Ræða mín á kirkjudegi Sólheima 3. júlí 2016
Biðjum: Vertu Guð faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni – hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Ég man eftir atviki þegar ég var táningur, að við mamma vorum að ganga inn í Hallgrímskirkju. Þá leit mamma á fótaburð minn og á að ég var berfætt í sandölum. Mamma tók andköf og sagði: „Ætlar þú svona inn í kirkjuna“ .. en ég var fljót að svara og spurði móður mína á móti: „var ekki Jesús berfættur í sandölum, hann hlýtur að fyrirgefa mér“ .. og við hlógum báðar.
—
Í dag – sunnudaginn 3. Júlí 2016, fögnum við því að 11 ár eru liðin síðan kirkjan okkar Sólheimakirkja var vígð. – Fyrsta skóflustunga að Sólheimakirkju var tekin 30. júní árið 2000 af frú Magneu Þorkelsdóttur og dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi, – en síðan var það sonur þeirra hr. Karl Sigurbjörnsson sem vígði kirkjuna 3. Júlí árið 2005.
Kirkjan er því ung – enn á „barnsaldri“ ef svo er hægt að segja um kirkju J
En hvað er kirkja?
KIRKJA sem hús, samkomustaður sem er vígt til helgihalds og fólk kemur annað hvort eitt eða saman til að eiga samfélag með Guði og með hvert öðru. Þar eru vissulega haldnar afhelgaðar (secular) athafnir einnig, eins og tónleikar o.fl.
KIRKJA sem stofnun, yfirstjórn kirkjunnar, biskup og þeir sem hafa völd innan stofnunarinnar.
KIRKJA sem samfélag, samfélag við Guð og samfélag fólks við fólk, leikmanna sem lærðra, með sömu eða svipuð lífsgildi og áherslur á trúarsviðinu, í tilfelli íslensku þjóðkirkjunnar er það kristni.
Kirkjan er þetta allt og líka þetta eitt.
Þetta er kannski ekkert ósvipað og með Sólheima. Þegar við spyrjum, hvað eru Sólheimar?
Sólheimar er safn húsa – heimila og fyrirtækja sem þjóna bæði íbúum og gestum.
Sólheimar er sjálfseignastofnun, með fulltrúaráð og stjórn, framkvæmdastjóra og alls konar starfsfólk – í mismunandi störfum, stórum sem smáum, en öll skipta þau máli.
Sólheimar er síðast og ekki síst samfélag fólks.
Alveg eins og kjarninn í kirkjunni er fólkið – þá er kjarninn í Sólheimum líka fólkið. –
Kirkjan á Sólheimum er mikilvægt hús, – því þetta hús heldur vel utan um fólkið. Það er í kirkjunni sem við komum saman á stundum gleði og við komum einnig saman á sorgarstundum.
Sólheimakirkja er hús fyrir helgihald – bæði formlegt og óformlegt, – hér kemur fólk stundum og hugsar og finnur stað til að vera í ró og næði. Kirkjan er frábært tónleikahús og heldur utan um menningarviðburði. Kirkjan er staður þar sem slökkt er á símum og tölvum, og fólk tekur sér andrými – pásu – frá erlinum hið ytra.
Það er þakkarvert að hafa kirkju – sem einn af okkar elstu íbúum, eina og hann Árni, getur ekið inn í á tryllitækinu sínu heiman að frá sér og alla leið inn. Það þarf ekki um langan veg að fara, eða panta bíl, alla veganna ekki meðan færð er góð. Það eru ákveðin mannréttindi að fá að iðka trú sína í helgidómi, koma saman til að biðja, syngja – tala og hlusta.
Markmiðið er að taka á móti fagnaðarerindinu að nýr dagur mun rísa, eins og Kristur reis.
Í vikunni sem leið misstum við kæra vinkonu, hana Þórnýju Jónsdóttur, Vinkonu okkar með stóru Vaffi og þá gátum við íbúar og starfsfólk safnast saman í einlægri samverustund, og hvert og eitt okkar kveikt á ljósi – til minningar um hana. Þá fundum við samstöðuna, vináttuna og einlægleikann, í þessu friðarins húsi. Allt annað er lagt til hliðar, og öll urðum við sem eitt.
Kirkjan tekur á móti okkur þar sem við erum stödd, – í gleði og í sorg, alveg eins og lífið er.
Í Guðspjalli dagsins, er Jesús að ræða við Pétur, lærisvein sinn, þar segir hann m.a. : og Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast“
Það er skemmtileg tilviljun og tilviljun ekki, að einn aðalbaráttumaðurinn fyrir því að kirkja var byggð á Sólheimum heitir einmitt Pétur. – En það er stjórnarformaður Sólheima, Pétur Sveinbjarnarson og það er viðeigandi að þakka þér Pétur fyrir seigluna að koma kirkjunni á kortið hér á Sólheimum, og vera sá klettur sem hún hefur að byggja á.
Nafnið Pétur – er á grísku Petros, og þýðir Klettur.
Við höfum stundum sungið hér um heimska manninn sem byggði á sandi – og svo þann hyggna sem byggði á kletti. Hvað gerðist fyrir húsið sem byggt var á sandi? – Það féll, þegar fór að rigna. En hvað gerðist þegar hellirigndi á húsið sem byggt var á kletti? Það stóð fast.
Það er því undirstaðan sem skiptir máli, – grunnurinn skiptir í raun öllu máli fyrir húsið. Kirkjan okkar á Sólheimum er byggð á kletti – og kirkjan er eins og ég útskýrði hér í upphafi ekki bara hús, hún er fólkið hún er samfélag. Þið eruð kirkjan – við öll erum kirkjan.
Þökkum það að eiga kirkju – þar sem aðgengi er gott – og hægt er að eiga samverustundir, í gleði og sorg. Því það er svo mikið gott að vera saman.
Í Biblíunni kemur það fram að það er bæði Jesús og Pétur sem eru klettarnir í kirkjunni. Svo erum það við, fólkið sem erum hinir lifandi steinar kirkjunnar – sem byggja hana.
Ég hóf þessa ræðu mína á því að segja frá atburði sem gerðist á mínum unglingsárum, þegar ég fór berfætt í sandölum í kirkjuna. – Þessi saga kom í huga mér þegar ég fór að hugsa um kirkjuna og kirkjudaginn og þegar ég fór að skilgreina kirkjuna. Við erum blessunarlega laus við mikinn íburð í Sólheimakirkju, – og það má alveg lýsa henni sem jarðbundinni. Það er mikilvægt – alltaf – að muna eftir grunni kristinnar kirkju, en það er að sjálfsögðu Jesús Kristur sjálfur – berfættur í sandölum!
J
Fögnum og verum glöð á þessum fagra degi – kirkjudegi – þar sem sólin hefur ákveðið að vera svo rausnarleg að skína á okkur öll, jafnt réttláta sem rangláta.