„Býr Jesús kannski í Breiðholtinu? .. prédikun 20. nóvember 2016.

Prédikun út frá Matteusarguðspjalli 25. 31-46,   flutt í Skálholtsdómkirkju og Haukadalskirkju síðasta sunnudag eftir þrenningarhátíð –  í fyrri messunni talaði ég um týnda rjúpnaskyttu en seinni um fundna rjúpnaskyttu.   Prédikun getur því breyst mjög snögglega – eftir aðstæðum!

Kirkjuárinu að ljúka (og einnig mínu 54. aldursári)

„Ekki gera ekki neitt“ .. er slagorð ónefnds fyrirtækis á Íslandi,  og það má kannski segja að það sé kjarninn í guðspjalli dagsins.  Ekki vera skeytingarlaus, – áhugalaus eða afskiptalaus – eftir hvaða orð við notum um hvernig við umgöngumst náunga okkar, – og þá eins og sagt er – okkar minnsta bróður.

Jesús er í raun að segja að hann birtist okkur í alls konar myndum.   Ef við bara tökum fréttir vikunnar hér á Íslandi,  þá gæti Jesús verið týnd rjúpnaskytta,  hann gæti verið lítð barn – hluti af flóttamannafjölskyldu sem ætti að vísa úr landi.   Jesús gæti verið maðurinn sem fær ekki inní í skýli – vegna þess að skýlið er fullt.   Jesús gæti verið 92 ára afi einhvers sem gleymdist í kerfinu og fékk ekki að borða.  –  Jesús gæti líka verið hungrað barn í Afríku.

Ef við værum spurð beint:   Myndir þú hjálpa Jesú í neyð? –  væri einhver sem myndi svara nei? –  Væntanlega ekki. 

Menn bregðast nær undantekningalaust við ákalli um að leita að fólki sem er týnt á fjöllum.  Sumir beita sér gegn því að lítil flóttamannabörn  séu send nauðug úr landi,  sumir leggja sitt af mörkum við alls konar hjálparstarf.    Enda má segja að það sé hluti af mennskunni að sýna samhug í verki og hjálpa hvert öðru.

Jesús gæti líka hafa verið maðurinn sem hún vinkona mín hitti í Nettó – en hún skrifaði eftirfarandi á vegginn á fésbókinni sinni:

„Fór í Nettó í gærmorgun, þar stóð maður að betla peninga fyrir mat. Þetta stakk mig rosalega, hef búið í Breiðholtinu í rúm 20 ár en aldrei séð þetta áður. Ég spjallaði við manninn en hann sagði að Samhjálp opnaði ekki fyrr en kl.14.00 og hann væri að drepast úr hungri. Ég keypti handa honum smotterí og færði, mikið sem hann varð glaður blessaður maðurinn.“ …

Sú sem þetta skrifaði – er fyrrverandi samstarfskona mín á Sólheimum, – og ég lét hana strax vita að ég myndi segja þessa sögu í prédikun næsta sunnudags, enda félli þetta vel að efninu.

Hún lét sig náungann varða,  gaf hungruðum manni að borða.  Hún veitti honum athygli.   Kannski býr Jesús í Breiðholtinu? –

Reyndar tékkaði  ég á því hversu algengt mannsnafnið Jesús væri á Íslandi og það eru einungis tveir skráðir í Íslendingabók, –   en mun fleiri í símaskránni og það þýðir að margir „Jesúsar“ eru útlendingar.

Jesús segir sjálfur að það sem við gerum ekki fyrir okkar minnst bróður gerum við ekki fyrir hann,  þannig að skilaboðin eru skýr:  „skiptum okkur af“  ..  ekki sýna tómlæti.

Þetta er að vísu ekki alltaf einfalt mál,  – sérstaklega vegna þess að það eru svo margir sem flokkast undir þau sem þurfa á hjálp að halda.

Það er algengt að sagt er:  „Við getum ekki – ein og sér –  bjargað heiminum“ – við byrjum á að  bjarga okkur sjálfum. – EN það má ekki fara út í þær öfgar  að við látum okkur ekki hvert annað varða, að við veitum ekki hinum þjáða athygli og gerum það sem í okkar valdi stendur til að aðstoða hann. –

„Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.“ …….

Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“….

Það er til afskiptasemi og það er til afskiptaleysi, – og eins og Prédikarinn sagði „Allt hefur sinn tíma undir sólinni“ – og þar má bæta við:  Það er tími til að skipta sér af og tími til að skipta sér ekki af, – og við þurfum að hafa visku til að greina á milli. –

það er eflaust þessi gullni meðalvegur þar,  eins og annars staðar sem vert er að feta.

Gæðum heimsins er mjög misskipt.

Hluti af heiminum er að einangra sig og drekkja sér í ofgnótt hins veraldlega, ofgnótt matar, ofgnótt afþreyingjar og ofgnótt tómlætis – ef hægt er að orða það svoleiðis, ofgnótt af tómi? –   Við tölum um að fylla upp í tóm-stundir, – hvað er það? –

Hluti af heiminum er þjakaður, þjáður og hungraður – af hungri, vosbúð, kulda – afskiptaleysi. –

– Heimurinn þarf jafnvægi, – alveg eins og hver og ein manneskja þarf að finna hið innra jafnvægi. –

Hvað getum við svo gert til að bæta heiminn–  grunnforsenda þess að gera breytingar er að skilja ástandið,  þekkja hvar veikleikinn liggur og svo breyta. –  Veita sjálfum okkur athygli og veita náunganum athygli.
(lesist með rödd flugfreyjunnar /þjónsins) : „Allir sem ferðast með barn setji súrefnisgrímuna á sig fyrst –  þetta þekkjum við og er mjög oft notað sem líking um mikilvægi að byrja á sér og síðan aðstoða aðra..   og setningin endar líka á –  og aðstoði síðan barnið.“ –

Það þýðir að allir sem eru búnir að setja á sig súrefnisgrímuna ættu að aðstoða barnið en ekki láta þar við sitja.  Við setjum ekki upp grímuna og horfum svo á barnið deyja úr súrefnisskorti – eða hvað?

Fyrsta skrefið er að veita athygli. –  Láta sig náungann varða. –

Ekki fara í niðurrif og hugsa „hvað get ég EKKI gert“ – heldur  „hvað get ég gert?“

Stundum finnst okkur að okkar framlag sé svo lítið að það taki því ekki að hjálpa eða aðstoða.   En þúsundkrónur – geta bjargað miklu  fyrir þann sem ekkert á,  og dugar skv. fréttum UNICEF,  barnahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir jarðhnetumauki fyrir barn í heila viku! –  Það skiptir því barnið máli.   Sama er með fötin sem hjálparstofnun kirkjunnar hefur verið að óska eftir,  – aflagður sparifatnaður – úr skápum okkar sem við erum kannski vaxin upp úr! ..   –  Þessi föt eru fjársjóður fyrir annað fólk.    Flestir geta gert eitthvað – þó það sé ekki nema fyrir einn –  og skilaboðin eru skýr:    Það skiptir Jesús máli.

Þegar við göngum út í daginn – og í vikuna – höfum þetta í huga,  að í hvert skipti sem við erum að gera eitthvað góðverk eða sýnum einhverjum kærleika – erum við að sýna Jesú kærleika.    Það þarf ekki meira til.

jesus

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s