„Ego-Village“ …

„Í einræðisríki eru öll völd ríkisins í höndum eins manns eða lítils hóp manna, sem hafa fullt vald án þess að samfélagið sporni við.“  (Vísindavefurinn).

„The opposite of a democracy is an autocracy. A democracy is a government chosen by its citizens. An individual without the input of the country’s citizens governs an autocracy. Autocratic rulers make economic, social and political decisions without consent from the citizens“ ..

Andstæða lýðræðis er einræði.  Í lýðræðissamfélagi kjósa borgararnir (ríkis) stjórnina.  Í einræðisríki eru fjárhags, félags- og pólitískar ákvarðanir teknar án samþykkis borgaranna. –

Ég bý í ca.  100 manna þorpi, – sem er samsett af alls konar fólki, og þar af 42 einstaklingum með fötlun.

Stjórnarhættir í þessu þorpi eru þeir – að þar er fulltrúaráð, stjórn og svo framkvæmdastjóri.    Enginn íbúi  (utan framkvæmdastjórans)  er í stjórn eða fulltrúaráði,  né hefur kosningarétt. 

Ég leyfði mér að fara á fund hluta stjórnarmanna og kvarta undan meintu einræði feðganna (stjórnarformanns og framkvæmdastjóra)  í þorpinu okkar  og stjórnarháttum.

Ég hafði sýnt það dómgreindarleysi að ræða það upphátt og opinskátt að ég væri að fara á þennan fund, en hann átti að vera „leyndó“ – en ég er ekki góð að vinna í leyni – þó ég kunni svo sannarlega að halda þau trúnaðarmál sem mér er treyst fyrir, enda er það annars eðlis.   Ég er talskona gagnsæis og að hafa allt uppi á borðum og langar ekki í leyndarmál og lygar og þrífst illa í því.

Ég var því snögglega kölluð „inn á teppið“ – eftir að upp komst að ég hafði kvartað. Framkvæmdastjórinn hvíslaði því að mér á föstudagseftirmiðdegi  að ég væri boðuð á fund daginn eftir kl. 14:00 – með stjórnarformanni ásamt honum,  en vegna „fjölskyldutengsla“ sæti varaformaður stjórnar með.   Það tók mig smástund að „melta“ þetta fundarboð,  en ég fékk slæma tilfinningu og óskaði eftir því skriflega að ég fengi a.m.k. eina stjórnarkonu með mér á fundinn.  Var hreinlega hrædd við  vald karlanna.   Ég fékk það svar að ég væri boðuð á fundinn og ekki aðrir.   Ég sé eiginlega enn eftir að hafa mætt á þennan fund,  enda voru lokaskilaboð frá formanni að sonur hans réði í þorpinu og hann gæti meira að segja rekið mig!  Það átti væntanlega að vera húmor,  en mér fannst það ekki fyndið, enda svaraði ég því til baka að ég gæti líka sagt upp störfum.

(Ég var ekki rekin og sagði ekki upp, en  mér var réttur tímabundinn ráðningarsamningur til 30. júní með endurskoðunarmöguleikum í síðasta lagi 15. júní – ég var komin á reynslutíma? .. en það var varla það sem haft var í huga þegar að arkað var til biskups til að biðja um vígslu mína).

Á fundinum sagði ég m.a.  við stjórnarformann,  – sem hefur verið við „völd“ í tugi ára,  um að það vantaði lýðræði í þorpið okkar. –  Var ég þá beðin um dæmi um skort á lýðræði á svæðinu, og nefndi þá til sögunnar að ef að kosið væri um dýrahald á svæðinu,  þá myndi það örugglega verða ofan á, en þá voru fyrstu rök frá formanninum:  „En þetta er Eco-village“ ..
Ég benti þá viðstöddum, sem voru áðurnefndur stjórnarformaður, sonur hans framkvæmdastjórinn og svo varaformaður stjórnar á,  að þorpið væri stofnað af konu sem hefði haft dálæti á dýrum,  og það væri varla sú mynd sem til væri af henni sem hún væri ekki með hund eða kött – eða bæði fyrir framan sig.  Það lægi því í rótum hugmyndafræði Sólheima að leyfa dýrahald og kannski trompaði það þá staðreynd að við byggjum í Eco-village.

sesselja

Eftir á frétti ég af ungri konu  (einhvers konar míní-Sesselju)  – íbúa á Sólheimum sem hafði lagt leið sína á skrifstofu framkvæmdastjóra til að óska eftir að fá að halda hund.  Tilgangurinn væri m.a. að leyfa íbúum þorpsins að njóta,  en það er löngu sannað að hundar hafa þerapískt gildi fyrir t.d. einhverfa.   Það er ekki verið að tala um dýrahald án skilyrða og reglugerða.  Bara svona eins og gengur og gerist í manneskjulegu og dýravinsamlegu samfélagi.

Unga konan fékk neitun.

Hver ræður í þessu þorpi?  Er lýðræði – er einræði?

Nei – þetta er „Eco – village“ .. svaraði formaðurinn.

