Prédikun í Skálholtsdómkirkju 15. janúar 2017. En messan hafði yfirskriftina „Sorg og sátt“ – og var tilefnið m.a. það að til messu mættu ekkjur sem voru staddar á vegum Nýrrar Dögunar í Skálholti. – Þar voru líka aðstandendur þeirra og fleira fólk.
Það er okkur öllum hollt að tala um lífið og tala um dauðann, sorgina og sáttina.
—
Biðjum
Guð gefi mér Æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Sátt til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina á milli.
(Reinhold Niebuhr).
Við heyrðum hér áðan lesið upp úr Biblíunni. Fyrst úr gamla testamentinu – um Samúel .. sem trúði því ekki að það væri Guð að tala við hann. Það sem ég vil leggja áherslu á úr þeim ritningarlestri er að það að rabba við Guð hætti ekki eftir að búið var að leggja lokahönd á Biblíuna – eða safna saman ritunum sem mynda hana. Guð talar enn, – og sumum finnst það vera Guð sem talar þegar við hlustum á okkar „innri rödd“ – eða innsæið okkar.
Eða eins og segir í ljóðinu:
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber,
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér!
– Eftir Steingrím Thorsteinsson.
Kannski er Guð alltaf að kalla, en við þurfum bara að heyra.
Síðan las ég úr Rómverjabréfinu – þar sem talað er um að hinn réttláti muni lifa fyrir trú. Trú á fagnaðarerindið sem er boðskapurinn um Upprisu frá dauðum, upprisu til eilífs lífs.
Og að lokum – las ég úr guðspjallinu um hann Sakkeus, en ég mun koma að honum seinna í þessari ræðu minni.
Það var í haust að ég fékk það óvenjulega hlutverk að gifta múslima og kristna manneskju, – reyndar blessa þeirra samband því að þau voru lögformlega gefin saman hjá sýslumanni. Það var pínku undarleg stemming í kirkjunni til að byrja með – einhver andi – og jafnvel órólegur titringur. Hvernig ætlaði presturinn að nálgast þetta, en hún var með ýmis fyrirmæli – til að málamiðla.
Ég horfði yfir hópinn og sá ekki múslima né kristna. Ég sá fólk. Spariklætt fólk sem var allt komið til að fagna með ungu brúðhjónunum.
Þess vegna hóf ég stundina á því að nefna samnefnarann okkar. – Eitthvað sem við gætum örugglega sameinast um – og það var orðið FRIÐUR.
Það var næstum eins og í Jóhannesarguðspjalli þegar Guð sagði verði ljós og það varð ljós. Þegar ég miðlaði orðinu Friður – þá var eins og það gerðist eitthvað töfrum líkast. Fólk kinkaði kolli, annað hvort í raunverulega eða bara innan í sér.
….
Dagurinn í dag og þessi stund hefur fengið sitt orð – og það orð er orðið sátt.
Við dveljum í sáttinni. Því sáttin er svo fallegur jarðvegur fyrir eitthvað fallegt til að vaxa upp úr. –
Yfirskrift messunnar var reyndar bæði sorg og sátt, – og þessi hugtök virka mótsagnarkennd, en þó ótrúlegt megi virðast er sátt einn hluti sorgarinnar. – Sorgarferlið og sátterferlið fléttast saman.
Það kallast á við orðin sem leikkonan Meryl Streep hafði eftir annarri leikkonu sem nú er nýfallin frá eða Carrie Fisher – en þar sagði Streep:
„As my friend, the dear, departed Princess Leia, said to me, ‘Take your broken heart, make it into art.'“
Eða eins og ég þýddi það:
„Tak þitt hjarta trist, og gerðu það að list. – „
–
Þar sem ég hef aflað mér mikillar þekkingar í svokölluðum batafræðum – þá veit ég að bataferli eða heilunarferli verður í raun að fara fram í sátt. – Sátt við hið óásættanlega. – Það er náttúrúlega mikil mótsögn í þessu, alveg eins og að bera hið óbærilega eða fyrirgefa hið ófyrirgefanlega. –
Í Guðspjallinu var lesið um hann Sakkeus sem var í raun „vondi kallinn“ í dag væri hann hluti þessa 1 prósents sem á heldur hjá sér auði heimsins – en Jesús náði að ræða við hann og gefa honum tækifæri – dæmdi hann ekki, heldur bauð honum til samtals, og Sakkeus tók stakkaskiptum og fór að gefa með sér.
