Hvernig verður maður orð? ..

Prédikun við messu í Miðdalskirkju á jóladag kl. 11:00  – og þar fékk lítill drengur nafnið sitt:  Ingi Leó.  

Úr Jóhannesarguðspjalli: 

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Biðjum með orðum Matthíasar Jochumssonar:

Ó, faðir, gjör mig lítið ljós 
um lífs míns stutta skeið, 
til hjálpar hverjum hal og drós, 
sem hefur villst af leið. 

Það verður að segjast eins og er að það er næstum aldrei meira viðeigandi að skíra barn en á jóladag. –  Sú sem hér stendur – fæddist 21. 1961 og var einmitt skírð af afa sínum á jóladag sama ár, og einnig var það afi hennar sem þýddi Jóhannesarguðspjall, orðin sem voru lesin hér áðan, á sínum tíma.

Nú er það hann  Ingi Leó   sem er jólabarnið.

Tölum aðeins um guðspjall dagsins,  um orðið sem varð hold, – orð sem fæddist sem lítill drengur í Betlehem.    Guð varð orð með Jesú.   –

Hvernig verður fólk orð? –    Haft er eftir Maya Angelou: að fólk muni gleyma hvað þú gerðir eða sagðir, en fólk muni ekki gleyma hvernig því leið eftir að vera í návist þinni. –

Litli drengurinn sem hér var borinn til skírnar – kann ekki mörg orð.  Við gætum sagt alls konar orð við hann,   en orðin skiptu engu máli,  heldur hvernig við segðum þau. –   Börnin eru þau sem koma næst því að skilja tungumál velvildarinnar,  tungumál kærleikans.   Því þau tengjast án orða.   Þau eru líka svo dásamlega fullkomin,   að þau eru svo miklu afslappaðri en við  – og í raun erum við allt lifið í þeirri leit að halda við þessu barnslega í okkur.   Að vera sama hvað aðrir eru að segja eða hugsa um okkur.

Þegar lítil börn heyra tónlist – fara þau oft að dilla sér í takt við laglínuna.    Það er áður en þau eru komin með þessa meðvitund og óöryggi –  um að þurfa samþykki annarra.  – Þykir mömmu ég flottur? – eða er ég kannski bara að gera mig að fífli? –   Lítið barn hefur það fram yfir okkur fullorðna fólkið – að hugsa ekki svona.

Orð Guðs er Jesús Kristur og Jesús er ljósið sem kom í heiminn. –

Páll nokkur,   ekki  postulinn Páll heldur Páll Óskar,  hefur samið fallegan texta um mátt ljóssins yfir myrkrinu:

„Kominn út úr mesta myrkrinu

Vann mig út úr eigin sjálfheldu

En ef að út af ber og ef ég byrja að barma að mér þá minni ég mig á það, sem að mamma sagði mér

Líttu uppí ljós

þá stendur þú með skuggan í bakið

Líttu uppí ljós

sem tekur burtu myrkrið og hatrið

Líttu uppí ljós

Jafnvel inní gráa skýið sólskínið falið“

Kannski hefur Páll Óskar lesið Biblíuna? ..

Jóhannes guðspjallamaður skrifaði um hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann – og komu þess í heiminn.   Þessu ljósi hafi nú ekki verið vel tekið alls staðar – og margir snúið við honum baki,  – en auðvitað varð það þeim að falli,  því eins og segir í texta Páls Óskars þá er mikilvægt að snúa sér að ljósinu en ekki frá því.

Jesús er orðið, –  það er mikilvægt að muna það – þegar fólk fer að rífast um það hvert orð Guðs sé og heldur jafnvel ógnandi á Biblíunni.    Um leið og farið er að berja fólk með Biblíunni er  fólkið ekki lengur að boða Orð Guðs – og alls ekki kærleikans.    –   Það er þannig að sá veldur er á heldur.

Ef við höldum á hamri – getum við lamið með hamrinum, –  en við getum líka byggt upp hús með honum.  Þannig virka orðin sem okkur eru gefin –  við getum notað þau til góðs og við getum notað þau til ills. –  En mikilvægast er –að orð okkar og æði séu í samræmi.  Það þýðir að þegar við segjum falleg orð – þá komum við líka fallega fram. –

Sjálf lenti ég í skemmtilegri uppákomu,  þar sem ég var að ræða við nemanda minn – þegar ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla.  Hún leitaði til mín vegna þess að hún hafði dregist aftur úr námi og fyrir því voru alls konar orsakir,  – og svo komst þetta upp í vítahring – eins og gerist.  Hún sat andspænis mér og ég notaði ýmis gáfuleg og fagleg orð og aðferðir til að aðstoða hana við að koma sér út úr sálarkreppunni. –    Svo þegar samtalinu var að ljúka spurði ég „Hvernig líður þér núna?“ ..

Þá kom þetta svar sem ég átti ekki von á:  „jú mér líður miklu betur af því þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig“ !!!  ..  ég vissi fyrst ekki hvort ég ætti að móðgast,  hvort að allt þetta faglega og menntaða sem ég hafði dregið fram hefði ekki dugað,  en svo varð ég bara þakklát.   Það var þá brosið sem skipti mestu máli?

Orð í sorg 

Það er við aðrar aðstæður, sem við lendum í sem návistin skiptir máli,  og það er þegar við nálgumst vini í sorg.   Við höldum stundum að við þurfum að segja eitthvað voðalega gáfulegt og þá segjum við kannski eitthvað sem er okkur ekki einu sinni eðlislægt.   Við tínum fram speki eða frasa sem við höldum að hjálpi,  því við viljum svo sannarlega hjálpa – en oft virkar þessi speki alls ekki og  getur verið  ótímabær. –    Það eru fá orð sem hjálpa í sorginni,  en það er þetta „að vera til staðar“  eða bara VERA sem hjálpar. –    Þegar barninu líður illa – þá er það ekki að biðja móður sína að segja eitthvað gáfulegt,   það er bara að biðja hana um að taka utan um sig,  hugga með nærveru sinni.  –

Svona erum við Guðs börn,  við þurfum á nærveru Jesú að halda,  Þessu orði sem þarf ekkert að segja – heldur bara vera – og lýsa.   Þetta er svo sannarlega orð sem stendur alltaf opið – og við þurfum ekki annað en að snúa okkur að því þá er það komið. –

Verum þakklát fyrir þessa dásamlegu gjöf Guðs,  orðið sem varð hold.  Verum þakklát fyrir lærdóminn sem við getum dregið af því að vera barn.   Barn sem kann að slaka á þó að jólastressið  sé allt í kring.

Barnið býr í æðruleysinu –   „Barn er oss fætt – sonur er oss gefinn.“   Í dag var lítið barn borið til skírnar, og barnið fékk táknrænt ljós – kertaljós.   Í hvert skipti sem við tendrum kertaljós eða horfum á stjörnu,  – munum þá eftir Jesú Kristi sem er eilíft ljós lífsins. –

Guð gefi okkur öllum Gleði og friðarjól

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

(Ath! – fann þessa mynd á netinu – barnið er ókunnugt – en er með svo einstaklega einlægan svip – og þarf einmitt engin orð til að lýsa honum).

baby

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s