„Verið hughraust, verið óhrædd“ ..prédikun 29. janúar 2017

Prédikun í Skálholtsdómkirkju 29. Janúar 2017

Guðspjall: Matt 14.22-33
Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“

Biðjum saman með orðum Hallgríms Péturssonar:

Vertu Guð faðir faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

„Verið hughraust, verið óhrædd.“

Það var einu sinni maður sem sat á kassa,  hann hafð setið þar í tuga ára og betlað.   Einn daginn kom maður til hans og spurði:  „Af hverju betlar þú?“  …   Sá sem betlaði svaraði: „Nú vegna þess að ég er fátækur og á ekki fyrir mat“ ..  Þá spurði maðurinn aftur: „Hefur þú litið í kassann sem þú situr á?“ ..  en sá sem betlaði svaraði neitandi.  –  Maðurinn bauð honum þá að hjálpa honum að opna kassann og þegar að hann var opnaður, – kom í ljós að hann var fullur af gulli.

Þessi saga er upphafssaga – og um leið skýringarsaga í bók Eckhart´s Tolle um máttinn í Núinu. –  Það er svo margt í hans bók,  hans metsölubók,  sem kallast á við aðra metsölubók og það er  auðvitað Biblían. –

Í Biblíunni – nánar til tekið Davíðssálmi 23, – sem er einn vinsælasti sálmur þjóðarinnar –  syngjum við og lesum:  „mig mun ekkert bresta“  og „bikar minn er barmafullur“  erum við að segja að okkur muni ekki skorta nokkurn skapaðan hlut,  en það að bresta ekkert er einmitt að skorta ekkert –  og  að bikarinn sé barmafullur þýðir að við sjálf séum nóg. –

Ritningarlestrar dagsins og guðspjallið eru líka að segja okkur þetta,   og meira að segja er það þannig í Jobsbók,  að það er í raun ekki fyrr en Job stendur uppi án nokkurs,  án fjölskyldu,  án eigna,  án heilsu ..  að hann áttar sig á Guði,  –  það er enginn „kassi“ utan um gullið.   Hann lítur Guð augum og hann hefur alltaf verið þarna.  Áður þekkti hann einungis Guð af afspurn.

Þetta gull í kassa mannsins sem betlaði – er líka táknrænt fyrir auðinn sem við höfum í sjálfum okkur – hið innra, hinn barmafulli bikar  – sem er svo margt,  en á meðan við göngumst ekki við því eða sjáum það ekki,  – þá trúum við ekki að það sé til og hvað gerum við?   Við betlum.   Við betlum af ótta við að hafa ekki nóg eða vera nóg.

Við spyrjum:  Ert þú til í að gefa mér gleði? –  Ert þú til í að gefa mér hamingju?  –  Ert þú til í að sjá til þess að mér líði vel? –    Við reynum að fá eitthvað hjá öðrum sem við HÖLDUM að við höfum ekki, –  og það verður í raun aldrei annað en ölmusa  –  og virkar allt öðruvísi en þegar það kemur innan frá.

  • Þetta er reyndar líka ein útskýring á meðvirkni, en hún lýsir sér einmitt þannig að við upplifum okkur sjálf ekki nóg – ekki nema að þóknast eða geðjast öðrum og fá frá þeim sem við höldum eða TRÚUM að við höfum ekki sjálf.   Til dæmis elskuna.   „Gefðu mér ást“ .  biðjum við,  en í raun erum við full af ást sem við fengum í guðsgjöf við fæðingu okkar.   Einhvers staðar á leiðinni var okkur talin trú um að við værum ekki elsku verð,  en það var svo sannarlega ekki Guð sem sagði það – heldur mann“guðir“   og því miður stundum okkar nánasta fólk  – sem þó ekki er verið að dæma,  heldur vissi ekki betur og var því líka sagt að það væri ekki elsku vert þegar það var börn. –
    Vald þrífst á ótta og því er sjaldan mikilvægara en einmitt í dag,  þegar valdamiklir menn stíga á stokk og treysta á ótta almennings – að gefa sig ekki óttanum á vald. 

Guð elskar skilyrðislaust,  – við þurfum ekki að „standa okkur“  til að Guð elski okkur,  og til að gera eins og Guð þá ættum við í raun að elska okkur sjálf skilyrðislaust.   Þannig eigum við líka auðveldara með að uppfylla æðsta boðorðið um að elska Guð og elska náungann EINS OG okkur sjálf.   Ekki meira og ekki minna,  og alls ekki að vera beygð undir náungann í ótta við velþóknun hans og vald.  „Allir menn eru skapaðir jafnir“  .. og sumir ekki jafnari en aðrir, eins og við kannski þekkjum úr „Animal farm“ .