Svoleiðis þurfum við stundum að gera við sorgina, við þetta vonda – ræða við það – svo það vinni með okkur.
Þegar við finnum til – þurfum við að viðurkenna tilfinninguna – ekki deyfa hana, eða afneita henni, heldur taka á móti henni eins og gesti, eða vera gestur í sorgarhúsi, þar sem sorgin er „vondi kallinn“ – … eins og Jesús er gestur hjá Sakkeusi, og þannig fer hún að vinna með okkur en ekki á móti okkur. –
—
Það var árið 1969 .. sjö ára stelpa var í pössun á Akureyri, ásamt systkinum sínum – hjá móðursystur sinni og manninum hennar. Einn morguninn komu hjónin mjög alvarleg á svip frænka tók eldri systurina í fangið, og frændi þessa sjö ára, bróðir þeirra fjögurra ára lék sér með bíla á gólfinu og átta mánaða systirin lá á teppi, stóri bróðir – ellefu ára var í pössun hjá afa og ömmu í sveitinni. –
Svo byrjaði frændi að tala: „Mömmu ykkar líður vel – en hann pabbi ykkar er dáinn“ .. Sjö ára stelpan var ég – og mömmu sem að sögn frænku og frænda sem fengu þetta ömurlega hlutverk að segja börnunum frá ótímabæru dauðsfalli föður þeirra, „leið vel“ .. ég veit ekki hvort ég heyrði betur að pabbi væri dáinn eða mömmu liði vel, en ég skildi ekki hvernig mömmu liði vel ef pabbi væri dáinn. – En auðvitað var þetta sagt til að við héldum ekki að eitthvað hefði komið fyrir mömmu líka. Foreldrar mínir, rúmlega fertug bæði – höfðu farið í vikuhvíldarferð til Costa Del Sol, og pabbi drukknað eða fengið hjartaáfall í sjónum. Framhaldið var í móðu. Mamma kom heim. Þetta var 1969 og þá var ekki talað. Eiginlega bara aldrei aftur um pabba. Það var feimnismál. Ég vissi þó að ég hafði átt mjög góðan pabba, sem var annálað ljúfmenni og á eldri árum var sama hvert ég kom – allir vildu segja mér hvað ég hefði átt yndislegan föður. – Pabbi var bara maður – með kosti og galla, en eftir að hann dó varð hann dýrlingur. Mamma hélt heimili ein með fimm börn, sem voru á aldrinu átta mánaða til tólf ára þegar maðurinn hennar synti burt úr jarðlífinu. Hún kom þeim til manns – eins og sagt er. Ég átti traust heimili. – Mamma lokaðist mikið við þetta. Hún hafði kannski aldrei verið hlýja týpan fyrir, en ég man ekki eftir faðmlagi frá mömmu. Mamma var reið út í örlög sín og ósátt við svo margt, og kannski ekki að undra. – En það fór ekki vel með hana. – Það er kannski lykilatriði.
