Úr aðventuhugvekju 2014, með smá „endurbótum“ ..
„Á jólunum fögnum við fæðingu frelsarans, – jafnvel þó hann hafi dáið fyrir tæpum 2000 árum síðan!
Allt hefur sinn tíma, það er tími til að gleðjast og tími til að syrgja. Á jólunum er líka tími til að veita frelsaranum athygli. Veita lífinu athygli. Við heiðrum minningu þeirra sem frá okkur eru farin og við heiðrum minningu Jesú Krists. – Við gerum það með því að lifa okkar lífi til fulls, með því að þakka fyrir það hversdagslega, það sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut, en skiptir í raun gríðarlega miklu máli.
Þökkum því fyrir jólin, hátíð friðar. Þökkum fyrir að fá að elska, því eins og skáldið sagði: “það er betra að fá að elska og missa, en að missa af því að elska.”
Verum til og finnum til. Það er hluti af því að vera manneskja í þessu jarðlífi. – Fyllum hjörtun, fyllum þau af friði og fyllum þau af ást.
Mig langar að stinga inn í þessa hugvekju fyrsta og síðasta erindi sálmsins Nóttin er sú ágæt ein, eftir Einar Sigurðsson, en það söng ég iðulega fyrir börnin mín á aðventunni þegar ég var að svæfa þau.
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja’ hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri
Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
„Friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri.“
Gerum okkar ítrasta til að lifa í sátt og friði, – því það þrífst engin/n lengi í ósátt og ófriði. – Leyfum okkur að eiga stund með okkur sjálfum á aðventu og á jólum, – því við skiptum máli. Slökkvum á sterku rafmagnsljósunum og öllum „græjunum“ sem eru iðulega í gangi, kveikjum á kerti setjumst niður og horfum í logann, opnum hjartað og leyfum ljósinu að eiga þangað greiða leið. Öndum djúpt frá okkur sem íþyngir og öndum að okkur jólagleði og jólafrið.
Þannig eigum við samveru með okkur sjálfum og þeim sem búa í hjörtum okkar og þannig tökum við fagnandi á móti frelsaranum, sem sagði:
„Ég lifi – og þér munuð lifa“