Kátir voru karlar … og enginn þeirra dó! ..

Prédikun í Sólheimakirkju á sjómannadaginn   2016

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef prédikun mína í dag á bæninni um æðruleysið. –  En áður en ég held lengra – ætla ég að útskýra æðruleysið örlítið betur og einnig æðruleysisbænina, – en ég fór fyrst að tileinka mér hana af alvöru þegar ég var að starfa sem aðstoðarskólastóri í framhaldsskóla.

Heyrum aftur guðspjall dagsins:

„Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“

Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

 

Haldið þið að vindar og vatn hafi í alvöru stöðvað,  eða getur verið að það hafi bara komið ákveðin ró og friður hið innra með lærisveinunum þannig að stormurinn hætti að hafa svona mikil áhrif? –  Kannski að Jesús hafi verið að kenna þeim að vera æðrulausir?

Æðruleysi er ekki frelsi frá storminum heldur friður í miðjum stormi.

Flestir þekkja enska orðið „Serenity“ – sem á íslensku er þýtt æðruleysi.

Orðið Serenity er ættað frá latneska orðinu serenus,  sem þýðir skýr eða heiður (himinn).  Ef skoðað er lengra þýðir það logn eða „án storms“.. Við erum í ró eða logni – þrátt fyrir að stormur geysi allt í kringum okkur.

Æðruleysishugtakið er mikið notað nú til dags, m.a. vegna margra 12 spora prógramma þar sem segja má að æðruleysisbænin sé helsta stuðningstækið.

Nærtækasta gríska orðið hvað „serenity“ varðar eða æðruleysi er γαλήνη (galene)  og er orðið sem Jesús notar einmitt þegar hann stendur í bátnum og hastar á vindinn og það lægir.  (Matt 8:26).

Það má túlka þannig að æðruleysi sé gjöf frá æðra mætti.  Því að stormar lífsins geta verið yfirþyrmandi og tekið af okkur öll völd.  Þess vegna þurfum við á æðruleysi að halda.

Við getum aðeins fundið æðruleysi fyrir okkur sjálf en ekki aðra,  á sama máta og við getum aðeins breytt okkur sjálfum en ekki öðrum.  Ef aðrir breytast vegna okkar gjörða er það vegna þess að þeir ákveða það eða velja.  Nú eða taka okkur sem fyrirmyndir.

„Ef þú vilt innri frið, leitastu við að breyta sjálfum/sjálfri þér, ekki öðru fólki.  Það er auðveldara að vernda iljar þínar með inniskóm, en að teppaleggja allan heiminn.“   (höf. óþekktur)

 

Breytingin á heiminum byrjar hjá okkur sjálfum.

 

Það felst æðruleysi í því að halda sig á eigin braut og vinna að eigin málefnum. Einbeita sér að sjálfum/sjálfri sér frekar en að vera upptekin í höfði eða lífi annarra.

 

Það er líka æðruleysi í því að gera sér grein fyrir að það er engin/n fullkomin/n og að sætta sig við ófullkomleika sinn og ekki gera of miklar kröfur til sín né annarra.

 

Gremja – sem sumir kalla „fórnarlambsreiði“ –  rænir okkur æðruleysi okkar.  Óraunhæfar væntingar til okkar sjálfra og annarra valda oft gremju.

 

Eitt af stóru leyndarmálum æðruleysisins er að kynnast manninum/ konunni sem Guð/lífið skapaði ÞIG til að vera.

 

Einfaldlega að verða það sem ÞÉR er ætlað að vera, ÞÚ sjálf/ur,  er dýrmæt uppspretta æðruleysis.

 

Æðruleysi er að gera ekki úlfalda úr mýflugu, hafa hugarró,  jafnaðargeð – vera róleg/ur í storminum. 

 

Og síðan en ekki síst er það að: Treysta.

Þetta var svolítið um æðruleysið og væntanlega erum við öll einhvers fróðari um það í dag.  Þennan fallega sjómannadag,  en dagurinn er eins og við vitum tileinkaður sjómönnum þessa lands.  Það er vakin athygli á sjómannsstarfi,  hetjudáðum sem unnar hafa verið á sjó og einnig er minnst þeirra sem hafa látist á sjó.  Á eftir syngjum við um Káta Karla á Kútter Haraldi, – og glaðar konurnar þeirra sem fögnuðu því að enginn þeirra dó,  en það hefur þótt ástæða til, í þessum annars fagnaðar-og gleðisöng að taka það sérstaklega fram að enginn hafi dáið,  því það var ekki og er ekki alltaf sjálfsagt að allir komi aftur og enginn deyi.  

 Æðruleysi er eitt af því sem sjómenn hafa þurft að tileinka sér,  það að vera ekki hræddir  í hvassviðri og stormi. 

 Og það voru og eru fleiri sem þurfa að tileinka sér æðruleysi, og það eru makar sjómanna,  fjölskylda og vinir.   „Hver einasta kerling hló“ ..   segir í textanum, –   og auðvitað verður hláturinn hærri og meiri þegar okkur finnst við hafa fengið heim þau sem hafa verið í háska.

Það má því ekki gleyma maka sjómannsins,  sem er í flestum tilefllum kona,  þó konur séu nu í auknum mæli farnar að sækja sjóinn.   Það að sitja og bíða – og treysta –  krefst æðruleysis, og það er þá ekki hinn áþreifanlegi eða sýnilegi stormur sem verið er að glíma við – heldur hinn andlegi –  sem við erum í raun öll að eiga við dags daglega.

„Kátir voru karlar …. og enginn þeirra dó, og hver einasta kerling hló“ – Konurnar hlóu því þær voru glaðar og þakklátar.  Svona er lífið, við verðum e.t.v. enn þakklátari og glaðari  þegar við þekkjum djúpar lægðir og storma lífsins, og höfum komist í gegnum þá.  E.t.v. endurheimt einhvern okkar náinn – eftir erfið veikindi.

Við munum syngja – hér á eftir um kátu karlana frá Akranesi og e.t.v. hugsum við aðeins öðruvísi um textann í þetta skiptið en við höfum gert hingað til  – og fáum harmonikkuleik undir. –

Hvað gerum við? –  Jú, Við fögnum lífinu, og þökkum það sem við höfum – og lítum ekki á það,  bara alls ekki,  sem sjálfsagðan hlut.

Þakkir, þakkir og aftur þakkir fyrir lífið!

Að setjast niður – eiga saman stund í tali og tónum – er eins og lognpollur í miðjum stormi.  Við fáum frí frá veraldlegu vafstri – og slökkvum á farsímunum 🙂 ..
Það er gott að eiga gefa sér stund, hvort sem það er í kyrrð heima fyrir með sjálfum sér, eða í kirkju.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s