Ég veit að ég er ekki svo einstök eða sérstök að ég hugsi allt öðru vísi en annað fólk. Ég tala kannski meira upphátt um það en margur, og sumum þykir það jafnvel óþægilegt að ég skuli vera að tala um hluti sem eru hreinlega óþægilegir. –
Ég var alin upp við það að þrífa allt vel áður en ég færi í ferðalag, og sérstaklega til útlanda. Ég minnist þess að ég var ung móðir, og þurfti að koma grislingum í pössun og maðurinn minn þáverandi var staddur erlendis í vinnu og ég ætlaði til hans. – Flugið var ca. sjö um morgunininn og til að orðlengja þetta ekki meira, þá bara fór ég ekkert að sofa um nóttina því ég var að skúra þangað til ég fór af stað í flugvélina. –
Auðvitað var þetta gert – því að það er gott að koma heim í hreint hús, en undir niðri var svona hugsunin að maður vildi ekki láta neinn koma að óhreinu húsi ef svo bæri við að maður myndi sko bara deyja! – Þetta hljómar eins og argasti hégómi, en ég veit – eins og ég sagði í upphafi að ég er ekki sú eina sem hugsa svona.
Nú er ég að fara í frí – enn og aftur, og þá er gengið vel frá húsinu, en ég viðurkenni að ég mun ekki skúra út í öll horn í þetta skiptið.
Það er eitthvað við flugferðir, – að þó ég sé ekki flughrædd – þá fer ég alltaf að íhuga eilífðina og hugsa „hvað ef?“ … ég verð bara að viðurkenna að ég hugsa það oftar í flugvél en bíl, þó mér sé sagt að bíllinn sé öruggari. –
Svo er annað sem ég hugsa um áður en ég fer í ferðalög – það er að kveðja í friði og sátt – sérstaklega mín nánustu. En í raun er það ekkert spurning um að vera í friði og sátt bara fyrir ferðalög, því enginn veit sinn vitjunartíma – og fólk er bráðkvatt. Það er því góður siður að lifa í sátt og samlyndi, – svona ef maður skyldi fara snögglega.
Það er samt eitt sem allir mega vita. Margir halda að það sé of seint að sættast við einhvern sem er dáinn – nú eða bara rabba við viðkomandi. Það er aldrei of seint. Við sem erum í líkamlega forminu erum með rödd sem heyrist, og þau sem eru ekki í líkamlega forminu heyra þessa rödd. Svo – ef við eigum eitthvað ósagt við þau sem eru farin þá er bara að setjast niður í góðu tómi og tala út. – Segja viðkomandi allt það sem við vildum sagt hafa. – Það heyrist. Ég bara veit það!
Ég heyri reyndar stundum líka í henni dóttur minni – og núna fór hún að hljæja og sagði „haha mamma góð!“ .. og svo sé ég brosið hennar. Þessi rödd lifir með mér og brosið hennar lifir með mér. –
Það er á markmiðalistanum mínum að minnka við mig dót – og losa mig við alla þessa bókakassa!! … En í fyrrasumar fékk ég svo svakalegt gallsteinakast sem ég (og nágrannar mínir líka) héldu að væri hjartaáfall og þá fór ég að hugsa um andsk… bókakassana, af hverju ég væri ekki búin að koma þeim til einhverra sem vildu þiggja, nú eða í Góða Hirðinn? Ég er ekki búin að því enn.
En svona „just in case“ – þá ef ég dey, þá er ég sátt við Guð og menn. Finnst ég hafa gert alveg þúsund góða hluti – eða meira. En samt er þetta líf ekki til þess gert að „gera“ heldur bara að vera. Ég ætla að æfa mig í seinni hlutanum að vera algjörlega ÉG og ég er þannig að ég hef gaman af því að segja frá og ræða hlutina opinskátt. Það er mér svooo mikilvægt að vera ég, að ef mér er settur stóllinn fyrir dyrnar – þá veikist ég. Ég legg mig við að vera ég, og ég treysti því að þú gerir hið sama? ..
Við erum öll eins og við erum, hvernig eigum við að vera eitthvað annað?
Ást og Friður til allra sem vilja þiggja, – og ég verð örugglega allra kerlinga elst ❤
Þú ert nú alveg dásamleg Jóhanna. Góða ferð í fríið og hafðu það nú reglulega gott.