„Í blíðu og stríðu“ .. eða ekki? ..

Ég tjáði mig örlítið á fésbókinni (aldrei þessu vant)  -en í þetta skiptið var ég að hrósa Sigurði Inga fráfarandi forsætisráðherra fyrir trausvekjandi og fallega framkomu þar sem formenn flokkanna komu fram á RÚV.  –  Sitt sýndist hverjum,  eins og gefur að skilja – og eftir allt sem á undan er gengið.

Það sem ég skrifaði:

„Ég horfði á formenn stjórnmálaflokkana áðan, og ég er sko engin aðdáandi framsóknarflokksins, en mér fannst Sigurður Ingi ótrúlega yfirvegaður og bara þægilegur maður í þessu viðtali. – Voru þau ekki líka mörg að tala um að hann hefði verið góður leiðtogi þessa sex mánuði sem hann var forsætisráðherra? .. Kom mjög á óvart. Þess utan er ég hrifnust af Katrínu Jakobsdóttur.“

Ég fékk ábendingu um það að Sigurður Ingi hefði staðið eins og klettur með Sigmundi Davíð þegar Panamaskjalamálið kom upp o.fl. –

„Já hann kemur vel fyrir en svo hugsar maður til baka og man þegar hann stóð eins og klettur með Sigmundi í spillingamálunum..panamaskjölunum og öllu því alveg gallharður“

Og þetta vakti mig til umhugsunar um það hvenær við eigum að standa með og hvenær við eigum ekki að standa með?

Þegar fólk er í flokki,  þá gefur það hvert öðru ósjálfrátt loforð um að standa saman.  Það sama gildir þegar við ráðum okkur í vinnu,  þá erum við að heita vinnuveitanda ákveðinni tryggð – svo ég tali ekki um þegar við göngum í hjónaband.   Þar er stundum talað um að standa saman í blíðu og stríðu.

En hvað þýðir það að standa saman í blíðu og stríðu, og þýðir það virkilega að standa gegn okkar eigin lífsgildum – ef um það er að ræða? ..

Ég svaraði því athugasemd um stöðu Sigurðar með Sigmundi á þessa leið:

„Er það ekki það sem fólk reynir fyrst, þegar það er í einhvers konar „sambandi“ hvort sem það er í flokki eða vinnu – nú eða í hjónabandi. Að standa eins og klettir með vinnuveitanda, samflokksmanni eða maka? – Sumir átta sig aldrei á því að þeir eru orðnir meðvirkir í vitleysunni, en aðrir kveikja á perunni og það virðist hafa gerst í Framsókn og það virðist hafa gerst hjá Sigurði Inga úr því að hann fór gegn Sigmundi. Það þarf ákveðið hugrekki til þess. Ég tel a.m.k. að það hafi gerst.“

Þarna komum við, enn og aftur,  inn á „mátt“ meðvirkninnar og hversu hættulegt er að rugla því saman að við séum að gera gott við það að vera meðvirk.

Þegar við erum að lofa einhverjum tryggð,  þá má það ekki þýða að við fylgjum einhverjum í að gera það sem er siðlaust eða jafnvel ólöglegt.   Allir verða að standa ábyrgð á eigin verkum og gjörðum,  og þess vegna má hugsa það upp á nýtt hvað það er að vera trúr eða tryggur einhverjum.   Það er kannski að segja viðkomandi sannleikann hvað okkur finnst – í stað þess að fylgja honum/henni að gjörðum og verkum sem okkur finnst bara ekki í lagi.
Það að vera tryggur eða trúr sjálfum sér – er ekki minna mikilvægt en að vera tryggur öðrum, –  ég tala nú ekki um þegar að sú tryggð felur það í sér að ganga á eigin lífsgildi.  Það gengur aldrei upp.

Hugsum þetta saman,  og hugsum hvort það sé einhvers staðar í okkar lífi sem við erum að gefa of mikinn „afslátt“ af okkar lífsgildum – vegna þess að okkur er sagt að það sé svo mikilvægt að halda tryggð við einhvern eða eitthvað.   Hvað ef þessi einhver eða eitthvað er að fara í ranga átt – eigum við samt að fylgja – og kannski elta fyrir björg?

Sannleikurinn er það sem gerir okkur frjáls,  þó hann sé oft sár.

485819_203030436495113_521866948_n

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s