Þegar við segjum frá skömm okkar erum við hugrökk ..

Það er margt sem við mannfólkið skömmumst okkur fyrir.  Sérstaklega er það tengt því – að við stöndumst ekki væntingar annarra og þá heldur  ekki okkar sjálfra.  –

Við ætluðum að „halda út“ þetta samband.

Ætluðum að „þrauka“ þennan vinnustað.

Við ætluðum að standast prófið.

Við ætluðum að vera svo dugleg / sterk / góð / ______   svo erum við bara ekki það sem við ætluðum að vera og við förum að skammast okkar fyrir okkur sjálf.  Það er vont.  Það er svo vont að við viljum ekki finna fyrir því og þá er spurning hvort við deilum því með öðrum og segjum frá því sem veldur okkar skömm EÐA flýjum skömmina með að dópa eða drekka – eða borða ofan í vondu tilfinningarnar – nú eða sækja viðurkenningu fyrir eitthvað annað – sem kemur kannski sem vogarafl gegn því sem við skömmumst okkar fyrir?

Við ætluðum að láta lífið ganga upp eins og púsluspil ..  og svo vantaði í púslið – og við höldum að við höfum týnt púslinu og við þorum ekki að segja frá því. –  Því þá verður einhver  fyrir vonbrigðum – og hver er þessi einhver?

Þegar fólk segir frá því sem fólk almennt skammast sín fyrir  (sem samfélagið er kannski búið að segja því að gera)  – verða oftast mjög margar  sálir sem upplifa þakklæti fyrir það einhver þorir að segja frá sinni (van)líðan,  vegna þess að þær halda að þær séu kannski einar í heiminum með þessa líðan.  –  Þarna er önnur manneskja að segja frá nákvæmlega hvernig þeim líður og segir öllum það – eins og það sé bara allt í lagi?

Er þá ekki bara í lagi með mig líka – hugsar kannski einhver? –

En þetta er ekki alveg svona einfalt.  Því það er alltaf einhver hópur sem kýs gamla mátann.  Að halda leyndarmálin – og eiga kannski bágt með að annað fólk sé að segja frá og kallar þá þessar manneskjur „athyglissjúkar“  eða eitthvað álíka.  –

Nú skiljið þið kannski hvers vegna það er hugrekki að segja frá!  Það er út af hópnum sem dæmir.  Sem getur ekki látið af dómhörku sinni.  Kannski er það fólkið sem er sjálft með bælda skömm og telur að úr því að það geti bitið á jaxlinn með hana – eða drekkt henni í alkóhóli  (sem verður aldrei nema tímabundin fróun) –  eða tekið á henni með yfirborðsmennsku þar sem allt er látið líta út fyrir að vera í lagi þó grasseri undir niðri.

Höldum bara áfram að segja frá því hvað við erum „ómöguleg“  – hvað við höfum oft misstigið okkur,   frá ótta okkur og ófullkomleika.  Því þar erum við í raun ÖLL.

Ef við erum stöðugt að sýnast fyrir öðrum og láta líta út fyrir að við séum  fullkomin,  þá halda hin að þau séu í minnihluta – þessi ófullkomnu.

Skömmin minnkar við það að láta tala um sig og þess vegna þolir hún ekki umtal.  Verum því óhrædd við að sigrast á henni.  Tölum um veikleikana, brestina og allt það sem gerir okkur mennsk.   Við erum nefnilega ekki vélmenni!

Lokaorð .. við erum fullkomlega ófullkomin – og það er bara allt í lagi.   Elskum okkur eins og við erum,  segjum frá – og tengjumst þannig í brestunum okkar.   Það er mjög erfitt að tengjast fólki sem opnar ekkert  hjarta sitt – og felur sig bak við grímu fullkomleikans.

ÁST OG FRIÐUR  …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s