„Þú þarft að koma nær ….“

„Hvar ertu prestur?“ ..  spurði kona sem hafði verið þátttakandi í „Allelúja – Heilunarmessu – Opnunarhátið“  .. sem haldin var í Fella – og Hólakirkju í gærkvöldi.

Ég svaraði eins og var;   að ég væri prestur í Skálholtsprestakalli,   – en þó bara í vetur – í námsleyfi sóknarprests. –   Þá sagði hún:  „Þú þarft að koma nær“..

Ég vaknaði með þessi orð í huganum í morgun,  og hef þörf fyrir að deila hugrenningum með ykkur sem lesið og hafið áhuga. –

Messan – sem var að mestu eða eiginlega öllu leyti óhefðbundin, –  var á vegum Sólrúnar Bragadóttur  söngkonu og söngheilara, sem er í samvinnu við annað gott fólk að setja á laggirnar skólann Allelúja sacred sound school,  en hann hefur aðsetur í Söngskóla Sigursveins í Breiðholti. –

Þegar Sólrún bað mig að vera með í þessari messu,  sagði ég já, án þess að spyrja hvernig hún ætti að vera.   Hún talaði um blessun fyrir skólann.  –

Viku fyrir messu hittumst við  í kvöldverðarboði hjá Gígju Árnadóttur – sem býður upp á heilun á vegum skólans. –  Þar snæddum við grænmetissúpu og gott brauð,  og kynntum okkur.  – Það var nauðsynlegt að vera búin að hitta þau sem ætluðu að „þjóna“ saman.

Svo var runninn upp messudagurinn  6. október 2016.

Fyrir messuna hittumst við og vorum „tengd“ saman af Jónínu – sem er jafnframt að kenna hugleiðslu o.fl.

Dagskráin var síðan þannig að Sólrún kom syngjandi inn „Amacing Grace“ .. og var það fallegt upphaf,   þá bauð hún fólk velkomið.  Síðan var ung kona – sem heitir Linda sem var með „trommuheilun“ – og barði hún bumbu í ca. 10 mínútur og gekk milli fólks. –   Þá var komið að kynningum á leiðbeinendum,  og kynnti Sólrún sig og aðdraganda stofnunar skólans fyrst og síðan aðrir leiðbeinendur koll af kolli, –  það er mjög fjölbreyttur hópur sem starfar með skólanum – margt áhugavert sem þau kynntu  – þau Arnþór,  Gígja, Hildur,   Jónína, Mínerva,  Wilma,  Valdimar  og  sú sem kynnti sig síðast var hún Sigurborg,  sem bauð síðan öllum hópnum upp á dans,  þ.e.a.s. við öll í kirkjunni stóðum upp og dönsuðum!

Það var skemmtilegt sem hún benti á, – það var að spyrja sig þegar við erum í vanlíðan „hvenær dansaði ég síðast?“  Það er okkur eiginlegt að hreyfa líkamann í takt við hljómfall og flest börn,  ef ekki öll gera það og spurning hvenær við hættum því? –

Ég held að undantekningalaust hafi allir þátttakendur í messunni staðið upp og dansað!

Þá stóð Sólrún upp og kenndi okkur svolítið um öndun og orkuna okkar, og hvernig við föðmuðum geislabauginn okkar 🙂 ..    (Hún kann nú sjálf að útskýra það betur!)  Svo var búinn til kór á staðnum, hljómkór og við sungum öll á „úi“  ..  og þannig tengdust allir í kirkjunni í gegnum hljóminn.   Það var góð tilfinning skemmtilegt að fá nasasjón af því hvernig þetta virkar.   Sjálfri finnst mér  alltaf gott að syngja – og þegar ég er mjög þreytt – sleppi ég samt ekki æfingu hjá Skálholtskórnum,  því það gefur mér orku!!.

Eftir  sameiginlegt „Ú“ ..  fengum við að heyra píanóleik,  en það var verk eftir Bach og það var Anna Málfríður  píanóleikari,  sem flutti – … mig langaði ekki til að það stoppaði .. svo fallegt var það.

Þá var komið að prestinum,  mér,  og hafði ég ákveðið að segja aðeins frá 23. Davíðssálmi, perlu trúarlegs kveðskapar og var mætt – að sjálfsögðu – með Biblíuna mína. –   Það sem ég gerði þó fyrst var að lesa Davíðssálm 150,   vegna þess að hann kom í huga minn á meðan „trommuhugleiðslan“ var í gangi,  en þar stendur m.a.  “

„Lofið Guð í helgidómi hans,

lofið hann í voldugri festingu hans.

Lofið hann fyrir máttarverk hans.

Lofið hann með lúðurhljómi,

lofið hann með hörpu og gígju.

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, 

lofið hann með flautum og strengjaleik.

Lofið hann með hljómandi skálabumbum,

lofið hann með hvellum skálabumbum.

Allt sem andardrátt hefur, lofi Drottin.

Halleljúa. “

Það var gaman að tengja bumbuslátt og gleðidansinn í kirkjunni við þennan sálm og vísa í það að helgihaldið getur verið „óhefðbundið“ .. og eitt þarf ekki að útiloka annað.   Bumbur og gleðidans í kirkju – er því ekki síður til að lofa Guð en hefðbundari lofgjörð!

I framhaldi af þessu las ég þennan vinsæla sálm,   „Drottinn er minn hirðir“ .  og sagði jafnframt frá því að það er mikil blessun og trúartraust í þessum sálmi.

Trúin á að VERA og HAFA nóg.

