Fyrirgefning ….endalaust? ..

 

Guðspjall  22.  sunnudag e.  Þrenningarhátíð

Matt 18.21-35

Þá gekk Pétur til  Jesú og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig?  Svo sem sjö sinnum?“

Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.

Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

—–

Það virðist vera sama hvað við mannfólkið hegðum okkur,  sólin kemur upp hvern dag.  Við sjáum að vísu mismikið af dagsbirtunni – eftir hvort það er sumar eða vetur,  en sólin rís á hverjum degi.   Sól rís,  sól sest.

Nýr dagur .. er eitt af því sem við þorum að treysta að komi.

Guð fer ekki í manngreinarálit, ekki frekar en sólin eða rigningin.  Það rignar jafnt á réttláta sem rangláta.

Þegar við lesum guðspjall dagsins,  förum við að velta fyrir okkur fyrirgefningunni.  Þessu stóra hugtaki, sem skiptir okkur í raun mjög miklu máli. –

Spurt er:  „Hversu oft á ég að fyrirgefa bróður mínum?“ ..   er ca. sjö sinnum nógu oft? .. ha?     Jesús svarar:  „Sjötíu sinnum sjö“ ..   sem þýðir í raun að það eru engin takmörk fyrir því hversu oft skal fyrirgefa.

Hver  er munurinn á ástandi okkar þegar við erum tilbúin að fyrirgefa,  og þegar við erum það ekki? ..

Kannski erum við svolítið kreppt og stíf,  og kannski örlítið – eða bara mikið föst og frosin?  Kannski er líkami okkar stíflaður af skorti á fyrirgefningu?   Og kannski erum við rígbundin við  einhvern sem við viljum ekki hafa í lífi okkar vegna þess að við getum ekki fyrirgefið honum eða henni? –

Guð hefur kennt okkur að fyrirgefa,  og það sem meira er:  hann hefur gefið okkur valdið til að fyrirgefa.    Það er ekkert smá.

Ég man eftir manni – sem var á námskeiði hjá mér sem hét:  „Ég get það“  eftir samnefndri bók Louise Hay.     Efni tímans var fyrirgefningin,  og ég mun vitna í nálgun Loise Hay hér á eftir.   Maðurinn var fullur reiði út í föður sinn sem hafði drukkið ótæpilega,  – var alkóhólisti – og kom bara hreint út illa fram við börnin sín.   Þetta var fullorðinn maður – og hann löngu hættur að búa heima hjá pabba og orðinn pabbi sjálfur.   En hann var ekki búinn að fyrirgefa honum. –   Hvað þýddi þetta fyrir hans eigið líf?    Jú,  hann sat uppi með gremju og reiði,  og það sem meira var,   þetta bitnaði á hans eigin börnum.     Og þó þessi maður væri ekki alkóhólisti og væri að reyna að koma fallega fram við sín börn,  þá tókst það bara alls ekkert vel  – vegna þess að hann bar þessa þungu byrði sem felst í því að lifa í „ófyrirgefningunni“ ..     Sá sem lifir þannig er í raun stíflaður – eða í klakaböndum.    Og hvað getur sá maður gefið af sér?   Gat verið að hann væri bara eins og faðir hans – sem hann gat ekki fyrirgefið,  í framkomu við sín börn?

Það sem er mikilvægt að komi fram – þegar við ræðum fyrirgefninguna er,  að við erum ekki að samþykkja ákveðna hegðun  – þegar við fyrirgefum.  Við erum að veita okkur frelsi frá fólki eða aðstæðum sem við viljum ekki lengur vera tengd við.

Það er ekki síst þess vegna sem við fyrirgefum sjötíu sinnum sjö sinnum.

„Þar sem ég gekk að hliðinu í átt að frelsinu, viss ég að ef ég segði ekki skilið við biturleikann og reiðina, væri ég enn í fangelsi“ –    þetta sagði Nelson Mandela – þegar hann var látinn laus eftir 27 ára fangelsisvist.

Fyrirgefningin er frelsun úr viðjum – frelsun úr fangelsi hugans.

Louise Hay – er bandarísk kona sem er komin nálægt níræðu – sem þekkt er fyrir jákvæðni og hafa hreinlega talað sjálfa sig og annað fólk út úr „illu“ eins og sagt er.  –   Hún heilar með orðum.

Það sem hún segir um fyrirgefninguna er m.a. þetta:

„Við losnum aldrei  við biturleikann – ef við viðhöldum  hugsunum sem eru „ófyrirgefandi.“   Hvernig getum við verið glöð – á þessari stundu – ef við veljum að vera reið og full af eftirsjá.   Bitrar hugsanir geta ekki skapað gleði.   Sama hversu full við erum af sjálfsréttlætingu yfir því hvað „hann“ eða „hún“ gerði,   ef við þráumst við að halda í fortíðina,  fáum við aldrei frelsi.   Að fyrirgefa sjálfum okkur og öðrum – mun frelsa okkur úr fangelsi fortíðar.