Starfsfólk þorpsins  – bæði þeir sem þar búa fast og þeir sem búa bara aðra hvora viku voru kallaðir á fínan starfsdag   og fólk beðið um að segja álit sitt á hugmyndum sem búið var að leggja fram af framkvæmdastjóra, – ekki beint grasrótarvinna – því þetta var álit á fyrirframgefnum hugmyndum um þorpið þegar það yrði 100 ára. –   En virðingarvert að þorpsbúar fengju að taka þátt í þessu.   Síðan bættist við í janúar að fólkið með fötlun sagði sitt álit.  Við þessi álit bættust við ýmsar athugasemdir um gildi,  og óskir um breytingar í þorpinu okkar.

Stígamót höfðu komið með góða kynningu á Sólheima og kynnt þar slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ – sem vakti marga til umhugsunar. – 

Niðurstöðum var safnað saman af hópstjórum.   Fengu þorpsbúar rödd? –   Væri nú tekið tillit til þess að þeir óskuðu eftir meiri jöfnuði og lýðræði – og líka að fá leyfi til dýrahalds, svo haldið sé áfram með það? –
Niðurstöðurnar láu í saltpækli í drykklangan tíma,  en svo kom vorið og þá var blásið til fundar með starfsfólki  (ekki er enn búið að kynna niðurstöður fyrir fólkinu með fötlun þegar þetta er skrifað). –  Búið var að útbúa hefti – með einhvers konur niðurstöðum og kynningu.

Mín spurði hver hefði tekið þessar niðurstöður saman,  því ég saknaði svo margs sem kom fram á fundinum,  eins og t.d. að framtíðarsýn fæli í sér að gera samfélagið meira lýðræðislegt og unnið yrði í þeirri ósk sem kom fram að leyfa gæludýr. –  Það hafði komið fram í öllum hópunum,  en ekkert um það í plagginu. – Og svo var heldur ekkert um hugmyndina sem hafði komið fram að í fulltrúaráði/stjórn sætu íbúar – og þar a.m.k. einn íbúi með fötlun (með slagorðið í huga;  „Ekkert um okkar án okkar“).    Jú,  þetta var samantekt framkvæmdastjóra.  Handvalið af honum einum  inn í glansútgáfu sem vantaði í kjarnann.  Auðvitað var margt gott í útgáfunni,  en enn og aftur vantaði lýðræðið.

Ég hef ekki töluna á þeim árum sem stjórnarformaður hefur verið við völd í þorpinu, – en það eru tugir ára og hann er búinn að gera marga góða hluti fyrir þorpið,  það er óþarfi að sleppa að minnast á það,  en svo ég vitni í Guðna forsetaframbjóðanda þá sagði hann  „það er þroskamerki í lýðræðissamfélagi að enginn sé ómissandi“ ..  – og hvaða óþroski er það þá í þorpinu okkar að sami stjórnarformaður sitji og sitji og sitji?-    Eða erum við ekki í lýðræðissamfélagi?

Það er mikil óánægja hjá þorpsbúum  (óánægja er reyndar vægt til orða tekið).  Það er líka ótti hjá þorpsbúum – að ef þeir mótmæli yfirvaldinu eða gagnrýni stjórnarhætti verði þeir látnir fara.  Þess vegna fara margir sjálfviljugir – taka ekki þátt í þessu lengur.  Það veltast margir inn í þorpið og út aftur  (það kallast víst starfsmannavelta).    Þeir eru líka sakaðir um neikvæðni  ef þeir eru raunsæir – og fólk missir sjálfstraust – þegar valdeflinguna skortir.

Ég var sjálf búin að senda afsökunarbréf fyrir tilveru minni í þorpinu,  ég náði ekki utan um verkefnin mín og var komin með síþreytu  (að ég hélt) en uppgötvaði þegar ég fór í sumarleyfi að ég var bara „menguð“ af leiðindum og vanlíðan yfir því að lifa í ólýðræðislegu samfélagi.   –  Auðvitað eru þorpsbúar sumir hverjir með slatta af neikvæðni (eða kannski raunsæi?)  og eftir höfðinu dansa limirnir og þeir hreinlega þrá að lýðræði sé ástundað – gagnsæi og samvinna,  en ekki þessa stjórnun að  ofan og allt um kring.   Þeir hætta ekki að „röfla“  fyrr en eitthvað breytist.  Það þarf að breyta. 

Stjórnunin er að ofan og utan.  Og allt skal líta vel út og það hefur að miklu leyti tekist að láta „heiminn“ halda að þorpið sé einhvers konar paradís á jörðu, og þar gangi allir um í syngjandi hamingjuhalarófu.   En það er eins og á heimili alkóhólistans – það getur allt litið svo fjarska vel út,  allt pússað og fínt og þar hefur hin meðvirka húsmóðir lagt dag og nótt við að passa upp á að „allt sé í lagi“ – og enginn „fatti“ að kallinn hafi verið á fylleríi.  Á meðan allt lítur vel út – á yfirborðinu –  þá getur varla verið neitt að? –

Hvað skyldi Sesselja segja – ef hún hefði rödd? –

Ég held að ég hafi heyrt rangt þegar að stjórnarformaður svaraði mér: „En þetta er Eco-village“ og hann hafi sagt „En þetta er Ego-village“ ..

10514318_514084398722500_4405879700412194730_o

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s