Prédikun var innblásin af guðspjalli dagsins – úr Markúsarguðspjalli 8. kafla versi 1 – 9.
„Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“
Þeir sögðu: „Sjö.“
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.“
Ég birti hér prédikun – án formála og niðurlags sem haft er við hönd í kirkjunni:
Blessun og þakkir, þakkir og blessun – þessi orð eru lykilorðin okkar í dag, – og það má segja að þau séu nokkurs konar töfraorð. Áður en ég hóf prestsþjónustu, gróf ég djúpt í orðið „þakklæti“ og hvaða áhrif það hefði á líf okkar að iðka þakklæti.
Í guðspjalli dagsins, þakkar Jesús fyrirfram fyrir brauðin og það sama gildir þegar við förum að þiggja altarissakramentið, – það er táknræn athöfn – örlítið brauð – eða obláta og örlítið smakk af víni. En þegar að við þiggjum með þakklæti – þá verður þetta nóg og athöfnin er svo sannarlega táknræn. Þið hafið eflaust mörg ykkar orðið vör við öll „viskukornin“ sem flæða yfir facebook. Margir pósta þessu í gríð og erg, – sum hitta okkur beint í hjartastað og við hugsum, aha – þetta kannast ég við, eða þetta vil ég tileinka mér. Eitt slíkt korn birtist mér um þakklætið.
Það hljómaði svona:
„Hvað ef þú vaknaðir aðeins með það á morgun sem þú þakkaðir fyrir í dag?“ – Hvað var mikilvægast og hvað hafði ég og e.t.v. þú tekið sem sjálfsögðum hlut?
Ég held að það séu flestir sem hugsi fyrst um fólkið sitt, – fjölskylduna, vinina. Kannski gæludýrið sitt. Það er nefnilega þannig að okkar mikilvægustu hlutir eru ekki hlutir heldur lifandi verur.
Það er margt sem er gott að þakka – það er gott að þakka fyrir andardráttinn okkar, að geta andað djúpt – og hjálparlaust.
Vinur minn sem varð fimmtugur um daginn, var búinn að reikna út hvað hann hefði tekið marga andardrætti um ævina og hann tilkynnti að hann hefði upplifað jafn mörg kraftaverk og andardrættir lífs hans væru. Hann talaði jafnframt um að anda inn kraftaverki og anda frá sér þakklæti. –
Hvert líf og hver andardráttur er kraftaverk – og það er gott að lifa í þeirri þakklætishugsun að lífið okkar sé kraftaverk og það séu að gerast kraftaverk á hverjum degi, á hverri stundu – og hverri mínútu og það sé alls ekkert sjálfsagt! Ég sem hef misst veit það og þú sem hefur misst veist það – að lífið er ekki sjálfsagt, og það er ekki síst vegna þeirra sem farin eru sem við ættum að þakka okkar líf og lifa því lifandi. Muna að hver andardráttur er kraftaverk.
Ég minntist aðeins á það áðan á mikilvægi þess að tileinka sér það sem stæði á þessum viskukornum. Það má einnig nota orðið að ástunda. Við getum nefnilega vitað allt um þakklæti – alveg eins og við getum vitað hvað er hollt, en ef við iðkum ekki þakklæti eða borðum ekki það sem er hollt þá gerir það ekki mikið fyrir okkur! .. J
Hver er hann svo þessi töframáttur þakklætis? Jú hann auðgar okkur, og gerir okkur rík á svipstundu. Allt í einu verða körfurnar sem við álitum tómar – stútfullar af alls konar góðu sem við þökkum fyrir.
Þakklæti er undanfari hamingjunar og fullnægjunnar. – Það þýðir að við þökkum fyrst og uppskerum svo, en ekki öfugt. – Í bókinni „Happiness advantage“ – eða hamingjuforskotið, er sagt frá tilruan þar sem fólki er skipt í tvo hópa. Annar hópurinn heldur þakklætisdagbók og hinir skrifa bara niður venjulega dagbók. Þakklætisdagbókin felur það í sér að skrifa niður 3 – 5 hluti á dag sem við erum þakklát fyrir. Þetta fólk fer að ástunda þakklæti. Það sem gerist, er að fókusinn fer af því sem fólkið skortir og hafði ekki – en á það sem það hefur. Það er eins og að eiga tvær bankabækur, ein er í mínus og hin í plús. Ef við horfum stöðugt á þessa sem er í mínus, dregur það okkur að sjálfsögðu niður og við förum sjálf í mínus! – En tilraunin sem gerð var með fólkinu leiddi í ljós að það fólk sem skráði niður hluti sem voru þakkarverðir – varð hamingjusamara. Þetta var allt mælt af vísindamönnum – og skráð í „Harvard magazine“ – en þetta athugaði ég sérstaklega – svo ég væri nú ekki bara eitthvað „húhú“ i´henni mömmu eins og sonur minn segir gjarnan – ef ég kem með eitthvað ósannað!
Svo á ég reyndar eina frásögu í mínum fórum sem mér þótti vænt um að heyra, en það var ung móðir á námskeiði hjá mér sem heyrði um þessa þakklætisdabókartilraun. Hún sagði mér frá því að hún hefði keypt stílabók fyrir 11 ára son hennar, og á kvöldin – skrifaði hann niður það sem hann hefði upplifað yfir daginn og vildi þakka fyrir. Hún sagði að þetta breytti miklu fyrir hann, því nú væri það þannig að þegar hann væri að sofna færi hugurinn á fullt að hugsa hvað hann ætti að skrifa á morgun, en áður hafði hann verið með kvíðahugsanir – en nú viku þær fyrir þakklætishugsunum. –
Það er ekki að ástæðulausu að Jesús gjörir þakkir, eða þakkar fyrirfram fyrir það sem gefið er. Um leið og við þökkum þá gerast kraftaverkin. Við þurfum kannski ekkert endilega að vita hvernig það virkar – bara trúa að þau virki. Segja – „já takk heimur“ – ég er tilbúin til að þiggja. Já takk Jesús – ég þigg orðið þitt og finna hvernig það vex með mér“..