Þegar við upplifum að við séum föst – í einhverju ástandi,  er það oft vegna þess að við erum ekki tilbúin að fyrirgefa.   Þegar flæði lífsins er hindrað.   Það getur verið eftirsjá, depurð, sárindi, ótti, samviskubit, ásökun, reiði  .. eða jafnvel löngunin til að hefna.    Allt er þetta afrakstur þess að geta ekki fyrirgefið,  að neita að sleppa tökum á því sem var og koma inn inn í daginn í dag.

Þegar við höldum svona fast í það sem okkur finnst ófyrirgefanlegt, er það eins og að byggja framtíð á ruslahaug fortíðar.“  –    (Louise L. Hay).

Þegar við skoðum fortíðina – þá má ekki reisa sér hús í henni – við skoðum fortíð eins og við séum í túristastrætó –   „aha“ svona var þetta.  En við hoppum ekki úr strætó og segjum bless við samferðafólkið okkar. –   Við skoðum og segjum svo bless,  þessa ferð þarf ég ekki að fara aftur.
Þegar við ásökum aðra – erum við að gefa öðrum valdið yfir okkar tilfinningum.  Munið – það var Guð sem gaf okkur valdið,  við skulum ekki gefa öðrum það vald og gera þannig þetta fólk að guðum tilfinninga okkar.   
.

Fyrirgefning þýðir heldur ekki að þú leyfir skaðlegri hegðun einhvers að halda áfram í þínu lífi.  Stundum þýðir það að fyrirgefa að sleppa tökunum á einhverjum.  Þú fyrirgefur þessari manneskju,  og sleppir henni svo.    Því stundum er það að setja heilbrigð mörk það kærleiksríkasta sem þú getur gert – ekki aðeins fyrir þig – heldur einnig hina manneskjuna líka.

Fyrirgefningin hefur tvær hliðar.  Það er að gefa og það er að þiggja.    Fyrirgefningin er nefnilega gjöf.    Það er gjöf sem gefur,  enda vitum við flest hvað það er gott að gefa.  Það er sælt að gefa OG það er sælt að þiggja,   og ég vitna í viðskiptamálið þegar ég segi að fyrirgefningin sé „win-win“ þ.e.a.s.  báðir vinna.

Það er annað sem ekki er hægt að sleppa að minnast á  – þegar guðspjallið er skoðað,  en það er  maðurinn sem þiggur niðurfellingu skulda frá konunginum,  en metur það ekki meira en það að hann er alls ekki tilbúinn að gera það sama fyrir samstarfsmann sinn.

Mikið þykir okkur það nú „klént“ hvað segir í bæninni sem Jesús kenndi,  „Faðir vorinu:“ Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ .. og   hvernig hljóðar það sem við köllum gullna reglan? :

„Allt það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Mt 7.12)

Hvað er eiginlega að þessum þjóni í sögunni? –  Eða hvað?    Könnumst við eitthvað við þetta?   Er einhver hér – kannski bara ég sjálf – sem hefur þegið fyrirgefningu Guðs,  aftur og aftur og aftur . eiginlega endalaust – en fyrirgefur ekki náunga sínum?

Kannski erum við bara eins og þessi þjónn sem þiggur – en gefur ekki? –   Það stíflast flæðið og hver situr uppi með „böðlana?“ . nema við sjálf? ..      Það kannast örugglega einhver við það að hafa ekki náð svefni – bylt sér um í rúminu – vegna þess að hann eða hún átti eitthvað óuppgert við bróður eða systur, – og þrjóskaðist við að fyrirgefa það,  það var „ófyrirgefanlegt“ ..   en í stað þess að vera í þessari vanlíðan,  þá er kannski gott að biðja bænar til Guðs,  um hjálp við fyrirgefninguna.

Hjálpaðu mér að fyrirgefa það sem mennska mín hindrar mig í að fyrirgefa.  Gefðu mér þinn guðlega mátt skilyrðislauss kærleika til að ég komist á þann stað,  til þess að frelsa mig.   Já, „mig“  ..    og ekki gleyma því að stundum erum það líka við sjálf sem við þurfum að fyrirgefa!   Guð hefur fyrirgefið okkur,  en hver erum við þá að gera það ekki?

Guð er svo óumræðilega stór og Guð  vill ekki að við séum í fangelsi hugans – eða annarra sem hafa meitt okkur,  þess vegna hefur hann gefið okkur þetta gífurlega vald,  vald fyrirgefningarinnar.

Jesús minnir okkur alveg á að það hefur margt verið gert á hans hluta.    Í hvert skipti sem einhver manneskja er meidd, særð,  misnotuð eða kúguð  þá erum við að meiða Jesú –   sem sagði:  „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“  …

Alltaf er verið að meiða Jesú,  en hann fyrirgefur samt.   Hann er ekki að samþykkja – eða segja að atburður sé góður,   heldur að núllstilla – svo að nýr dagur rísi,  – hreinn og fagur og að við drögum ekki með okkur nóttina inn í daginn.

Guð hefur fyrirgefið – hann hefur gefið hina stærstu gjöf,  og nú er okkar að þiggja og virða.

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur en hafi eilíft líf” (Jóhannes 3:16).

 

fyrrgefningin

 

Ein hugrenning um “Fyrirgefning ….endalaust? ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s