„Hvað eigum við að gera?“ .. prédikun í Skálholtsdómkirkju 11. desember 2016.

Guðspjallið er úr 3. kafla Lúkasarguðspjalls – og þar stendur m.a. :

„Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“

Jóhannes skírari er sá sem talar í guðspjalli dagsins,  hann er mættur í sínum skrítnu fötum – úr kamelhári og gyrtur með leðurbelti.   Hann er býsna harðorður – og jafnvel móðgandi og kallar eftir iðrun –  og breyttum mannasiðum og hugsunarhætti.    Hann ákallar þau um að ganga af heilindum inn í hinn nýja sið og halda ekki í hið forna.   Hann er þarna að segja að fólk verði að sýna í verki að þau hafi bætt ráð sitt.   Það dugi ekki til – það  sem fólk hafi lært af forfeðrunum – og það dugar ekki til að fara í gegnum umbreytingarferli skírnarinnar ef það kemur hvergi fram í hegðun þeirra.

Hvað eigum við að gera?  – spurði mannfjöldinn Jóhannes skírara,  Hvað eigum við að gera? –  spurðu tollheimtumennirnir og hvað eigum við að gera? – spurðu hermennirnir Jóhannes skírara –   þar sem hann var að boða fólkinu nýja og betri siði.

Ef við tökum svarið til mannfjöldans þá er það nokkuð skýrt – að ef við eigum tvennt af einhverju er gott að gefa annað hvort sem það er matur eða klæði.   –  Tollheimtumönnunum – bauð hann að taka ekki meira en þeim var uppálagt að gera, – ganga ekki of hart fram og við hermennina  varaði hann þá við að misnota vald sitt – eða svíkja – og láta sér nægja það sem þeir höfðu.

Við getum hvert og eitt spurt þessarar spurningar,   hvort sem það er ég eða þú? –   Hvað eigum við að gera?   Hvað er það sem gott er?   Hver er siðbreytingin sem við þurfum að gera?    Kannski ekki bara í eitt skipti – heldur hvernig göngum við fram í hversdeginum sem góðar manneskjur og sínum í verki að við erum kristnar manneskjur.

Hvernig getum við gert okkar eigið líf að prédikun með því að framkvæma það sem okkur finnst rétt og satt,  eins og að deila með okkur þegar við eigum umframmagn?    –

Ég horfði upp á fallegan „gjörning“  hjá sambýlismanni mínum nýlega.   Þá hafði hann keypt sér fallega vetrarúlpu sem hann var – og er mjög ánægður með.    Útlendingar sem komu til að leigja herbergi á Selfossi,  í heimaleigunni hans – Airbnb kallast það,  –  höfðu samband og taskan húsbóndans hafði týnst og aumingjans maðurinn var kominn til Íslands til að skoða Gullfoss og Geysi – hann var búinn að kaupa sér lágmarksbúnað,  en spurði hvort að Helgi ætti aukaúlpu.   Helgi fór inn í skáp og fann gamla úlpu sem hann keyrði með niður á Selfoss.    Hann kom svo til baka, sjálfur í gömlu úlpunni.   Ég spurði hann hvar fína úlpan væri – með hlýja skinnkraganum og þá sagðist hann hafa lánað manninum hana, því hún væri svo miklu hlýrri.

Þetta er óeigirni – með stóru Ó-i og ég leit í eigin barm og hugsaði með mér – „hann er betri en ég“ .. ég er ekki viss um að ég myndi tíma að lána ókunnri konu glænýja úlpu.   –  Hvað með ykkur? –

Svona gjörningur er eiginlega boðorðið um að elska náungann eins og sjálfan sig  – í hnotskurn og í verki.    Það er hægt að tala endalaust um hvað við erum góð og yndisleg-   en ef við síðan gerum eitthvað allt annað – eða gerum það ekki – sem við segjumst ætla að gera,  þá vantar eitthvað.    Það er líka mikilvægt að hugsa:  „Hvers vegna verðum við eigingjörn?“ ..

Við getum horft á börn að leik,  – sum halda fast í SITT dót og enginn má leika með það – og sum eru sífellt að rétta öðrum og finnst ekkert sjálfsagðara en að lána og deila.   Kannski eru flest vandamál heimsins vegna þessa eignarréttar  – það er seinni tíma umræðuefni, en virkilega þess virði að íhuga.

Það er til saga af stelpu sem átti dúkkuvagn – hann var glansandi fínn og flottur og hún gekk stolt með brúðuna sína í honum. –   Svo einn daginn,  fékk hún leið á bæði vagninum og brúðunni og vagninn var settur upp á háaloft og fékk að rykfalla þar.    Einn daginn fór mamma hennar í svaka tiltektar stuð og hreinsaði  til á heimilinu,  tók það sem enginn notaði lengur og fór með á haugana og í Góða Hirðinn,  sem eins og flestir vita selur notaðar vörur til styrktar góðum málefnum. –    Þangað fór rykfallni dúkkuvagninn sem hafði ekki verið notaður í meira en ár.   Mamman hafði spurt dóttur sína hvort hún vildi eiga vagninn – en hún sagði að hún væri orðin leið á honum og hann væri skítugur.

