Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan Jesús var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Einu sinni var skemmtileg kona – svolítið skrítin að fólki fannst, en eins og áður sagði mjög skemmtileg! Hún lét hafa það eftir sér að einu sinni hefði hún reynt að vera „normal“ í þrjár mínútur – en það hafi verið þrjár leiðinlegustu mínútur lífs hennar! –
Í raun er engin manneskja og um leið allar það sem kallað er „normal“ eða eðlileg. Það fer bara eftir því hvað við höfum boxið stórt sem við þurfum að passa í. – Það fer líka eftir því hvað er eðlilegt miðað við aðstæður okkar – uppeldi og líka hvernig við erum líffræðilega sett saman. –
Í guðspjalli dagsins er talað um það að Jesús hafi vitað hvað í okkur býr. Hann þurfti engar greiningar til að þekkja okkur. –
Margir muna þá tíð að við að bílar voru merktir með bókstaf eftir landsfjórðungi. R- var fyrir Reykjavík, A – Akureyri, E – var fyrir Akranes og hvaða bókstafur var hér í uppsveitunum? svarið var X
Ég ólst upp í Reykjavík, – og þegar að einhver ók hægt eða undarlega, var litið á bílnúmeraplötuna og sagt: „Já – ekkert skrítið þetta er utanbæjarmaður og t.d. ef það var frá Akranesi, þá skildum við það extra vel því fólkið á Akranesi keyrði óvenju hægt. –
Það var meiri skilningur – vegna þess að bílarnir voru merktir. Núna þegar við sjáum bíl keyra undarlega á þjóðveginum til dæmis, þá erum sumir fljótir að álykta það að þarna sé um útlendinga á ferð sem eru óöryggir að aka á íslenskum þjóðvegum – nú eða í þeirri færð sem hefur verið undanfarið! –
Þarna ályktum við eitthvað, – og þarna eru komnar skýringar á einhverju aksturslagi. En hvað með fólk? Hvað þegar fólk hagar sér á einn eða annan veginn? – Eigum við að fara að merkja fólk? A – með asperger , V- í vondu skapi, S – sorgmæddur, O – fórnarlamb ofbeldis E – eldri borgari og svo framvegis? – ég held að við svörum þessu öllu neitandi.
Það eru hins vegar yfirleitt einhverjar skýringar á því hvernig fólk hagar sér eða er. Nú sumir ganga um brosandi sama hvað á gengur, en við vitum samt ekki nema sá hinn sami gráti í einrúmi – sé einmana – eða eigi miklar sorgir. – Við vitum það ekki en Jesús veit það.
Flest fólk á sínar sorgir, sína vanlíðan. Sumt fólk er með fötlun – sem lýsir sér þannig að það á erfitt með samskipti eins og við teljum almennt mannasiði, það hefur bara ekki getu til dæmis til að setja sig í spor annarra eða setja eðlileg mörk. Í sumum tilfellum tengist það uppeldi og í öðrum er það þannig að heilinn er bara öðru vísi samsettur. – Það eru þó engir merkimiðar á þessu fólki og við viljum ekki þurfa að það beri þá. Við hengjum ekki skilti um háls á fólki – til aðgreiningar.
Jesús vissi allt sem bjó að baki því hvernig fólk hugsaði eða hegðaði sér. Hann veit hver við erum og getur „greint“ allt sem liggur að baki því hvernig við komum t.d. fram.
Fólk sem er næmt á náunga sinn – hefur ríka samkennd, finnur oft hvernig öðrum liður. Sum fólk á auðveldara með að setja sig í spor annarra – og þykir það mjög góður kostur. Jesús hafði náð þessu 100% – „Hann vissi sjálfur hvað í manni býr“ … Það má líka taka það fram að við getum oflesið aðstæður .. við metum aðstæður út frá þvi hvernig okkur sjálfum líður en ekki öðrum – en yfirfærum þær á annað fólk.
Við mannfólkið erum auðvitað meistarar í að flækja lífið!
Hvað er það sem Jesús sér – en aðrir sjá ekki, og er eitthvað sem við erum að fela? Gætum við gert lífið einfaldara ef við slepptum feluleiknum og leyndarmálunum?
Stundum felum við okkur með því að loka á hjartað okkar. – Allir setja upp skráp, þessi skrápur myndast eins og hrúður í kringum hjartað og getur þykknað með hverju áfalli.
Í upphafsbæninni í kirkjunni biðjum við Drottin að opna hjörtu okkar með sínum heilaga anda..
Vandamálið er að þessi skrápur sem lokar, hindrar ekki aðeins vondar tilfinningar, heldur líka góðar tilfinningar. Þau sem eru með þykkasta skrápinn, eru orðin ófær um að yrða eða virða tilfinningar sínar. – Og þá fara aðrir kannski að reyna að lesa í þær?
Eftir því fleiri tilfinningum, vonbrigðum og sárindum yfirleitt við kyngjum eða tökum á móti án þess að virða þær, gráta yfir þeim, segja frá þeim eða leyfa okkur finna þær, þess þykkari, harðari OG þyngri verður skrápurinn.
