Þórný Jónsdóttir – f. 1954 d. 2016

Þórný Jónsdóttir fæddist á Reyni í Mýrdal 7. september 1954. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi þriðjudaginn 28. júní 2016.

Foreldrar hennar eru Jón Sveinsson fæddur 2. apríl 1927 og Erla Pálsdóttir fædd 9. september 1929.

Þórný

Mig langar að skrifa nokkur orð um hana Þórnýju, vinkonu mína,  sem ég kynntist þegar ég hóf störf á Sólheimum.

Þórný var fljót að bjóða „dús“ .. það er að segja hún tilkynnti mér (eins og hún gerði við flesta)  að ég væri vinkona hennar.   Ég fékk þann heiður að fylgja henni nokkrum sinnum til læknis,  eða keyra hana í bæinn til „Möggu systur“ – en á Sólheimum er Margrét systir hennar ekki kölluð annað en „Magga systir“ en Magga var einstaklega natin við systur sína og sjaldan hef ég orðið vitni að öðrum eins systrakærleika 🙂 ..

Þórný kemur úr stórum systkinahópi og var augljóslega mikill kærleikur í hennar garð og væntumþykja.  Hún talaði líka oft um foreldra sína,  „pabbi biður að heilsa“ voru orð sem hún átti til að segja, t.d. þegar við vorum að keyra.  (Fyrst hélt ég að hún væri skyggn, og væri að miðla, en komst svo að því að það var ekki raunin :-)) ..

Þórný elskaði falleg föt, hárskraut og töskur og var alltaf vel til höfð og Magga fór stundum með Þórný í verslunarleiðangra þar sem hún gat keypt sér eitthvað fallegt.

Eitt sinn vorum við Þórný í Krónunni á Selfossi, og ég hafði tekið eftir myndarlegum manni sem var þar að versla líka.  Þórný hafði líka góðan smekk á karlmönnum,  enda gekk hún beint að verki og tilkynnti honum að hann væri vinur hennar.   Hann brosti við og sagði það vera rétt.

Mér finnst það mælikvarði á þroska þegar að fólki með fötlun er mætt með elskulegu viðmóti og skilningi.  –  Það er því miður ekki alltaf raunin.

Þórný var einstaklega jákvæð og bar sig vel lengst framan af,  dáðist að læknunum á spítalanum og oft sagði hún „mér líður vel“ – þó það væri ekki endilega raunin.

Skemmtilegasta ferðin okkar Þórnýjar var þegar ég var að passa Simba, sem er hundur dóttur minnar, og býsna fyrirferðamikill, svo ekki sé meira sagt.  Ég spurði Þórnýju hvort það væri í lagi að hann kæmi með okkur í bílnum –  og hún varð mjög hrifin – en kallaði hann „greyið“…    svo fórum við í „road-trip“  yfir Hellisheiðina.

11894523_10206517318865490_5925657042977999009_o

Þetta voru orðin sem ég set á blað til minningar um sterka baráttukonu, sem þrátt fyrir erfið veikindi – kvartaði helst ekki,  var jákvæð og uppbyggileg og einstaklega góð fyrirmind,  sönn VINKONA  með stóru vaffi.

Blessuð sé minning góðrar konu – Þórnýjar Jónsdóttur og ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.  

Þórný okkar er nú farin inn í Draumalandið – far vel elskulega vinkona,   það er þakkarvert að hafa kynnst þér!

Ó, leyf mér þig að leiða
til landsins fjalla heiða
með sælusumrin löng.
Þar angar blómabreiða
við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég,
þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mig tryggðaband,
því þar er allt sem ann ég. –
Það er mitt draumaland.

 Lag: Sigfús Einarsson

Ljóð: Jón Trausti

 

Með vinkonukveðju,  Jóhanna Magnúsdóttir

 

 

 

Ein hugrenning um “Þórný Jónsdóttir – f. 1954 d. 2016

  1. Mikið eru þetta falleg kveðjuorð, Jóhanna. Blessuð sé minning Þórnýjar. Valgerður Pálsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s