„Verið hughraust, verið óhrædd.“

Lífsganga okkar er áhætta, hún er gangan í gegnum dimma dalinn –   og eftir því meira sem við gerum og eftir því meira sem við lifum og elskum eykst áhættan.  Því það er meira að missa. –   Samt er lífið óútreiknanlegt í raun,  og við vitum alveg að sá eða sú sem situr kyrr heima í sófa getur líka misst,   misst af reynslu sem lífið hefur upp á að bjóða og þá þeim þroska að mæta því sem mætir okkur. –   Það er eftirsóknarverðara að lifa út frá þeim sjónarhóli að vera nóg og hafa nóg,   í stað þess að lifa út frá sjónarhóli þess sem er í stöðugri skorthugsun,  – mig vantar þetta og vantar hitt ..  sem er skylt  „þegar og ef“ hugsuninni.  „Þegar ég er búin að ná vissum árangri kemur hamingjan“  eins og að missa ákveðinn kílóafjölda og halda að hamingjan birtist þar.  Þá væru allar grannar manneskjur hamingjusamar! ..    Og við hugsum líka að við náum hamingju –  þegar við er búin að eignast  ________   hugsi hver fyrir sig..   –   Hér er verið að ræða  muninn á  að lifa út frá sjónarhóli skorts eða fullnægju. –

Þegar við göngum lífsgönguna á þennan máti erum við líka að trúa og treysta.  Treysta að allt fari vel – eða hreinlega eins og það á að fara – „verði Guðs vilji“ – eins og við förum með í Faðir vorinu –  og við erum líka óttalaus,   því að sama hvað gerist þá erum við nóg og höfum nóg. –  Við gerum það vegna þess að við göngum með Guði.

Jesús segir við lærisveina sína: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“

   Jesús býður okkur að ganga á vatni, –  eins og hann gerði við Pétur. Hann býður okkur að treysta sér.   

Það er margt í okkar lífi sem virkar óhugsandi að gera eða fara í gegnum,  en þegar við horfum til baka – þá sjáum við að við höfum í raun gengið á vatni. –  Það var eitthvað sem við héldum að við gætum ekki gert –   en gerðum það samt. –

Mörg okkar hugsa til Birnu Brjánsdóttur og þess dimma dal sem foreldrar hennar og önnur náin ættmenni – og vinir eru að ganga í gegnum.   Ef einhver hefði sagt þeim að þau ættu eftir að ganga í gegnum þetta – þá hefðu þau eflaust sagt:  Nei það get ég ekki og það er líka eitthvað sem er óhugsandi. –   En í mörgum óhugsandi aðstæðum,  – þá er fólki þvingað í aðstæður sem það hefur aldrei beðið um,  – en hreinlega neyðist til að fara þangað.   Hvort er þá skárra að ganga þær í öruggri nærveru Guðs í trúnni og voninni á hið eilífa líf og upprisuna –  eða í vonleysinu – að það komi aldrei nýr dagur? –

Ef að einhver hefur einhvern tímann sagt við þig:  „Þú getur ekki“ ..  og þú trúðir viðkomandi,  er kannski tími til að hlusta á Jesús sem segir:  „þú getur“  – „verið óhrædd – verið hughraust, –   ekki gera fólk að guðum skoðana þinna eða tilfinninga.    Þessar ytri raddir að innri. –   Í sumum tilvikum er það flókið,   því að þær hafa verið þarna svona lengi. –

Lykilsetning í því að losna undan álögum mannasetninga – er „ég er ekki hrædd“ eða ég er ekki hræddur“ .. –  og ef við snúum því í algjört traust –   ÉG TRÚI ..  og treysti …

Þegar við lendum í vafa er gott að leita sér stuðnings í bæn, – í tónlist .. en margir hafa sungið um óttann og þar á meðal rapparinn Eminem .. sem syngur: „I´m not afraid – to take a stand“ ..   

Hver og ein manneskja er verðmæt –  guð elskar þig skilyrðilsaust og hefur trú á þér,  – þess vegna er það svo sjálfsagt að þú hafir trú á þér líka og hafa trú á því að Guð gangi alltaf með þér, – hvort sem það er í gegnum  myrkrið eða gleðina – og að hann víkur nákvæmlega aldrei frá þér.   Það er því dásamleg tilfinning að mega ganga með Guði –  hvort sem það er á vatni eða í gegnum dimman dal.   –  En hvort er það ljósið eða myrkrið sem er á ferð um dimma dalinn?

Við skulum láta Marianne Williamsson svara því fyrir okkur.

„Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;“hvers vegna ætti ég að vera klár, fögur/fagur , hæfileikarík(ur) og áberandi?“ Spurningin ætti frekar að vera, „hvers vegna ekki ég? “ Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörleg (ur)  þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.“     

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

Munum að setja ekki ljós okkar undir mæliker.  

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

i-messu

2 hugrenningar um “„Verið hughraust, verið óhrædd“ ..prédikun 29. janúar 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s