„Pabbi má ég kaupa hjá þér einn tíma? .. prédikun 13. nóvember 2016 – Feðradaginn.

Guðspjall:

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. (Matt 25.1-13)

(Organisti spilaði hér laglínuna í laginu „Lítill drengur“ .. )

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Lítill drengur

Óðum steðjar að sá dagur,

afmælið þitt kemur senn.

Lítill drengur, ljós og fagur

lífsins skilning öðlast senn.

Vildi ég að alltaf yrðir

við áhyggjurnar laus sem nú

en allt fer hér á eina veginn:

Í átt til foldar mjakast þú.

Ég vildi geta verið hjá þér

veslings barnið mitt.

Umlukt þig með örmum mínum.

Unir hver með sitt.

Oft ég hugsa auðmjúkt til þín

einkum, þegar húmar að.

Eins þótt fari óravegu

átt þú mér í hjarta stað.

Þetta voru tvö fyrstu erindin í hjartnæmu ljóði – sem flestir Íslendingar kunna og geta jafnvel sungið með.   Það upplifði ég amk á Selfossi í sumar, – þar sem Jóhann,  sonur Vilhjálms og sambýlismaður systur minnar – tróð upp með lög föður síns. – Í þessu lagi syngur  Vilhjálmur Vilhjálmsson  til sonar síns,  – en við vitum flest að  Vilhjálmur kvaddi þessa jarðvist – alltof ungur –  í blóma lífsins.

Í dag,  næstsíðasta sunnudag eftir þrenningarhátíð er Kristniboðsdagurinn.  Kirkjur víða um land minnast þessa dags, –  og við gerum það líka,  en það er líka annar dagur í dag – sem hefur ekki fengið mikla athygli, en það er feðradagurinn.    Það var af því tilefni að ég las þetta fallega ljóð, eða fyrstu tvö erindin. –

Í guðspjalli dagsins er verið að tala um 10 meyjar sem væntu brúðguma –  fimm meyjar sem áttu olíu á lampanum sínum og fimm sem áttu enga olíu.   Þarna er verið að tala um einhvers konar kyndla. –  Ekki dugði olía fyrir einn kyndil á tvo kyndla – það hefði þá dáið út ljósið á öllum lömpunum,  kannski í miðju brúðkaupi,  – og því var æskilegra að það logaði þó alla vega á fimm allan timann heldur en 10 hálfan tímann.    Fimm meyjar ruku út í búð – til að versla olíu – en þær voru of seinar – þegar þær komu til baka.   Það var búið að loka.

Guðspjallið endar svo á orðunum:  „Vakið – þér vitið ekki daginn né stundina“ ..

Hér ætla ég mér ekki að rekja frekar söguna af meyjunum – en íhuga aðeins hvað það þýðir að vaka – því við vitum ekki daginn né stundina.“ .

Við gætum til dæmist talað um slökkviliðsmenn – sem eru á vakt, –  já, við tölum það að vera á vaktinni .. og á vaktinni erum við viðbúin.   Slökkviliðsmenn hafa allt klárt,  bílarnir eru fullir af eldsneyti – þeir eru með allan úbúnað tilbúinn og það skiptir máli að þeir séu fljótir á staðinn þar sem er að kvikna í –  vegna þess að eldurinn bíður ekki eftir þeim.  –

—-

Hvenig er það með mæður og feður og börnin þeirra? –    Eru þau ekki alltaf á vaktinni,  alltaf viðbúin að bregðast við – og tilbúin að eiga stund með börnunum sínum.  Börnin eru kannski ekki þau duglegustu að segja hvað þau  langar.  Nýlega heimsótti ég foreldra sem voru að óska eftir skírn fyrir son sinn.  Hann sat þarna sallarólegur í einhvers konar ömmustólk – og brosti.  Ég spurði hvort hann væri alltaf svona glaður,  en mamman svaraði skjótt –  jú,  nema þegar hann er svangur – þá verður hann alveg brjálaður ..

Svona eru ungabörnin, þau segja að þau séu svöng með því að gráta, því þau eiga ekki enn orðin. –    Svo þegar þau vaxa úr grasi fara þau að tjá sig með orðum og geta sagt – „ég er svangur“  eða „ég er svöng.“ ..    Það flækist hins vegar málið þegar þau eru tilfinningalega svöng, – þegar þau vantar samveru  – hlustun – tíma foreldranna – þá kunna þau kannski ekki alltaf að tjá það og verða kannski alveg „brjáluð“  eins og ungabarnið,   en eiga engin orð.   Sumt fólk fer kannski í gegnum ævina þannig að það á erfitt með að tjá tilfinningar sínar,  eða lokar þær inni og líður illa með þær. –    Getur verið að það gerist oftar hjá strákum en stelpum? –    Hvers vegna í ósköpunum væri það nú?    Jú,  kannski vegna þess að einu sinni áttu strákar að vera harðir og ekki „væla“ ..  á meðan stelpum „leyfðist“  að vera mýkri og í raun komast upp með meira tilfinningalega.   Komast upp með það að gráta.     Pælið í því ef ekki hefði verið hlustað á ungabarnið sem grét og vildi matinn sinn?   Það hefði verið hastað á það ..