Svo var það ca. 30 árum eftir að pabbi dó, að ég var komin í guðfræði og sá auglýstan fyrirlestur fyrir fólk sem hafði misst maka hjá nýrri dögun. Ég bauð mömmu með mér og hún þáði boðið. Á fundinum var talað almennt um sorgina – og allar undirtilfinningar hennar, en svo stóð upp ung ekkja sem sagðist eiga ung börn og sagði frá því hvernig hún ynni úr sinni sorg og hvað henni þótti mikilvægt. Það var m.a. að hlú að börnunum og svo talaði hún um að hún vissi að maðurinn hennar myndi óska þess að hún lifði lífinu áfram lifandi – fyrir sjálfa sig og börnin og það ætlaði hún að gera, m.a. til að heiðra hans minningu. – Mamma sagði ekkert – en þegar við komum út í bíl byrjaði hún að tala og segja hvað hún hefði dáðst að þessari ungu konu, og hvað það væri nú gott að hlusta á aðrar ekkjur. –
Það er aldrei of seint að leita sér hjálpar í sorginni. Og mér leið vel – að orð ungu konunnar höfðu náð til mömmu.
Ég sem dóttir mömmu, og barn sem missti föður, hefði svo sannarlega þegið að það hefði verið meira rætt um dauðann og um lífið. Við urðum öll svolítið eigingjörn í sorg okkar, við systkinin, – hugsum mest um okkur, – en höfðum líka áhyggjur af sinnuleysi mömmu – sinnuleysi á sjálfri sér aðallega. Það sem foreldrar óska börnum sínum er að þau séu hraust og hamingjusöm, – og að sjálfsögðu óska börn foreldrum sínum þess sama og foreldrarnir eru svo sannarlega fyrirmyndir.
Í dag veit ég hver hinn raunverulegi „dýrlingur“ er í mínu lífi – og það er hún móðir mín sem var til staðar fyrir okkur, en um leið finn ég pinku sting í hjartað yfir því hvað hún setti sig alltaf í 2.3.4. eða 5. sætið en aldrei það fyrsta. Hún hefði þurft að eiga meira súrefni sjálf til að gefa okkur, og þá er það kærleikurinn sem er súrefnið. – Hún gat ekki tekið utan um okkur, vegna þess að hún tók ekki utan um sjálfa sig. – Boðskapurinn er og skilaboðin: Hver sem þú ert – taktu utan um sjálfan þig“ .. Þannig verður faðmlag þitt innilegra og betra gagnvart öðrum. –
Ég las einu sinni bók sem breytti miklu lífi mínu, – hún heitir „Women food and God“ – an unexpected path to almost everything“ .. eða konur matur og Guð – óvæntur farvegur að næstum öllu. Og það er þetta með óvænta farveginn. Við getum kallað það sorgarfarveginn – eða sáttarfarveginn. –
Boðskapurinn var þar að elska sig núna – ekki á morgun þegar eitthvað væri betra, þegar 10 kíló væru farin eða 20, elska líkama sinn eins og hann er og sættast við hann. Ekki „þegar“ og ekki „ef“ .. Eins mótsagnarkennt og það hljómar var grunnurinn að því að losna við þessi kíló – sá að sættast við þau og elska þau. Elska líkamann eins og hann er núna. – Það sama gildir um sorgina sem íþyngir. Það er líka mótsagnarkennt að sætta sig við sorg, eða það ástand sem hún veldur, og að þannig hefjist heilunarferlið, en þannig virkar það í raun. – Það er eins og í meðvirknifræðunum – Þegar við hættum að leita að sökudólgum og ásaka – þá hefst hið raunverulega bataferli. – Þannig virkar nefnilega sáttin og þannig virkar æðruleysið.
Samþykktu sorgina
Ekki flýta þér frá henni
Taktu á móti henni eins og gesti
Gefðu henni tíma og hlustun,
veittu henni skilning
og kærleika.
Þið kveðjið í sátt
hún heldur sína leið
Við og við minnir hún á sig
Þú kinkar kolli
„Já – ég man eftir þér,
ég veit af þér –
en ég hef ákveðið að sættast við þig“
og úr jarðvegi sáttarinnar
sprettur eitthað nýtt
og fallegt.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.
Mamma (1926 – 2013) með börnin sín fimm á fermingardegi miðdótturinnar.