Eru áhyggjur hreyfiafl til góðs? .. prédikun í Skálholtsdómkirkju 4. september 2016

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt – og vit til að greina þar á milli! 

Þessi bæn kallast æðruleysisbænin, og er eftir Reinhold Niebuhr –  Margir telja að æðruleysi sé andstæðan við áhyggjur,  og var eitt af því sem nefnt var þegar ég spurði bæði lærða og leika hvað þeir teldi andstæðuna við áhyggjur – og jafnframt hvaða tilfinning það væri sem við upplifðum – í áhyggjuleysi.

Sumir sögðust upplifa frelsi og aðrir innri frið,  sem er í raun náskylt því að upplifa æðruleysi.

Hvað ef við skiptum út æðruleysinu fyrir áhyggjur – þá myndi bænin hefjast þannig:

„Guð gefi mér áhyggjur …..“

Það er nokkuð víst að það er enginn sem biður Guð um auknar áhyggjur.

Orðið áhyggjur og áhyggjufull er áberandi í guðspjallstexta dagsins –  og það var í raun hugheystandi fyrir mig,  sem var að fara að flytja mína fyrstu messu í Skálholtsdómkirkju, sem sóknarprestur í afleysingum að fletta upp guðspjallstexta dagsins.  Ég hugsaði með mér:  „Ah .. Guð er að segja mér að hafa ekki áhyggjur – þetta verður þá „áhyggjulaus messa“   J   ..    Ég vænti að við séum öll sammála því að áhyggjur eru óæskilegar og þær eru ekki það hreyfiafl sem til dæmis gleðin – eða trúin er.

Við aukum ekki spönn við æfi okkar með því að hafa áhyggjur!

Áhyggjur eru hugsanir sem virka sem hindranir.   Áhyggjur eru af sama meiði og óttinn – og við heyrum oft talað um að andstæðan við óttann sé elskan. –   Þegar við erum full af ótta,  þá kemst elskan ekki að.    Í fyrsta Jóhannesarbréfi stendur:   „Ótti er ekki í elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann“ …      Þannig að næst þegar við byrjum að hafa áhyggjur eða óttast,  þá ættum við kannski að prófa að skipta út þessari hugsun  óttahugsun  –  og hleypa kærleikanum að,  því það liggur í orðanna hljóðan að þegar við eru full af áhyggjum – eða áhyggjufull eins og við köllum það,  þá kemst nú varla annað að.    En „galdurinn“  er auðvitað að um leið og við skiptum um fókus – við t.d. hugsum „Ljós“ – „kærleikur“ –   við hugsum  Guð – við hugsum Jesús,  hvað verður um allt sem við vorum að pína okkur sjálf með og draga okkur niður með í þessu kviksyndi neikvæðra hugsana? –    Það hverfur eins og við höfum kveikt á ljósaperu,  og það er ekki lengur myrkur!

Það er til  saga af afar áhyggjufullri fjölskyldu – og hvernig hún uppskar í sínu lífi,  eða uppskar ekki:     Þetta er gamaldags saga,  – úr sveit,  – ég veit ekki hvaðan hún er eða hver samdi hana,  kannski vitið þið það og megið segja mér það á eftir,   en ég heyrði hana á förnum vegi – og finnst hún eiga erindi í dag.  –   Þessi áhyggjufulla fjölskylda samanstóð af rosknum hjónum og gjafvaxta dóttur – og þau voru farin að hafa áhyggjur af því að enginn væri unnustinn.    En dag einn kom aðkomumaður – nokkuð myndarlegur bara og  bað bóndann um hönd dótturinnar.  (Það er enginn nútíma feminismi í þessari sögu – geymum hann til betri tíma).   –   Hjónin sem voru orðin lúin og vildu gjarnan sjá dóttur sína í hjónabandi,  tóku unga manninum vel – og  ákváðu að bjóða honum upp á öl til að fagna trúlofuninni.  Ölið var geymt í kjallaranum og stungu þau upp á að dóttirin færi í kjallarann að sækja ölið.   Það leið og beið og ekki kom dóttirin til baka.  Þá fór móðirin að huga að henni,  en ekki kom hún aftur.  Húsbóndinn sá sér þann kost vænstan að athuga með mæðgurnar,  –  og það sama var uppi á teningnum.  Vonbiðillinn sat nú einn í eldhúsinu og var orðinn bæði hissa og þurrbrjósta,  svo hann ákvað að fara að kanna málið sjálfur.    –  Hann kom að þar sem þrjár manneskjur – sátu hágrátandi í kjallaratröppunum.  –    Hann spurði hvað ylli þessari miklu hryggð,  en þá sagði unga konan að hún hefði verið á leiðinni niður í kjallara og séð þar öxi slútandi niður og fór að hugsa að ef þau myndu giftast – og ef þau eignuðust son   og svo þegar sonurinn yxi úr grasi og færi að heimsækja ömmu og afa – og sækja fyrir þau öl,  þá myndi öxin kannski detta niður á hann og hann deyja. –  Allt þetta sagði hún á milli ekkasoganna – og foreldrar hennar orguðu henni til samlætis,    þau voru yfirkomin af ótta  – og einhvers konar fyrirfram  sorg yfir því sem mögulega – kannski gæti gerst í ókominni framtíð.    –   Vonbiðillinn leit upp í loft –  teygði sig í  öxina og tók niður og sagði svo,  – ég er hættur við bónorðið,  og flýtti sér í burtu.

