Leið mig, Guð, eftir þínu réttlæti.
Gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
Því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn!
Tökum þessi orð Engils drottins til okkar, hér í kvöld – hvert og eitt!
Verum óhrædd! Verum hugrökk!
Á landinu öllu er prúðbúið fólk komið saman til aftansöngs á aðfangadagsvöldi jóla – einmitt til að minnast fæðingar frelsarans sem boðuð var með þeim hætti að lýðurinn – sem er auðvitað fólkið – um alla tíð og tíma, ég – og þú – ættum ekki að óttast.
Árið er nú 2016 og það er samt eins og gerst hafi í gær – að þessi viðburður hafi átt sér stað, því hann er svo ljóslifandi fyrir okkur. Og kannski er það ekkert undarlegt því á svo margan hátt erum við minnt á fæðingu frelsarans. Í Betlehem er barn oss fætt, er einn af fyrstu jólasálmunum sem við lærum – og víða um land er það fastur liður að grunnskólabörnin æfi helgileik og sýni í kirkjunum. – Hérna í Skálholtsdómkirkju var dásamlegt að fylgjast með nemendum í grunnskóla Bláskógabyggðar flytja söguna af fæðingu Jesúbarnsins af mikilli innlifun. –
Allt er til staðar, jatan – með Jesúbarninu – Jósef og María – hirðarnir – vitringarnir – englarnir og svo má lengi telja. Á mörgum heimilum er þessu öllu stillt upp – á aðventunni – til að minna á tilefni jólanna.
Það að barn sé fætt í Betlehem er eitthvað sem langflestir þekkja, og líka að þetta barn fékk nafnið Jesús og var einstakt barn – því það var Guð sem tók á sig mynd manns.
Talað er um að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – og sagan verður einhvern veginn öll fallegri við það að Jósef og María fengu ekki inni á hóteli, það er einhvers konar blessun í dulargerfi – að Jesú hafi verið lagður í jötu lágt – en ríkti einnig á himnum hátt.
Sá minnsti sem verður stærstur. –
—
Það er fallegt hvernig við veitum athygli fæðingu Jesú og umgjörðinni allri. Betlehemstjörnunni – sem vísaði vitringunum til hans. Á leiðinni til Skálholts var einmitt ein stjarna á himnum, – ég vona að þið hafið einhver séð hana líka!
Það er líka fallegt að hugsa til dýranna sem voru hluti dýrðarinnar. Það er nefnilega merkilegt hvað dýrin hafa oft mikinn sameiningarmátt fyri okkur mannfólkið. Forsætisráðherrann okkar, hann Sigurður Ingi Jóhannsson flutti góða aðventuhugleiðingu fyrir okkur í kirkjunni, og þegar tal hans beindist að dýrunum – og hann sagði frá því að hann hefði til dæmis þurf að fara frá á jólanótt til að sinna störfum sem dýralæknir – var eins og við ættum mörg auðveldara með að tengja okkur við frásögnina. Það er svo manneskjulegt að vera dýravinur og það er örugglega engin tilviljun að Jesús fæddist í fjárhúsinu. –
Betlehemsstjarnan skín á bæði fólk og dýr.
Við kvörtum stundum yfir myrkrinu – hér á Íslandi – og stundum tölum við um það myrkur sem stundum vill verða í í lifi okkar .. en þá er gott að eiga þessa sýn – Betlehemstjörnuna – og það er í myrkrinu – þar sem meiri líkur eru á að sjá stjörnunarnar – alveg eins og það er í myrkrinu sem við sjáum helst Norðurljósin. Margt fólk vill fara sem lengst í burtu frá flóðlýsingum borganna einmitt til að sjá.
„Verið óhrædd“ .. frelsarinn er fæddur – og frelsarinn sagði sjálfur: „Ég lifi og þér munuð lifa“ ..
Fæðing barns er fagnaðarerefni og þegar barn fæðist sameinast fjölskyldur og við komum saman og höldum upp á þessi afmæli. Og þó við náum oft ekki að koma saman – svona í holdi, þá tengjumst við hvert öðru á einn eða annan máta, afmælisbarnið verður í huga margra og allt það fólk er að tengja við það.
Það er nákvæmlega það sem við gerum um jólin, – tengjumst, komum saman, og fjölskyldur sameinast. Fólk tengir jólin við gleði, frið, góðan mat og drykk – og að njóta þess saman. Hefðirnar eru sterkar, og fólk virðist finna eitthvað öryggi í því að halda í jólahefðirnar.
Það er kannski vegna þess að við erum sjaldan vanafastari en einmitt um jólin, að við finnum mikið fyrir þegar eitthvað sem er vanalegt verður óvanalegt. – Við erum t.d. vön að vera sjö en verðum allt í einu sex. –
Eitt af því sem við gerum líka um jólin er einmitt að minnast þeirra sem áður sátu með okkur til borðs. Minnast þess sem situr nú ekki lengur með okkur – a.m.k. ekki í líkama. – Minnumst Þeirra sem hafa kvatt. – Á Íslandi er rík hefð að fara í kirkjugarðinn – tendra ljós og setja fallegar skreytingar á leiðin. Mágkona mín sem ætlaði sér að vera einstaklega vistvæn – eitt árið – þegar Kirkjugarðar Reykjavíkur óskuðu eftir því – og bjó til fallegan krans m.a. úr eplum til að setja á leiðið hans föður míns eitt árið – en þá komu kanínurnar í Öskjuhlíðinni og átu eplin! .. Við vorum pinku fúl – en fannst það líka fyndið – og alveg í anda pabba! Það má nefnilega ekki gleyma því að þau sem hafa kvatt voru mörg miklir húmoristar.
Það er gott að minnast þeirra sem farin eru eins og við minnumst Jesúbarnsins. Með gleði og með þakklæti.
Mikið getum við verið þakklát fyrir líf Jesú, og fyrir það sem Jesú kenndi okkur. Við getum verið þakklát fyrir nærveru Jesú – sem er í sjálfu sér nóg, við þurfum engin orð – því hann ER Orðið. Mikið getum við líka verið þakklát fyrir jólin, sem sameina okkur í einum huga, – jólin sem verða til þess að við leggjum leið okkar í kirkjuna og eigum samfélag – heyrum falleg orð – setjumst niður, biðjum og syngjum – saman. Það er þetta samfélag sem við eigum í frelaranum Jesú Kristi og með Jesú Kristi, og um leið með hvert öðru. –
Þegar við leggjumst þreytt og södd á koddann okkar í kvöld, – þá er gott að hugsa til jólabarnsins – sem lýsir alls staðar. Það lýsir okkur – það lýsir nú – lýsir þeim sem lifa og þeim sem eru komin yfir til eilífa lífsins.
Það er þetta ljós sem tengir okkur, sem umvefur og sem verður ekki slökkt.
Verum óhrædd ❤ – verum hugrökk!
Hvernig kvað Einar í Eydölum:
„Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja’ hann ei sem bæri.“
Heimsins þrautarmein – er að þekkja ekki Jesús – og fagnaðarerindið sem boðað er um hið eilifa líf.
Verum óhrædd – því Jesús er hjá okkur og við þekkjum hann. Tökum í útrétta hönd hans og fylgjum honum. Treystum honum.
Öndum djúpt frá okkur sem íþyngir og öndum að okkur jólagleði og jólafrið.
Þannig eigum við samveru með Jesú, með okkur sjálfum og þeim sem búa í hjörtum okkar.
Guð gefi okkur öllum Gleði og friðarjól
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.