Skömmu seinna – sá stelpan aðra stelpu á gangi með dúkkuvagninn,  sem hún hafði þá væntanlega fengið í Góða Hirðinum.   Það var búið að pússa hann og gera fínan.   –    Þá runnu tvær grímur á þá stuttu ..  og hún fann til eftirsjár og fór hágrátandi inn til mömmu sinnar og heimtaði að hún fengi aftur dúkkuvagninn sinn, –   hún vildi ekki að einhver önnur fengi að njóta þess að leika með hann.

Hvers vegna er ég að segja þessa hálfgerðu barnalegu sögu – af dúkkuvagni og stelpum?

Jú,  það er þessi eignarréttur – sem er svo ótrúlegur.   Eitthvað sem við vorum ekki að veita athygli og skipti okkur ekki lengur máli,   verður meira spennandi þegar einhver annar hrífst af hlutnum og nýtir hann.

Þetta er svo djúpt og svo alvarlegt – að það má ítrekað sjá þessa hegðun við skilnað.   –  Konan er hætt að veita karlinum athygli – eða öfugt.    Við getum ekki beint talað um rykfallna maka – en samt er ákveðinn samanburður.   Svo kemur ný kona eða maður í líf þess var svo óspennandi og verður hugfangin – og þá – já þá sprettur upp eftirsjá eða afbrýðisemi.   Hvað er rangt við þetta allt?   –

Upphafsspurningin  í hugleiðingunni er:   „Hvers vegna verðum við eigingjörn?“  .. Er það einhver siður til að viðhalda?    Það er einhvers konar eignarréttur okkar –  Þetta er mitt –  hann /hún er MÍN.    –  Það er auðvitað kolvitlaus hugmyndafræði að ástin sé byggð á því að eiga einhverja aðra manneskju.

Enn er spurt:  „Hvað eigum við að gera?“ ..

Hvað vantar?   „Við eigum að elska meira“ – elska náungann eins og okkur sjálf. –

Ef við viljum ekki eiga eitthvað – þurfum við að ná þeim félagslega þroska að fagna því ef annar getur glaðst yfir því. – Ef að við náum ekki að finna hamingjuna í sambandi við einhvern aðila. –  Þá er eigingjarnt að óska honum eða henni óhamingju,  bara vegna þess að okkar samband gekk ekki upp.

Hvað er mitt og hvað er þitt? –   Við ætlumst til að ríkisstjórnin sjái til þess að á komi jöfnuður.   Allir eiga að fá sem jafnast,   – en sjálf erum við í afskaplega ólíkum aðstæðum og gætum eflaust gefið enn meira – án þess að hljóta skaða af.  –

Hvað getum við gert? –  Jesús sagði:

16Ritað er: „Verið heilög því ég er heilagur.“

Það þýðir að fylgja fyrirmynd Jesú er að vera heil.  Lifa af heilindum.

Hvernig lifum við heil? – Það sem við getum gert er að við getum æft okkur í að vera góðar og elskandi sannar  manneskjur,   æft okkur í að gefa án skilyrða – án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn.  Með því að vera þannig – erum við fyrirmynd og líf okkar er góð prédikun sem væntanlega vekur eitthvað gott með þeim sem þiggur, og má alveg eins búast við að hann eða hún gefi áfram.

Þannig skapast það sem kallast félagsauður.    Við getum einnig bætt okkur þannig að við hendum ósiðum okkar og eigingirni í eldinn.   Aflærum það sem er vont – útrunnið og gerir engum gott og lærum það nýja.

Þegar við viljum breyta – er fyrsta skrefið að taka ákvörðun.   Eins og við segjum við Jesú: „Já þinn vil ég vera“ ..    Um leið og ákvörðun er tekin er stefnubreyting tekin..   Stefnan í það að geta gefið þannig að okkur þyki sælla að gefa en að þiggja. –  Og úr því það er sælla erum við að sjálfsögðu að fá tilbaka samstundis. –

Að gefa þýðir ekki alltaf að gefa hluti,  það er hægt að gefa svo margt annað  – eins og tíma – eins og kærleika.

Fullorðin kona sagði einu sinni – að það væri til nægur matur fyrir alla í heiminum,   en það væri ekki til nægur kærleikur,  – því ef að það væri nægur kærleikur – þá fengju allir að borða því þá væri heldur ekki þessi eigingirni – eða eignaréttartilfinning.   Enginn myndi safna einungis í sínar einkahlöður – heldur gefa þeim sem vantar. –

Hvað getum við gert?   Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar –  með því að gera líf okkar að prédikun – með því að  lána – gefa og deila –   eins og við elskuðum náungann eins og okkur sjálf. – 

15178161_10210161959699233_5359295073652597802_n

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s