Það liggur í hlutarins eðli. að það sem er þungt það iþyngir okkur, hamlar og stöðvar. –
Ef við erum með þykkan skráp, vegna ítrekað mislukkaðra sambanda, höfnunar, vantrausts, sorgar og sára þá heldur hann auðvitað aftur af okkur að takast á við nýjar áskoranir, hverjar sem þær eru. Það er eins og ef við föllum oft af hestbaki, þá gætum við orðið hræddari við að treysta því að hanga á baki?
Skrápurinn er eins og varnarskjöldur, – við látum hvorki sverð stinga, né ástarpílur amors hitta því að við erum í vörn.
Partur af því að lifa er að finna til. Vera viðkvæm. Vera auðsæranleg. – Við erum sköpuð með þessar tilfinningar.
(Þarna tók ég upp kristalsglas, og sýndi eiginleika þess – það er viðkvæmt og brothætt – en gífurlega fallegt og svo hefur það fallegan hljóm sem ég leyfði fólki að heyra líka). Fólk er svolítð eins og þetta glas, – og það er fallegt eins og þetta glas. Við veljum frekar að setja kristalsglas á hátíðarborðið okkar en t.d. stálkrukku, þó hún sé sterkari og óbrjótanleg.
Það er hugrekki að viðurkenna veikleika sína, viðurkenna tilfinningar sínar og jafnvel að ræða það sem við skömmumst okkar fyrir. Það er hluti af okkur, og sá hluti sem Jesús sér og elskar okkur samt!
Viljum við vera tilfinningalaus? – Dofin? – Er það ekki bara auðveldast?
Það væri voða gott ef það væri bara hægt að loka á vondu tilfinningarnar, – hægt að velja úr, en því miður er það ekki hægt því þær spila saman.
Kannski þarf brautryðjendur til að koma út úr skápnum með sem tilfinningaverur? – Kannski má gráta, líka fyrir framan aðra. Kannski má sýna tilfinningar? – Líka stóru og sterkbyggðu karlmennirnir sem líður illa inní sér? Tímarnir hafa breyst og sem betur fer mennirnir með. Nýlega kom fram á sjónvarsviðið ungur þingmaður og lýsti þunglyndinu sínu. Hann hefur örugglega rutt brautina fyrir marga – sem annars höfðu upplifað skömm að vera þunglyndir – eins og það hljómar nú „asnalega“ að vera að skammast sín fyrir veikindi – eða okkur finnst það kannski bara þangað til við lendum í að segja frá okkar veikleikum? Fordómarnir eru yfirleitt mestir í eigin garð.
Það má hlæja og það má gráta, það er okkar eðli.
Komum út úr skrápnum – ef við erum ekki komin nú þegar og förum að lifa lífinu af tilfinningu – árið 2017.
En hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? –
Ef við byrgjum inni, þá er svo mikil hætta á að vanlíðanin brjótist út í ljótum orðum, gjörðum og jafnvel ofbeldi. Birtingarmyndin getur verið ofbeldi gagnvart okkur sjálfum eða gagnvart öðrum. Meðvirkni er t.d. í mörgum tilfellum sjálfspíslarhvöt sem myndast þegar eigin tilfinningar eða þarfir eru ekki virtar. – Ofbeldi gagnvart öðrum er aðferð særðu manneskjunnar í skrápnum við að kalla á hjálp. –
„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar“ … Brené Brown.
Hleypum streyminu af stað, losum stíflur, gleðjumst, hryggjumst, grátum heitum tárum …
Hluti af sjálfsvirðingu er að virða tilfinningar sínar.
Það er eðlilegt hverri manneskju að finna til, hvort sem það er til gleði eða sorgar. Ekki deyfa, flýja eða afneita tilfinningum okkar.
Að lifa af heilu hjarta, að fella skjöldinn eða koma út úr skrápnum, það er að hafa hugrekki til að sýna tilfinningar, það er hugrekki til að viðurkenna veikleika, hugrekki til að tjá sig um langanir sínar og drauma, hugrekki til að elska þrátt fyrir yfirvofandi sár eða höfnun, því þegar við elskum lifum við í yfirvofandi skugga þess að vera hafnað eða að missa ástina, – það er eins og lífið er, við lifum í skugga þess að einn daginn endi lífið, en við hættum ekki að lifa. –
Nú er komið nýtt ár. Það er árið 2017. Hvernig væri að gera það að stóra ári náungakærleikans – stóra ári þess að skilja hvert annað, leyfa hvert öðru að vera „skrítin“ – – og um leið að bera virðingu fyrir hvert öðru, og tilfinningum hvers annars. Við mætum fólki eins og það er – og við þurfum ekki að það útskýri fyrir okkur allar sínar þrautir og sorgir, nú eða fötlun – til að við gerum það, ekki frekar en það þarf ekki að aka um í sérmerktum bíl.
Við vitum eitt, að það er amk einn sem veit allt um okkur – og það er Jesús Kristur.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir,
gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.