Þessi saga er mjög ýkt  – en lýsir mjög vel þegar eitthvað er ofhugsað – eða áhyggjur bera okkur ofurliði.     Það er ekki alltaf sem hægt er að fjarlægja öxina.  En öxin gæti svo vel verið táknræn fyrir eitthvað sem við óttumst – eða höfum áhyggjur af.

 

Þessi fjölskylda óttaðist dauðann – og það gera margir.  En ef við værum alla daga að hugsa um dauðann,  eða hafa áhyggjur af honum, –  þá sætum við eflaust bara eins og þessi fjölskylda – stjörf af ótta og hágrétum – vegna þess að einhvern daginn myndi öxin falla.

Í 23. Davíðssálmi,   segir:  „Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt.“  –  Þessi  þessi dimmi dalur – er stundum þýddur sem  „Dauðans skugga dalur“   og hvað er dauðans skugga dalur annað en lífið okkar ? ..  dimman hlýst af skugganum sem dauðinn varpar á lífið.    Við fjarlægjum ekki dauðann.   Hann er þarna alltaf.   En svo heldur textinn áfram:  „Ég óttast ekkert illt,  því þú ert hjá mér“ ..      Drottinn er hirðirinn sem er hjá okkur – og það er engin ástæða að óttast því við erum alltaf með Drottni.  –    Ótti skv. þessu er því hreinlega skortur á trú.   –

Skilaboðin eru að treysta – sama hvað á gengur.

Í upphafi guðspjallstextans – er talað um að ekki sé hægt að þjóna tveimur herrum.  Guði og mammón.  –  Og það er ekki heldur hægt að þjóna eða tileinka sér bæði Ótta og Elsku,  því eins og áður sagði þá er enginn ótti í elskunni.   Það er engin hálfvelgja í boði.   Hún dugar að minnsta kosti ekki.

Við getum hlegið að  fjölskyldunn sem sat og grét undir öxinni, –  en það er líka gott að muna eftir þeim,  næst þegar við förum í sjálfspyntingarhugsanir  – sem ræna okkur gleðinni og sem stela af okkur kærleikanum,   –  því þegar við hugsum hugsanir sem láta okkur líða illa,  þá að sjálfsögðu erum við ekki að elska okkur eða meðtaka kærleika.
Texti dagsins er eins og fyrirmynd að Núvitundarpælingum samtímans.   Að lifa og njóta núna –  en vera ekki komin langt fram í tímann – í hugsunum.   Jú kannski til að hlakka til og sjá fyrir sér eitthvað skemmtilegt – en alls ekki búa til framtíðarskrímsli.   Við eigum orðatiltækið „koma tímar – koma ráð“ og Danirnir segja:  „Den tid den sorg“ ..

Hvernig eigum við þá að fara að því að tileinka okkur þessa uppbyggilegu hugsun?  Hvernig eigum við að skipta út áhyggjum og ótta fyrir trausti og elsku?    Kannski að veita því athygli sem er hér og nú, –  í dag – en ekki á morgun.   Vera svolítið eins og fuglarnir og blómin.    Bara vera,  núna. –     Elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf.

Textarnir í sálmum dagsins fjalla meira og minna um það að treysta Guði, – og vináttu Jesú.  Þegar við sátum við eldhúsborðið á heimili Jóns organista, og völdum sálmana ræddum við líka hvað það væri áhyggjufrelsandi að syngja – og það væri í raun ákveðin sjálfsbjörg falin í því að syngja – því það er eiginlega vonlaust að vera í fýlu og syngja. –   Söngurinn og tónlistin er ein af mörgum gjöfum Guðs til okkar – til að létta okkur lífið og gera það fallegra.   Kannski er bara málið,  að næst þegar sækja að okkur sækja þungir þankar – eða áhyggjur að fara bara að syngja.   Jafnvel eins og Bobby Macferrin söng forðum daga:  „Don´t  Worry be happy“ ..

Það er gott að það komi eitt fram í lokin – vegna þess að margir gætu setið uppi með stíft tak á áhyggjunum –   það er óttinn við að sleppa áhyggjunum.   Að með því séum við of kærulaus og ekkert gerist.    Það er reginmisskilningur.  Áhyggjur og fyrirhyggja eru ekki sami hlutur.    Áhyggjur eru ekki hreyfiafl.  Þær eru einmitt  öfugt.  Þær virka oft lamandi eða í það minnsta hamlandi.   Það er miklu betra að ganga í verkin með gleði, sátt við það sem er og æðruleysi –  heldur en að ganga inn í þau með sligandi áhyggjupoka,   … ef við ætlum að komast áfram  ..

 

Elskum meira og óttumst minna,  sleppum og treystum Guði.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

14051623_10209194665757489_5562091429089796409_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s