Þröngir skór og támjóir – „control top“ sokkabuxur, – nú eða korselett eins og tiðkaðist hér áður og reyrðir fætur í Kína. – Allt er þetta dæmi um klæðnað sem þrengir að líkamanum. –
En það er svo áhugavert að bera saman þetta líkamlega og andlega. Alveg eins og við berum saman líkamlegt og andlegt ofbeldi.
Hvað væri þá það sem þrengdi að okkur, ef við færum að tala um huglæga hluti? – Við getum fengið alls konar blöðrur á fæturnar og sár ef við göngum í þröngum skóm. Hvað gerist ef að þrengir að okkur á huglægan máta?
Þegar við klæðumst þröngum fötum erum við að reyna að breyta okkur, – fela magann, minnka fætur eða hvað það nú er. Um leið og við losum „höftin“ kemur auðvitað líkaminn í ljós, nákvæmlega eins og hann er. Með bumbu og alles. Þetta erum við! ..
Þegar við erum að „íklæðast“ ósýnilegum fatnaði eða skóm sem þrengir að því hver við erum – svona huglægt – þá þýðir það að við erum að fela hver við erum og skoðanir okkar. Við förum í þessi föt því við viljum þóknast og geðjast öðrum og höldum jafnvel að svona eigum við að vera. Við hegðum okkur á ákveðinn hátt sem er jafnvel gagnstætt gildum okkar og siðgæði. Það gengur svo langt að það getur orðið eins og spennitreyja. –
Systur öskubusku tóku af sér tá annars vegar og hæl hins vegar til að passa í hinn fíngerða skó sem prinsessu hæfði. – En fórnarkostnaðurinn var ansi mikill.
Þessi pistill er til umhugsunar um hvort við erum að höggva af okkur tá eða hæl til að passa í eitthvað mót eða hlutverk sem vænst er af okkur, eða við teljum okkur þurfa að uppfylla. Það er sársaukafullt.
Svoleiðis er það í raun – þegar við skömmumst okkur fyrir að vera við sjálf eða höfum ekki hugrekki til að vera við sjálf, en förum í þóknunargírinn.
Það erum bara við sem ákveðum hverju og hvernig við klæðumst og hversu miklu við viljum fórna fyrir það að „líta vel út“ – í tvennum skilningi. Ef við upplifum að við séum í spennitreyju – þá þurfum við að biðja um hjálp til að losna við hana.
Hugsum þetta saman. ❤ ..