki hrædd og getum gefið kærleika? ..
Það er ósköp eðlilegt að fjúki í fólk – þegar að fólk opinberar ótta sinn – eða meint hatur í garð annars fólks, en það er líka spurning um að reyna að skilja af hvaða sjónarhóli einstaklingarnir sem tjá sig tala. Það er af sjónarhóli óttans. Einhver þarf að rjúfa óttakeðjuna. Hún er einungis rofin með kærleika og í kærleikanum er skilningur.
Hatur er ótti við það sem við skiljum ekki.
Hatur og biturð getur aldrei læknað vanlíðan sem stafar af ótta; elskan getur einungis gert það. Hatur lamar lífið; kærleikur eykur samhljóminn. Lífið myrkvast af hatri; elskan lýsir upp lífið. – (þýðing á neðangreindu eftir MLK).
Hvernig við bregðumst við – það sem við sendum frá okkur skilgreinir okkur en ekki fólkið sem tilfinningar okkar beinast að. – Hvað er hið innra með okkur? Er það ótti eða elska?
Við eigum öll ótta hið innra – við eigum öll hatur – en við eigum líka endalausa uppprettu kærleika. –
Í fyrsta bréfi Jóhannesar stendur:
„ Ótti er ekki í elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann; því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast, er ekki fullkominn í elskunni. Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði. Ef einhver segir: eg elska Guð, og hatar bróður sinn, sá er lygari; því að sá sem ekki elskar bróður sinn, sem hann hefir séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefir ekki séð.“ –
Móteitur við hatri og ofbeldi er ekki hatur og ofbeldi. Móteitrið er kærleikur.