Það sem hefur m.a. hjálpað mér í átt til gleði .. eftir að ganga í gegnum óbærilega sorg, er m.a. hugmyndafræði sem ég hef hlustað eftir hjá Esther Hicks, um þau sem deyja, sem ég tel ekki á skjön við Biblíulega hugmyndafræði þar sem Jesús segir: „ég lifi og þér munuð lifa“ .. og einnig er talað um upprisu í dýrðarlíkama.
Ef svo er þá þýðir það að okkar fólk lifir, en bara í umbreyttu formi – eða formleysi.
Þau eru líka komin á eitthvað plan eða svið þar sem ekki eru tilfinningar sem eru eins og tilfinningar okkar sem erum bundin föstu formi, – eins og gremja, reiði o.fl. – þess vegna náum við ekki að vera í þeirra „tíðni“ þegar við sjálf erum full af tilfinningum sem við flokkum sem vondar (þó oft nauðsynlegar).. en þegar við finnum til gleði, ánægju, hamingju – SÁTTAR .. erum við á þeirra tíðni. Við svífum hærra – og þar sem þau eru – í SÁTTINNI ..
Það getur aldrei þjónað neinum sem fer úr þessum heimi að við sitjum eftir í sorg og sút – lengi, lengi .. þeirra vegna. Ef hver og einn lítur í eigin barm – þá myndum við ekki vilja draga ættingja okkar svona niður – að þeir gætu ekki upplifað gleði. –
Sumir lifðu ekki lengur – jarðnesku lífi – en við erum hér enn, og það má líka segja það að það sé ákveðin virðing og þakklæti fyrir okkar líf að við lifum því á sem heilbrigðastan og gleðilegastan hátt á meðan líf er í boði.
„Ég lifi og þér munuð lifa“ .. við lifum öll – á mismunandi stað og tíma og við mætumst eins og stjörnur á ferðalagi, svífum saman – tímabundið – en sundur aftur – en í þeirri fullvissu að við svífum saman á ný – og aftur og aftur.
Þetta aðventuerindi mitt (mitt ekki prestsins) er tileinkað pabba sem hefur verið með mér alla tíð, þó hann hafi „farið“ þegar ég var sjö ára, ömmum mínum og öfum, frænkum, frændum, vinum og vinkonum, mömmu og Evu dóttur minni sem fóru í sína stjörnuferð 2013 .. og mikið þótti mér vænt um þegar ein vinkona Evu sagði hana „smukkeste stjerne pa himlen“ .. eða fallegasta stjarnan á himninum. – Og auðvitað sjáum við OKKAR stjörnu skærasta. Og já, þó ég segi að ég trúi að hún og öll hin lifi – þá eru það samt tár sem trilla, því ekki vil ég neita að ég hefði óskað að hlutirnir hefðu farið öðruvísi, en því verður aldrei breytt – og það er eins og að berja á hurð sem aldrei verður opnuð. Ef við höldum því áfram verðum við örmagna.
EN gleðin og þakklætið munu verða sorginni yfirsterkari – þannig er sátterferlið. Við sem erum „left behind“ eða skilin eftir gerum það besta úr okkar aðstæðum, höldum hópinn, tökum þéttara utan um hvert annað, þökkum lærdóminn af því að meta þau sem við þó höfum í kringum okkur NÚNA til að faðma og knúsa – og njótum þeirra, því við vitum aldrei hver verður næstur í „stjörnuferðalagið“…
Upp, upp mín sál …
smá viðbót .. ég skrifaði þennan pistil á vinnustaðnum mínum – og fór svo út í bíl, og keyrði heim. Á leiðinni heim kom eftirfarandi til mín:
Ég sat við sjúkrabeð dóttur minnar – og hún var búin að fá að vita hvert stefndi. Þá sagði hún við mig, „mamma þið munuð gráta – en það verður allt í lagi með mig“ … og bætti svo við: „Þú veist hvað ég meina“.. og ég svaraði „Já, elskan mín ég veit það“ .. og ég sit uppi með þessa vitneskju, og langar að deila henni með fleirum – og hún vill líka að fleiri viti það, líka þau sem fengu ekki tækifæri til að kveðjast .. eins og við ❤