Þannig var gert við stráka og stundum gert enn, –  hver kannast ekki við setninguna  „Vertu ekki að væla eins og stelpa?“ ..   eða gráta eins og kerling ..

Geta pabbar ekki grátið?   Er spurt,  og jú þeir geta það – en þó ekki allir.   Hvað gerist ef að pabbi fær ekki útrás fyrir tilfinningar sínar,  getur ekki tjáð þær vegna þess að hann er hræddur við að sýnast veiklunda – eða veikgeðja – og fá jafnvel hæðnisglósur?   –   Pabbinn lokast inni í einhvers konar skráp,  skráp sem getur orðið býsna þungur að bera. –     Margir pabbar þyrftu að koma út úr – ekki skápnum – heldur skrápnum!    Hvers vegna?   Jú vegna þess að það getur verið einmanalegt í þessum skráp og kannski bara allt of erfitt að vera þar og íþyngjandi.

Pabbar hafa líka átt pabba,  og hafa yfirleitt lært af pöbbum sínum.  Sumir segja:  „ég vil verða alveg eins og pabbi minn“ .. á meðan aðrir segja „Oh, ég ætla sko að vera andstæðan við pabba minn“ .. kannski þeir sem áttu einmitt tilfinningalega lokaðan og fjarlægan föður.   Kannski föður sem var harðstjóri vegna þess einmitt að hann var lokaður?    Synir þurfa á pöbbum sínum að halda, og að verja tíma með þeim –   eins og pabbar þurfa á sonum sínum að halda – og auðvitað dætrum líka. 

ég kann eiga sögu af strák sem hefur alltaf snert mig.

Það var strákurinn sem átti pabbann sem var svo upptekinn.  Þessi pabbi var mjög duglegur í vinnunni – og var í raun mjög mikið í vinnunni. –  Dag einn spurði stráksi pabba sinn:  „Pabbi hvað færðu á tímann í vinnunni? –    Pabbi svaraði því samviskusamlega, –  ég fæ  3500.- krónur á tímann. –  Strákurinn horfði smá stund íbygginn á pabba sinn,  en gekk svo í burtu.  –    Viku síðar kom sonur hans til hans og  rétti stoltur fram lófann og sagði:   „pabbi – ég hélt tombólu og er búinn að safna 3500.-  krónum  –  má ég kaupa einn tíma hjá þér.   Sumir feður myndu „kveikja á perunni“ eða vakna við þetta – en kannski ekki allir? ..

„Vakið  – þér vitið eigi tímann né stundina“ ..    Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. 

Þetta var vakningarstund fyrir pabbann“ ..  að sonur hans skyldi upplifa það að þurfa að kaupa tímann hans.    Þarna hringdi viðvörunarbjallan –  þessi pabbi var heppinn,  því ekki öll börn biðja um tíma með pabba, – þau kannski bara óska sér þess.  Vakandi faðir áttar sig á þessari viðvörunarbjöllu.    Við vitum það flest að tími með foreldrum er það dýrmætasta sem börn fá,  – og ágætt kannski að hafa það í huga þegar að nálgast jólin.   Dýr leikföng eru eitthvað sem gleður í stutta stund,  en er ekki gjöf sem varir,  á meðan gæðastundir með foreldrum þar sem er leikið – lesið – sungið – spjallað er eitthvað sem byggir grunn barnsins fyrir lífstíð.

Pabbar eru ómetanlegar auðlindir.  – Þeir eru fyrirmyndir bæði fyrir stelpur og stráka.  Sterkasta föðurmynd sem við eigum er að sjálfsögðu í Guð föður.   „Faðir vor“ – er bænin okkar.  Gleðjumst yfir góðum pöbbum, –  sem eru til staðar fyrir börnin sín, – sem elska þau skilyrðislaust – eins og Guð faðir elskar þá. –    Gleðjumst yfir pöbbum og tilfinningum þeirra og leyfum pabba að gráta – þegar hann þarf þess.

Man ég munað slíkan,

er morgun rann með daglegt stress,

að ljúfur drengur lagði á sig

lítið ferðalag til þess

að koma í holu hlýja,

höfgum pabba sínum hjá.

Kúra sig í kotið hálsa,

kærleiksorðið þurfti fá.

Magnús Kjartansson / Vilhjálmur Vilhjálmsson

images

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s