„Sál mín þekkir þína sál, ég virði ljósið, ástina, fegurðina, sannleikann og vingjarnleikann í þér, vegna þess að það er líka í mér, með því að deila þessu er engin fjarlægð og enginn munur á milli okkar, við erum eins, við erum eitt.“
Svona hljómar lýsingin á „Namasté“ sem ég pósta hér með.
Hér eru upptaldir allt þetta fagra sem við erum með og við speglum.
En hvað með hatur, ljótleika, lygina, … o.s.frv. hvernig hljómar þetta þá?
„Sál mín þekkir þína sál, ég virði myrkrið, hatrið, ljótleikann, lygina og styggðina í þér, vegna þess að það er líka í mér, með því að deila þessu er engin fjarlægð og enginn munur á milli okkar, við erum eins, við erum eitt.“
Það þykir hið æðsta merki þroska – að geta sett sig í spor annarra.
Þegar ég sé manneskju sem er mjög stjórnsöm, þekki ég einkennin því þau eru í mér. Allt er í mér og allt er í þér. Alls konar meðvirkni, óöryggi, stjórnsemi og jafnvel ofbeldi.
Það er til orðatiltæki á ensku: „If you spot it – you got it“ .. En oft viljum við ekki sjá og þaðan er komið orðatiltækið úr Biblíunni um flísina og bjálkann. „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“
Þetta þýðir ekki að við séum öll ómöguleg. Öll höfum við það sem ég skrifaði fyrst, þetta fallega, og því meira fallegt sem við sjáum – þess meira fallegt höfum við.
Við höfum þó möguleikann til að rækta þetta góða, með því að æfa okkur í að sjá það fallega í öðrum, – elska þau – þrátt fyrir illmennsku þeirra. Það þýðir ekki að við séum að leyfa þeim að fara yfir okkar mörk, eða láta þau valta yfir. Heldur bara skilja þau ofurlítið.
Það er oft hægt að „framkalla“ það góða í þeim sem kunna ekki að gera það sjálf. Að kalla fram gott með góðu. Er það ekki?
Ég sé mig í þér – sál mín þekkir þína sál, því við erum eitt .. jarðarbúar og kannski meira?