„Ertu pera?“ ..

Þessi pistill er „endurunninn“  frá 2011,  en þá var hann  birtur í Pressunni.  Kominn tími til að færa hann á heimaslóðir – og endurbirta – ekki síst vegna umræðunnar um klæðnað kvenna og kvenfrelsi.

Tannlæknastofan sem ég sæki er þeim kostum gædd að vera með þokkalega ný tímarit til skoðunar. Það er t.d. munurinn á henni og á heilsugæslustöðinni, þar sem liggja snjáðar Vikur, eflaust sýktar öllum mögulegum sjúkdómum, þar sem  á forsíðu trónir fólk sem er að lýsa yfir ævarandi ást, en er löngu skilið, kona sem missti 20 kíló, en er löngu búin að bæta þeim á sig aftur og þar fram eftir götum.
Nei, hjá tannlækninum eru timaritin “up to date” ..
Í einu þeirra rakst ég á leiðbeiningar hvernig á að klæða af sér vöxtinn sinn. Hvað er það?
Ég veit alveg að við samþykkjum þetta, en hvað er það í raun og veru?
Eigum við öll að vera piparkökukellingin í sama mótinu?
“Ef þú ert epli, þá áttu að nota svona kjól,” og ef þú ert pera klæðir þú þig í blablablabla…
Hvað er að því að vera pera? Eða með peruvöxt? Það er í raun alveg merkilegt hvernig við höfum sett upp staðalímyndir fyrir hvað er fallegt og hvað ekki. Að vera pera á að tákna að mjaðmirnar á þér eru breiðari en efri búkurinn og lærin kannski svolítið breið líka. Það skal tekið fram að ég er ekki sérfræðingur í þessum greiningum.
Hvenær byrjar þetta mat á líkamanum?  Ekki þegar barnið fæðist, það eitt er víst. Það sem leitað er eftir þá er hvort að barnið er heilbrigt, með allar tær og fingur, andar eðlilega og grætur – og svo er tékkað hvort að um stelpu eða strák sé að ræða.
Það ætti að vera nóg.
Hugsa sér ef barnið færi strax í útlitsmat, “æ, hvernig á ég að klæða það svo að bumban verði minna sýnileg” .. (fátt er nú sætara en bumban á barni reyndar)..
Epli, banani eða pera, eða hvernig sem þetta nú allt er metið er hluti af fjölbreytileikanum og honum ættum við að fagna, en ekki reyna að steypa alla í sama mótið.
Systurnar í ævintýrinu um Öskubusku pössuðu ekki í skóinn, og þurftu að sníða af sér tá og hæl til að verða eiginkona prinsins.  Það var þá væntanlega ekki mjög prinsessulegt eða æskilegt heldur að vera með stórar fætur? Það vissu þeir líka í Kína.
Lína Langsokkur gaf þessu aftur á móti langt nef og klæddist skóm með auka rými fyrir tærnar. Húrra fyrir Línu Langsokk!
Hvaða ástæðu höfum við fyrir því að þurfa að sníða af okkur tærnar, hælana,  perubotninn, eða eplamagann? ..
Bara spekúlasjón!

Færðu inn athugasemd