Mig langar að skrifa hér örfá orð um mætan mann, sem ég kynntist þegar ég hóf störf á Sólheimum í nóvember 2014. Mann sem nú er fallinn frá en það er hann Halldór Hartmannsson, sem ég þekkti í raun aldrei undir öðru nafni en Dóri, og um leið kynntist ég Maríu Jacobs, eða Mæju konunni hans og núverandi vinkonu minni. Mæja og Dóri voru alltaf nefnd í sömu andránni, enda voru þau einstaklega samhent og samrýnd hjón sem áttu fallegt samband og einhvern tímann sagði hún Mæja mér að þau rifust aldrei – og það er nú meira en sagt er um marga!
Dóri, ásamt Mæju sinni, var virkur í félagsstarfi, söngmaður mikill og naut sín bæði í Sólheimakórnum og í söng í messum. Það sem var kannski mest áberandi var hvað hann var mikill „nagli“ þ.e.a.s. að eflaust hefur hann verið orðinn mjög veikur, en tók t.d. þátt í uppfærslu Sólheimaleikhússins á Galdrakarlinum í OZ þar sem þau Mæja léku frænku og frænda Dórótheu og gerðu það eftirminnilega.
Eitt ferðalag sem við áttum saman, er mér minnistætt, það var þegar við sóttum jarðarför til Reykjavíkur þar sem ég var bílstjóri á þeirra bíl. Á heimleiðinni þurfti ég að taka með mér hundinn hennar dóttur minnar, og þau sögðu það nú ekki vanda! – Hann sat mest allan tímann í fangi Mæju, í framsætinu, en við og við hoppaði hann aftur í til Dóra sem hló við bægslaganginn – og það var ekki verið að pirra sig! Það má eiginlega segja að elsku Dóri hafi brosað fram á síðasta dag, jafnvel í gegnum sársauka og verki.
Þrátt fyrir að starfi mínu lyki á Sólheimum, þá lauk ekki vináttunni. Ég náði að heimsækja Dóra nokkrum sinnum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem hann lá við gott atlæti síðustu vikurnar í sínu lífi og þar sem hann hældi starfsfólki, og þrátt fyrir að vera orðinn eins veikur og raun bar vitni – þá var stutt í húmorinn og brosið. En nú er komið að kveðjustund og hugur minn hjá Mæju minni sem hefur misst mikið, en hefur staðið sterk í mótlæti en hún hefur m.a. þakkað það því góða fólki sem á Sólheimum býr og starfar, en hún má vita að hún á það margfalt skilið miðað við hvað hún hefur verið natin við allt og alla. Alltaf tilbúin að veita hjálparhönd – eða prjóna eitthvað fallegt og gefa, og þar stóð Dóri með henni.
Elsku Mæja og fjölskylda Dóra, ég votta ykkur innilega samúð og Guð styrki ykkur.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson)
Jóhanna Magnúsdóttir