„Mig mun ekkert bresta“ þýðir að mig mun ekkert skorta ..  „I shall not want“ ..
„Bikar minn er barmafullur“  þýðir að við erum fullnægð af anda Guðs .. og við erum bikarinn. –    Áður hafði ég misskilið þennan sálm og haldið að þessi bikar væri tregabikar, eða sorgarbikar .. væntanlega vegna tengingar hans við útfarir,  – en svo sannarlega er það ekki túlkunin.   Við höfum nóg.

Það er aftur á móti mjög eðlilegt að syngja þennan sálm – við útfarir og við hvaða athöfn sem er,  því hann er að segja að þó að við förum um dimman dal, þurfum við ekkert að óttast ..  og í sumum þýðingum er talað um „dauðans skugga dal“ .. sem er ekkert annað en lífið í skugga dauðans,  sem það er vissulega alltaf.   En við ætlum ekki að lifa í þeim ótta, því þá værum við hreinlega bara lömuð alla daga! –    (Ég náði ekki að tala um þetta í messunni,   enda vildi ég stytta mál mitt).

Að lokum tók ég þátttakendur með í hugleiðslu,  – þar sem við fylltum okkur af ljósi og tókum inn heilagan anda ..  og hreinlega lögðumst í græna grasið ..  og sáum fyrir okkur vatnið .. og fegurðina ..  og leyfðum okkur að upplifa! .. (slíku er ekki hægt að segja frá á prenti – ekki frekar en upplifun af Bach eða dansi ;-))…

drottinn

Eftir hugleiðsluna söng Arnþór – elskulegur maður sem kennir EFT (Emotional Freedom Technique  og fleira,  –  dásamlegt lag – alveg frá hjartanu inn í hjörtu viðstaddra,  og undirleik annaðist Mínerva á píanó  og Wilma á fiðlu.   Hann talaði um að hver mætti skilja lagið eins og hann tæki við því og mér fannst eins og hann væri að syngja sem einhver sem hefði kvatt þennan heim og væri að halda áfram ….

Þá kom „hjartdrottningin“  Sólrún aftur á svið og söng tvö dásamleg lög,  – og það sem er áberandi í hennar flutningi – hvernig hún er „ÖLL“ í söngnum – og orðið sem kemur upp í hugann er „leikur“ .. það er svo gaman að leika ..  🙂 ..    Ég man ekki nafnið á fyrra laginu, en seinna var falleg útgáfa af Ave María – og var það afskaplega fallegt og einlægt..

Þá spiluðu þær Wilma – á fiðlu – og Anna Málfríður aftur,  saman – og það var einstaklega fallegt lag,   held örugglega einhvers konar írskt þjóðlag,  alla veganna fannst mér ég vera komin í írskt þorp.

Þá var aftur komið að prestinum,   en ég ákvað að fara með friðarkveðjuna fallegu sem við eigum í okkar hefðbundnu messu.   Ég sagði frá því að í gamla daga hefði það tíðkast að láta friðarkveðjuna ganga með kossi,  en í dag væri hún látin ganga með handtaki – þar sem prestur gengur út í söfnuðinn – tekur í hönd þeirra sem sitja á fremsta bekk og segir „Friður sé með þér“  og viðkomandi svarar  „og með þér“ ..   og síðan er sú kveðja látin ganga .. og þannig gekk hún í Fella-og Hólakirkju í gær .. að vísu var handtakið komið upp í faðmlag .. og það var og er notalegt.

„We are all wired for love and belonging“ .. eða við erum öll víruð til að elska og tilheyra og einnig til að vera í sambandi og snertingu við hvert annað.    Svona friðarkveðja,  stuðlar að því að allir fái snertingu sem er svo mikilvæg og upplifi það að vera í tengingu við hópinn.  Þú getur mætt einn eða ein í messu en færð þessa staðfestingu á nánd – og að finna að þú tilheyrir.   Vissulega er hægt að finna hana á annan máta líka.

Eftir friðarkveðju,  þakkaði Sólrún samveruna – sem var yndisleg – bæði samveran og Sólrún, –  og  við sungum fyrst á „Úi“  laglínuna úr  „Ó faðir gjör mig lítið ljós“  – en síðan fyrsta erindið með textanum  (eftir Matthías Jochumsson).

„Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
um lífs míns stutta skeið,
til hjálpar hverjum hal og drós,
sem hefur villst af leið.“

Þetta er svo falleg bæn,  um það að fá að vera ljós til að lýsa og hjálpa ❤

Stundinni lauk með útgöngu Sólrúnar,  en hún söng hið fallega Draumaland.

Ó leyf mér þig að leiða
í landsins fjalla heiða
:,:Með sælu sumrin löng:,:

Þar angar blómabreiða
við bíðan fuglasöng.
:,:Þar angar blómabreiða:,:
við bíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég.
Þar aðeins við mig kann ég
:,:Þar batt mig tryggaðarband:,:

Því þar er allt sem ann ég
Þar er mitt ,,Draumaland“
:,:Því þar er allt sem ann ég:,:
það er mitt ,,Draumaland“.

Við gengum út úr kirkjunni á eftir og svo féllst fólk í faðmlög og þakkaði hvert öðru,  og það var þá sem konan kom til mín og sagði:  „Þú þarft að koma nær“ ..

Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri að prófa svona „öðruvísi“ aðkomu .. að helgihaldi.  Margt er gott í því hefðbundna,   en ég er hugsi hvort ég sé of langt í burt og ekki bara ég .. kannski fleiri prestar.   Líklegast hefur konan átt við það að ég hafi þurft að koma nær landfræðilega .. því fólki finnst langt að keyra í Skálholt,  þó mér finnist stutt að keyra í bæinn.

þarf ég að koma nær – eða kannski við öll? ..

14051623_10209194665757489_5562091429089796409_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s